Vottorðin skipta öllu máli

12.11.2014

Rétt upprunavottorð og upprunayfirlýsingar og gögn sem sýna fram á að vara hafi verið undir tolleftirliti, hafi hún verið flutt um þriðja ríki, skipta miklu máli í framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Kína. Þetta var á meðal þess sem kom fram á vel heppnuðum vinnufundi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins (ÍKV) í morgun.

 

Fundurinn var haldinn í húsnæði Félags atvinnurekenda í Húsi verslunarinnar. Gestur fundarins var Jóhann Freyr Aðalsteinsson tollasérfræðingur hjá Tollstjóra. Hann fór yfir samninginn og þau vandkvæði við framkvæmd hans sem hafa komið upp. Bjarni Jónsson hjá Nordic Store hafði einnig framsögu á fundinum og fjallaði um álitamál sem tengjast gildistöku samningsins og hvort tolla eigi vörur sem lögðu upp frá Kína fyrir gildistöku hans 1. júlí en voru tollafgreiddar á Íslandi eftir gildistöku.

 

Jóhann fjallaði meðal annars um álitamál sem var í fréttum í síðustu viku og varðar tollafgreiðslu á vörum sem eru sendar frá Kína um þriðja ríki til Íslands. Hann benti á að samkvæmt fríverslunarsamningnum mætti flytja inn til Íslands vöru að andvirði minna en 600 Bandaríkjadalir án upprunasönnunar. Umskipa mætti vörunni í þriðja landi og jafnvel skipta upp sendingum, en ekki mætti eiga neitt við vöruna. Varan yrði að vera undir tolleftirliti allan tímann sem hún væri í þriðja ríki, eins og ætti til dæmis við um almennar póstsendingar.

 

Hins vegar væri tollinum ákveðinn vandi á höndum, þar sem eitthvað væri um að vara, sem væri pöntuð í kínverskum póstverslunum, væri send af stað beint frá Hollandi, Svíþjóð, Sviss eða Singapúr. Ekki væri þá hægt að sjá neitt um að varan hefði lagt upp frá Kína.

 

Jóhann svaraði í lok fundar fyrirspurnum frá fundarmönnum. Þær voru af ýmsu tagi og vildu margir upplýsingar og útskýringar varðandi innflutning frá Kína, en einnig var spurt t.d. um útflutning á fiski til Kína og möguleika á útflutningi æðardúns. Meðal annars var spurt um hvar útflytjendur í Kína gætu nálgast upplýsingar um fríverslunarsamninginn og benti Jóhann á þessa vefslóð hér.

 

Glærur Jóhanns Freys

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning