Yfir 70% skattahækkun á sjö árum – FA hvetur sveitarfélög til að lækka fasteignaskatt

05.06.2019
Atvinnuhúsnæði í Kópavogi.

Félag atvinnurekenda hvetur sveitarfélög á Íslandi til að lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár. Nýtt fasteignamat Þjóðskrár fyrir árið 2020 var birt í dag og samkvæmt því hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu um 6,9%. Hækk­un fast­eigna­mats at­vinnu­hús­næðis á höfuðborg­ar­svæðinu verður 5,9% en 9,3% á lands­byggðinni. Í ljósi þess að fasteignagjöld sveitarfélaga eru ákveðin sem hlutfall af fasteignamati blasir við að skattbyrði fyrirtækjanna þyngist sem þessu nemur, verði ekkert að gert.

77% hækkun fasteignamats atvinnuhúsnæðis 2014-2020
Félag atvinnurekenda bendir á að á síðastliðnum fimm árum, 2014-2018, hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu öllu um 44,1%. Skattheimta sveitarfélaganna af atvinnuhúsnæði hækkaði á sama tíma um 43,7%, úr tæpum sextán milljörðum í tæplega 23. Hlutfall álagðs fasteignaskatts af fasteignamati lækkaði á sama tíma úr 1,64% í 1,63%, en lögleyft hámark fasteignaskatts er 1,65%. Það þýðir að langflest sveitarfélög halda fasteignasköttum í eða nálægt hámarkinu, þrátt fyrir gífurlegar hækkanir fasteignamats.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkaði um 15% frá 2018 til 2019 og nú bætist við 6,9% hækkun, sem þýðir samanlagt 77,2% hækkun fasteignamats á sjö árum, frá 2014 til 2020.

Óverjandi að sveitarfélögin sæki milljarða hækkanir til fyrirtækja
Nokkur sveitarfélög lækkuðu skattprósentuna í fyrra til að bregðast við miklum hækkunum fasteignamats, en þær lækkanir vega sáralítið á móti hækkunum fasteignamatsins. Óhætt er því að fullyrða allt bendi til að skattbyrði fyrirtækjanna í landinu vegna fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði hækki vel yfir 70% á sjö árum.

„Þessar skattahækkanir á fyrirtæki ná ekki nokkurri átt og eiga sér enga hliðstæðu í nágrannalöndum okkar. Í flestum tilvikum er ekkert í afkomu eða greiðslugetu fyrirtækjanna sem endurspeglar þessar hækkanir,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Framundan er tími samdráttar í efnahagslífinu og fyrirtæki þurfa um leið að takast á við hækkun launakostnaðar vegna nýrra kjarasamninga. Það er með öllu óverjandi að sveitarfélögin haldi áfram að sækja sér milljarða króna aukningu í skatttekjur á hverju ári vegna hækkunar fasteignagjalda. Sveitarfélögin þurfa, rétt eins og launþegar, atvinnurekendur og ríkisvaldið, að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum til stöðugleika í efnahagslífinu. Enn frekari hækkanir á skattbyrði vegna fasteignaskatta munu velta út í verðlagið ef sveitarfélögin halda áfram að vera stikkfrí.“

Nýjar fréttir

Innskráning