Vinir og óvinir í viðskiptum

26.12.2022

Áramótagrein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 25. desember 2022.

„Úkraínustríðið og aðdragandi þess eru eins og hrollvekjandi endurlit til fjórða áratugar síðustu aldar.“

Fyrir fólk sem vinnur við að reyna að efla alþjóðaviðskipti er óhætt að segja að tveir mikilvægir vendipunktar hafi orðið á undanförnum misserum; heimsfaraldur kórónuveirunnar og innrás Rússlands í Úkraínu. Hvort tveggja hefur breytt umtalsvert því landslagi heimsviðskipta sem við höfum þekkt undanfarna þrjá áratugi eða svo.

Sigurför kapítalismans
Eftir endalok kalda stríðsins og fall Sovétríkjanna í árslok 1991 leit um skeið út fyrir að sigurför vestræns kapítalisma og viðskiptafrelsis um heimsbyggðina yrði vart stöðvuð. Heimsviðskipti jukust hratt, hvort sem litið var á vöru- og þjónustuviðskipti eða alþjóðlegar fjárfestingar og fjármálagerninga. Friðsamlegra var á alþjóðavettvangi en oftast nær öldina á undan – og í friði blómstra verzlun og viðskipti.

Bakslag kom vissulega í hnattvæðinguna eftir fjármálakreppuna 2008-2009 þegar heimskapítalisminn fór rækilega fram úr sjálfum sér. Eftir hana hefur þeim öflum vaxið nokkuð fiskur um hrygg, sem vilja setja hömlur á frjáls viðskipti. Heimsverzlunin var samt fljót að taka við sér á ný eftir fjármálakreppuna og óx hratt fram til 2018, en þá fór að hægja á henni á nýjan leik, meðal annars vegna viðskiptadeilna Bandaríkjanna og Kína.

Flóknar alþjóðlegar aðfangakeðjur
Á undanförnum þrjátíu árum hefur orðið til býsna háþróað kerfi þar sem ríki eru háð hvert öðru um aðföng – talið er að um 70% alþjóðaviðskipta byggist á flóknum hnattrænum aðfangakeðjum þar sem hráefni, íhlutir, tækniþekking, umbúðir, þjónusta og vinnuframlag við eina vöru getur komið frá tugum ríkja. Í einum iPhone frá Apple eru hlutir frá 43 ríkjum í sex heimsálfum og myndin verður enn flóknari ef horft er til þess hvaðan grunnhráefnin koma.

Þessar aðfangakeðjur hafa verið hannaðar með það í huga að fyrirtæki þurfi að liggja með sem allra minnstan lager til að draga úr fjárbindingu – og það hefur alla jafna ekki komið að sök; hið alþjóðlega flutninganet hefur sömuleiðis verið svo þéttriðið að afhendingaröryggið hefur sjaldnast verið í hættu. Með þessu hefur sérhæfing og hagkvæmni í framleiðslu vaxið stórum og stuðlað að aukinni hagsæld heimsbyggðarinnar.

Skortur og verðhækkanir vegna heimsfaraldurs
Þessar flóknu keðjur riðluðust allar í heimsfaraldrinum. Við byrjuðum að finna fyrir áhrifunum þegar kom fram á árið 2021, en þá fór að bera á skorti og verðhækkunum. Þá þegar fóru fyrirtæki um allan heim að endurskoða aðfangakeðjur sínar til að tryggja öryggi þeirra. Fjárbinding í birgðahaldi er nú mun meiri hjá mörgum fyrirtækjum en hún var við upphaf faraldursins.

Mörg ríki fóru sömuleiðis að velta fyrir sér hvort þau yrðu ekki að gera betur varðandi t.d. neyðarbirgðir lyfja og lækningatækja, sem harður slagur var um á alþjóðlegum mörkuðum fyrstu mánuði faraldursins. Ein niðurstaðan af þessari endurskoðun var að mörg vestræn fyrirtæki byrjuðu að flytja framleiðslu, sem hafði verið í Kína og öðrum Asíulöndum, nær heimamarkaðinum, t.d. til Austur-Evrópuríkja.

Endurlit til 4. áratugar síðustu aldar
Stóri vendipunkturinn kom svo þegar Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar. Útflutningur Úkraínumanna var þar með í uppnámi, sem olli gífurlegum hækkunum á hveiti, sólblómaolíu og fleiri hrávörum. Vestræn ríki beittu Rússland viðskiptaþvingunum og Pútín Rússlandsforseti vopnvæddi orkuútflutning Rússlands til Evrópuríkja, með afleiðingum sem við þekkjum öll.

Úkraínustríðið og aðdragandi þess eru eins og hrollvekjandi endurlit til fjórða áratugar síðustu aldar; með uppgangi öfgaafla og lítilla karla með mikilmennskubrjálæði, skoðanakúgun og heilaþvotti, yfirgangi hernaðarveldis gagnvart nágrannaríki og öllum þeim skelfilegu hörmungum stríðsrekstrar sem ríki Evrópu höfðu svo margoft strengt þess heit að skyldu aldrei endurtaka sig í álfunni.

