Yfir 40% telja að COVID-aðgerðir hafi raskað samkeppni

11.02.2021
Smelltu til að stækka myndina.

Yfir 40% félagsmanna FA, sem svöruðu könnun félagsins í byrjun mánaðarins, telja að aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafi haft neikvæð áhrif á samkeppni á markaði. Innan við 20% eru ósammála því að aðgerðir stjórnvalda hafi raskað samkeppni.

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í upphafi opins streymisfundar FA í dag, „Samkeppnin eftir heimsfaraldur“ en þar ræða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra samkeppnismála, Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Ania Thiemann, yfirmaður samkeppnismats hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, um samkeppnisáhrif aðgerða stjórnvalda vegna faraldursins. Þrír félagsmenn í FA fjalla einnig um áhrif aðgerða stjórnvalda á samkeppni.

Í könnun FA voru félagsmenn beðnir að taka afstöðu til tveggja fullyrðinga; „Aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft neikvæð áhrif á samkeppni á markaði“ og „aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu míns fyrirtækis gagnvart keppinautum.“

Svörin voru eins og sjá má á myndunum. Fyrri fullyrðingunni, um áhrif aðgerðanna á samkeppni almennt, sögðust samtals 42% sammála eða mjög sammála, en aðeins 19% sögðust ósammála eða mjög ósammála. Stærsti hópurinn, eða 39%, valdi þó kostinn „hvorki né“ í svari við þessari spurningu.

Smelltu til að stækka myndina.

Fjórðungur telur áhrif á samkeppnisstöðu eigin fyrirtækis neikvæð
Seinni fullyrðingunni, um neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu eigin fyrirtækis, sögðust 26% svarenda sammála eða mjög sammála. Þeir voru þó mun fleiri, eða 42%, sem sögðust ósammála eða mjög ósammála. 32% svöruðu hvorki né.

Könnunin var gerð dagana 27. janúar til 3. febrúar og var send í tölvupósti til 166 félagsmanna með beina félagsaðild. Svör bárust frá 62, eða 37,3%. Svarhlutfall í könnuninni undanfarin ár hefur verið á bilinu 31 til 64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

 

Nýjar fréttir

Innskráning