Kaffikrókurinn: Yfir 10% kjósenda reka eigið fyrirtæki

06.11.2024

Kaffikrókurinn, hlaðvarpsþáttur FA, hefur göngu sína á ný nú fyrir þingkosningarnar. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA fær forystufólk stjórnmálaflokkanna til sín í viðtöl um málefni fyrirtækjanna og munu þau birtast á Spotify og YouTube vikurnar fram að kosningum. 

Í fyrsta þættinum, sem hægt er að horfa á í spilaranum hér að neðan, fer Ólafur yfir ýmis mál sem félagsmenn í FA hafa sett á oddinn í árlegum skoðanakönnunum félagsins. Þar á meðal eru samkeppnismál, skattar og tollar, vextir og verðbólga og regluverk atvinnulífsins.

Hann leiðréttir líka þann misskilning að atvinnurekendur séu fámennur hópur. Af um 19.000 launagreiðendum á Íslandi er u.þ.b. helmingur einyrkjar og stærstur hluti hinna tíu þúsund fyrirtækjanna minni og meðalstór fjölskyldufyrirtæki eins og þau sem einkenna FA, en þar eru oft margir í hlutverki atvinnurekandans í hverju fyrirtæki.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar reka um 28.700 manns eigið fyrirtæki. „Þannig að það er óhætt að álykta að rúmlega tíu prósent kjósenda á Íslandi séu atvinnurekendur og láti það meðal annars ráða atkvæði sínu hvernig stjórnmálaflokkarnir vilja búa að rekstri fyrirtækja,“ segir Ólafur.

Þátturinn á Spotify

Nýjar fréttir

Innskráning