Á sama tíma og árásarstefna Rússlands hefur sett öryggismál í Evrópu á annan endann fer samkeppni Kína og Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi vaxandi og margir hafa áhyggjur af harðnandi tóni einræðisstjórnarinnar í Peking gagnvart Taívan. Ein versta hugsanlega afleiðing stríðsins í Úkraínu væri að kínversk stjórnvöld teldu að þau kæmust upp með það sama gagnvart Taívan og Rússar gagnvart Úkraínu.

Pólitískt öryggi aðfangakeðja
Af þessari þróun leiðir að ríki og fyrirtæki þurfa jafnframt að skoða vel pólitískt öryggi aðfangakeðja. Ástandið í orkumálum í Evrópu hefur þannig fært vestrænum lýðræðisríkjum heim sanninn um að það er alls ekki skynsamlegt að vera háð einræðisríkjum með lykilaðföng. Það er ekki þar með sagt að við eigum að hætta viðskiptum við ríki sem hafa önnur markmið en þau sem við aðhyllumst – að minnsta kosti ekki svo lengi sem þau virða grundvallarreglur alþjóðakerfisins – en við verðum í vaxandi mæli að hafa varann á í þeim samskiptum.

Æ fleiri sérfræðingar í alþjóðamálum orða það nú svo að undanfarnir þrír áratugir hafi verið undantekning í sögu alþjóðasamskipta og nú séum við aftur komin á slóðir kalds stríðs og stórveldasamkeppni, sem setja muni mark sitt á heimsviðskiptin á ný. Það þykir eflaust mörgum stór biti að kyngja – þetta tímabil samsvarar til dæmis nokkurn veginn starfsævi undirritaðs – en það þýðir ekki annað en að horfast í augu við raunveruleikann. Heimsbyggðinni hefur að mörgu leyti mistekizt að spila úr þeim tækifærum sem buðust við lok kalda stríðsins.

Endurtökum ekki mistök fortíðarinnar
Við getum hins vegar forðazt að endurtaka mistök fortíðarinnar. Verndarstefnan, sem einkenndi árin á milli heimsstyrjaldanna á síðustu öld, er til að mynda skelfilegt fordæmi. Nú þegar umræða um fæðuöryggi, lyfjaöryggi og neyðarbirgðir ýmissa aðfanga er réttilega komin á dagskrá, sjáum við að sumir talsmenn verndarstefnu í þágu sérhagsmuna þykjast hafa himin höndum tekið og fundið nýjar réttlætingar fyrir því að vernda illa rekna atvinnuvegi fyrir alþjóðlegri samkeppni. Einmitt í ljósi þessa þurfum við að horfa til þess að tryggja áfram aukið frelsi í viðskiptum, en það er líklegra en áður að það gerist aðallega með samningum við ríki sem eru okkur vinveitt og hugsa á svipuðum nótum, til dæmis OECD-ríkin.

Sjálfbærni er líka gott markmið þar sem það er raunhæft og hagkvæmt. Ísland hefur t.d. samkeppnisforskot varðandi framleiðslu sjávarafurða og vistvænnar orku. Á öðrum sviðum verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að við getum aldrei orðið sjálfbær nema með alltof miklum tilkostnaði. Alþjóðaviðskipti verða áfram leiðin til að sinna stærstum hluta þarfa íslenzkra neytenda.

Aukin fríverzlun við Evrópusambandið
Auðvitað eigum við svo á þessum tímum að dýpka enn og efla viðskiptasamstarf við okkar nánustu vina- og bandalagsríki. Nú eru í gangi viðræður Íslands og Evrópusambandsins um fríverzlun, þar sem Ísland fer fram á fulla fríverzlun með sjávarafurðir, á sama tíma og hávær þrýstihópur krefst þess að undið verði ofan af fríverzlun með búvörur. Það væru stór mistök að taka þar skref til baka og hafa af íslenzkum neytendum þá stórauknu fjölbreytni í úrvali matvöru, sem sjá má í verzlunum landsins eftir að síðasti tollasamningur við ESB tók gildi.

Það væru líka risavaxin mistök að leyfa sérhagsmunaöflum í landbúnaðinum þannig að hafa neitunarvald um aukna fríverzlun með fisk, eins og gerðist í fríverzlunarsamningunum við Bretland í fyrra. Þá lá á borðinu tilboð Breta um að lækka mjög tolla á íslenzkum fiskútflutningi, en vegna þess að þeir fóru um leið fram á aukna fríverzlun með búvörur, sögðu hagsmunaaðilar í landbúnaði nei. Það væri vond niðurstaða fyrir þjóðarhag og íslenzka neytendur ef sú saga endurtæki sig.

Viðskiptafrelsið er undirstaða hagsældar
Öryggismál og pólitísk spenna á alþjóðavettvangi munu á næstu árum að öllum líkindum hafa meiri áhrif á milliríkjaviðskipti en undanfarin ár. Við megum samt ekki missa sjónar á þeirri staðreynd að frjáls viðskipti eru undirstaða hagsældar fólks um allan heim. Við eigum að hlúa að viðskiptafrelsinu og leitast við að efla það með vinum okkar, á sama tíma og við gætum þess að verða ekki háð óvinum vestræns lýðræðis.

Grein Ólafs á kjarninn.is

Nýjar fréttir

Innskráning