Félag atvinnurekenda hefur sent velferðarnefnd Alþingis umsögn um frumvarp þingflokks Pírata um styttingu vinnuvikunnar. Félagið ítrekar þá afstöðu sína að vinnutími Íslendinga verði ekki styttur eða framleiðni aukin með lagaboði frá Alþingi, þótt hvort tveggja séu æskileg markmið.
Í frumvarpinu er lagt til að lögbundinn dagvinnutími verði 35 stundir, en í núgildandi lögum er hann 40 stundir. Virkur vinnutími samkvæmt kjarasamningum er hins vegar yfirleitt um 37 stundir. Í umsögn FA kemur fram að félagið geti tekið undir ýmislegt af því sem fram kemur í greinargerð frumvarpsis, eins og að Ísland komi að mörgu leyti illa út úr alþjóðlegum samanburði á lengd heildarvinnutíma, framleiðni vinnuafls og lengd frítíma. FA tekur undir að það er æskilegt markmið að stytta vinnutíma íslenskra launþega, ekki síst karla, og bæta framleiðni.
„Flutningsmenn virðast áfram haldnir þeirri meinloku að með því að stytta dagvinnutíma með lagaboði sé hægt að auka framleiðni og stytta vinnutíma. Verkefnið er langtum flóknara en svo og krefst breytinga í skipulagi, stjórnun og vinnufyrirkomulagi á vinnustöðum, sem eðlilegt er og nauðsynlegt að sé að talsverðu leyti samningsatriði milli vinnuveitenda og launþega. Það er ákaflega hæpið, svo vægt sé tekið til orða, að tengja breytingar á launum, vinnutíma og framleiðni á nærri hálfrar aldar tímabili við lagasetningu um 40 stunda vinnuviku árið 1971. Þar ráða aðrir orsakaþættir langmestu,“ segir í umsögn FA.
Í greinargerð frumvarpsins er brugðist við athugasemdum FA og fleiri samtaka fyrirtækja við fyrri frumvörp: „Það sem frumvarpið gerir er bara að skilgreina hversu margir dagvinnutímar skuli teljast á dag og samtals á viku. Atvinnurekendur og launþegar hafa enn fullan rétt til þess að semja um kaup sín og kjör.“ Síðar í greinargerðinni kemur hins vegar fram að áhrif þess að frumvarpið næði fram að ganga yrðu þau að „[a]ð öllu öðru óbreyttu ætti starfsmaður sem vinnur áfram átta tíma á dag því að hækka í launum sem neumur um það bil korters vinnu.“ FA bendir á að þar með viðurkenni flutningsmenn það sem þeir höfnuðu fáeinum línum framar; að þeir vilja í raun að Alþingi grípi fram fyrir hendur aðila vinnumarkaðarins og hækki launakostnað atvinnurekenda.
„FA ítrekar að félagið telur æskilegt markmið að stytta vinnutíma og hefur velt upp hugmyndum þar um. Það er engu að síður áfram afstaða FA að það verkefni eigi heima hjá aðilum vinnumarkaðarins, en Alþingi geti ekki tekið að sér að stytta vinnutíma Íslendinga og bæta framleiðni í fyrirtækjum með einu pennastriki,“ segir í umsögn FA.