Vörugjöld í sögulegu ljósi

15.01.2015
a8ebf61623e9f5f2Tímabundin vörugjöld í hálfa öld – stórsigur til aukins verslunarfrelsis
Grein eftir Stefán S. Guðjónsson, forstjóra John Lindsay og fyrrverandi framkvæmdastjóra FÍS, í Morgunblaðinu 15. janúar 2015.
Stjórnarmeirihlutinn á þingi steig mikilvægt skref til frjálsari viðskiptahátta hérlendis er almenn vörugjöld voru afnumin nú skömmu fyrir jól með niðurfellingu laga nr. 97/1987. Saga vörugjalda er þó mun lengri og teygir sig aftur til inngöngu Íslands í Fríverslunarbandalag Evrópu 1970, en þá skyldu ýmsir tollar afnumdir. Ríkisstjórn þess tíma hugðist mæta

Stefán Guðjónsson
Stefán Guðjónsson

tekjutapi með þessum nýja skatti. Lögin voru kölluð lög um tímabundin vörugjöld og áttu að gilda í eitt ár. Þegar til kom voru þau framlengd um eitt ár í senn í mörg ár þar til þau voru fest í sessi. Á þeim bráðum 45 árum sem liðin eru frá upphafi skattheimtunnar hafa ótalmargar breytingar verið gerðar og undanþágurnar orðið æði margar, allt eftir pólitísku áhugasviði ráðamanna hverju sinni. Þannig hafa sjónarmið um neyslustýringu oftar en ekki ráðið för. Til grundvallar vörugjöldum á þvottavélar, ísskápa og fleiri heimilistæki lá til dæmis sú skoðun að um væri að ræða »lúxusvarning« sem rétt væri að skattleggja sérstaklega. Furðuleg sjónarmið af þessu tagi eru sem betur fer varla uppi lengur, enda um að ræða tæki sem eru sjálfsagður hluti af lágmarkslífsgæðum nútímafólks.

Vörugjöldin námu framan af á bilinu 17 til 30%, en með lögunum frá 1987 var kerfið að nokkru leyti einfaldað og vörugjaldshlutfallið aðeins eitt, eða 14%. Líkt og með önnur skattalög tóku lögin frá 1987 fjölmörgum breytingum, alls meira en þrjátíu, og brátt hafði gjaldflokkunum fjölgað úr einum í sjö. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu í ársbyrjun 1994 brugðu stjórnvöld á það ráð að breyta þeim tollum sem fella þurfti niður í vörugjöld. Félag íslenskra stórkaupmanna (nú Félag atvinnurekenda) lagði í kjölfarið fram kæru til Eftirlitsstofnunar EFTA, en um var að ræða fyrsta málið sem kom til kasta stofnunarinnar. Sá er þetta ritar starfaði á þeim tíma fyrir umrædd félagasamtök, en að okkar mati voru vörugjöld í reynd ígildi tolla því þau voru lögð á með mismunandi hætti eftir því hvort um var að ræða innlenda vöru eða innflutta. Fjármálaráðherra, sem þá var Friðrik Sophusson, skipaði í kjölfarið nefnd til endurskoðunar á lögunum. Félag stórkaupmanna átti fulltrúa í nefndinni en undirritaður skipaði það sæti. Ýmsar breytingar voru gerðar á lögunum í kjölfarið sem uppfylla áttu kröfu eftirlitsstofnunarinnar.

Almenn vörugjöld lögðust hin seinni ár á sælgæti, kex, öl, gosdrykki, safa, raftæki, hljómtæki, sjónvörp, myndbandstæki og ýmsar byggingavörur. Vörugjaldakerfið var um margt dulin skattheimta sem reynst gat erfitt að átta sig á og þar rak sig margt á annars horn. Sem dæmi má nefna að þá voru blýantar og pennar, sem skólabörn nota, í sama gjaldflokki og kveikjarar og pípur. Ekki réðu manneldismarkmið heldur för því vörugjöld voru lögð á ávaxtasafa en ekki sykraðar mjólkurvörur svo dæmi sé tekið. Samlokugrill bar 20% vörugjald en brauðristar voru undanþegnar, eins og það breytti einhverju hvort brauð væri ristað lóðrétt eða lárétt! En vörugjöldin voru ekki síst dulin skattheimta þar sem þau lögðust á verðmæti vara á milli sölustiga þ.e.a.s. ekki á endanlegt söluverð eins og við þekkjum með virðisaukaskattinn. Með því náðu skattyfirvöld að fela skattlagninguna og þar með sinn þátt í verðmyndun vöru.

Í þessu sambandi er því umhugsunarefni að í Bandaríkjunum er söluskattur, sem kemur í stað virðisaukaskatts, lagður á við kassa og kemur ekki fram í hilluverði. Færa má fram sterk rök fyrir því að þetta sé mun eðlilegri framsetning því við þessa aðferð verður skattheimtan sýnilegri og skýrt hver hlutur ríkisins er og hversu mikið viðkomandi seljandi leggur á vöruna.

Við niðurfellingu vörugjaldanna nú lækkar verð á fjölmörgum algengum neysluvörum og sannast þar með enn og aftur að ekki er nauðsynlegt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið til þess að lækka hér vöruverð. Næsta skref hlýtur svo að vera lækkun svokallaðra ytri tolla sem leggjast á vörur sem upprunnar eru frá löndum utan fríverslunarbandalaga og ber þar helst að nefna Bandaríki Norður-Ameríku.

Það er ástæða til að hrósa fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutanum á Alþingi og óska landsmönnum til hamingju með þetta framfaraskref í átt til frjálsari viðskiptahátta.

Nýjar fréttir

Innskráning