Yfir 300 milljónir úr vasa neytenda til ríkisins

10.01.2015

Fjölmiðlar hafa í dag fjallað ýtarlega um gagnrýni Félags atvinnurekenda á það úrelta skömmtunarkerfi, sem felst í útboðum ríkisins á tollkvótum fyrir landbúnaðarafurðir.

 

Í fréttum Stöðvar 2 bendir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, á að gjaldtaka ríkisins af innflytjendum vegna innflutningskvóta á búvörum frá ESB, sem átti að vera tollfrjáls, nemi yfir 300 milljónum króna. Það fé færist úr vasa neytenda yfir í ríkiskassann. „Það er bara ríkissjóður sem hagnast. þetta er í raun aukaskattur sem við teljum að sé ólögmætur. Þetta er skattur á það sem átti að vera tollfrjálst,“ segir Ólafur.

 

Í Fréttablaðinu er rætt við Magnús Óla Ólafsson, forstjóra Innness og stjórnarmann í FA. „Tilgangur með tollfrjálsum innflutningskvóta var að hleypa hér inn landbúnaðarvörum á lágmarksgjöldum, neytendum til hagsbóta. Sá tilgangur er algjörlega farinn fyrir bí vegna aukinnar eftirspurnar og fyrirkomulags sem er á kaupunum,“ segir Magnús.
Hann segir þann sem sækir um tollkvóta taka mikla áhættu. „Hann veit ekki hvað hann mun fá mikinn kvóta. Honum er úthlutað eftir því hver eftirspurnin var og þarf að auki að greiða allan kvótann eftir sjö daga. Þetta þýðir að þú ert búinn að kaupa kvóta í lok árs og skuldbinda þig til að flytja inn á kaupverðinu á árinu á eftir. Ég tel að þetta stangist á við stjórnarskrá, það er að segja, að borga tolla, skatta og gjöld áður en tekjuöflunin verður,“ segir Magnús.

 

Á mbl.is var rætt við Ólaf Stephensen. „Ég held að menn hljóti að sjá hvað þetta kerfi er hrika­lega úr sér gengið og ósann­gjarnt, bæði gagn­vart fyr­ir­tækj­un­um sem standa í inn­flutn­ingi og ekki síður gagn­vart neyt­end­um. Þetta sí­hækk­andi verð á þess­um heim­ild­um þýðir bara að upp­runa­lega mark­miðið, að neyt­end­ur fengju vöru á lægra verði og það væri svo­lít­il sam­keppni í þess­ari fram­leiðslu, er ekki að nást,“ segir Ólafur.

 

Í kvöldfréttum RÚV vakti Ólafur athygli á þeim möguleikum sem felast í viðræðum Íslands og ESB um aukna fríverslun með búvörur, en þær eiga að hefjast í næsta mánuði. „Ísland vill betri markaðsaðgang fyrir skyr og lambakjöt inn á ESB-markaðinn og það er nú það sem ráðamenn hafa fókuserað á en á móti verða þeir að láta væntanlega einhvern meiri markaðsaðgang hér á Íslandi og það er mikið hagsmunamál neytenda að þessar innflutningsheimildir rýmki og þessar vörur lækki aftur í verði,“ segir Ólafur.

 

Nýjar fréttir

Innskráning