Vinnu við að efla samkeppni í millilandaflugi lýkur í haust

18.07.2016

OZZOInnanríkisráðuneytið hefur svarað fyrirspurn Félags atvinnurekenda um viðbrögð sín við tilmælum Samkeppniseftirlitsins um aðgerðir til að draga úr samkeppnishömlum við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Hyggst ráðuneytið ljúka í haust vinnu við að meta það svigrúm sem stjórnvöld hafa til að stuðla að aukinni samkeppni í áætlunarflugi um Keflavíkurflugvöll.

Tilmæli Samkeppniseftirlitsins voru gefin út í október í fyrra. Fyrirspurn FA var send í febrúar og ítrekuð í byrjun júní, en þetta eru fyrstu opinberu viðbrögð ráðuneytisins í málinu.

Í bréfi innanríkisráðuneytisins kemur fram að álit Samkeppniseftirlitsins sé „mikilvægt innlegg í umræðu um uppbyggingu og skipulag á samgönguinnviðum hér á landi en með auknum samgöngum til og frá landinu er ljóst að takmörkuð gæði líkt og Keflavíkurflugvöllur geta skipt sköpum þegar kemur að samkeppni.“

FA spurði þriggja spurninga um viðbrögð innanríkisráðherra við tilmælum Samkeppniseftirlitsins:

  • Hefur ráðherra beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr samkeppnishindrunum við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli?
  • Ef svo er, hvaða aðgerðum?
  • Ef ekki, hvers vegna ekki?

Flókið umhverfi
Í svari ráðuneytisins segir: „Úthlutun afgreiðslutíma fyrir áætlun í alþjóðaflugi snýr að flóknu umhverfi alþjóðaviðskipta þar sem viðskiptin fara fram á grundvelli milliríkjasamninga, m.a. loftferðasamninga. Íslensk stjórnvöld hafa samkvæmt skuldbindingum EES-samningsins innleitt Evrópureglur sem mæla fyrir um fyrirkomulag úthlutunar með ítarlegum hætti.

Í kjölfar álits Samkeppniseftirlitsins hefur innanríkisráðuneytið unnið að greiningu málsins og átt samráð við Samkeppniseftirlitið, Eftirlitsstofnun EFTA og Samgöngustofu um álit eftirlitsins, greiningu þess á umræddum markaði og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Í vinnunni er metið það svigrúm sem stjórnvöld hafa til að stuðla að aukinni samkeppni í áætlunarflugi um Keflavíkurflugvöll. Ljóst er að mögulegar aðgerðir verða að rúmast innan þess ramma sem ráðuneytinu er settur á grundvelli almennra laga og alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist.

Stefnt er að því að vinnunni ljúki í haust. Ráðuneytið þakkar áhuga félagsins á málefninu og er tilbúið að ræða við félagið um málefni á sviði samgangna.“

Flugfélög sitji við sama borð
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segist fagna því að ráðuneytið sé að vinna í málinu. „Það er ekki eingöngu Samkeppniseftirlitið, heldur einnig OECD, sem hefur bent á að stjórnvöld geti gert meira til að draga úr samkeppnishömlum á Keflavíkurflugvelli. Evrópska regluverkinu sem ráðuneytið vísar til er einmitt ætlað að tryggja sanngjarna samkeppni, þannig að við hjá FA erum bjartsýn á að lausn finnist sem tryggi að flugfélög sitji við sama borð í Leifsstöð. Það er líka hlutverk ríkisins að auka afkastagetu flugvallarins. Innviðir sem hið opinbera ber ábyrgð á að byggja upp eiga ekki að vera flöskuháls í stækkun markaðarins,“ segir Ólafur.

Svarbréf innanríkisráðuneytisins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning