Í ráðgjöf sóttvarnalæknis og yfirdýralæknis, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sótti sér vegna smíði frumvarps um afnám frystiskyldu á innfluttu kjöti, kemur fram að frystiskyldan hafi fyrst og fremst áhrif á kampýlóbakter í kjöti, en hafi lítil áhrif á aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eða sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þetta er í samræmi við niðurstöður Food Control Consultants, sem unnu skýrslu fyrir FA um mögulega heilbrigðisáhættu af innflutningi ferskra búvara.
Breytir engu hvort kjöt er ferskt eða frosið
Í greinargerð frumvarps landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra segir að leitað hafi verið ráðgjafar yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis. „Samkvæmt upplýsingum frá fyrrgreindum aðilum hefur frysting fyrst og fremst áhrif á magn kampýlóbakter í kjöti en hefur lítil áhrif á aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eða sýklalyfjaónæmar bakteríur,“ segir í greinargerðinni. Þar kemur einnig fram að sóttvarnarlæknir og yfirdýralæknir bendi á að frysting hafi lítil áhrif á aðrar bakteríur og sýklalyfjaónæmi þeirra enda lifi þær af frystingu. „Með vísan til þess breyti engu hvort kjöt sé ferskt eða frosið með tilliti til sýklalyfjaónæmis og er því ekki talið að afnám frystiskyldu muni eitt og sér hafa áhrif á sýklalyfjaónæmi hér á landi.“
Innflutningi aldrei hafnað
Að mati sóttvarnalæknis og yfirdýralæknis er besta leiðin til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómsvaldandi örverur berist með matvælum í fólk að standa að vöktun og viðbrögðum í frumframleiðslu. Matvælaöryggi eykst eftir því sem vöktun og viðbrögð eiga sér stað framar í framleiðsluferlinu.
„Vakin er athygli á því að Matvælastofnun er ekki kunnugt um tilfelli þess að innflutningi á kjöti hafi verið hafnað í ljósi þess að sjúkdómsstaða hafi breyst í útflutningsríki innan 30 daga tímabils vegna frystiskyldu,“ segir í greinargerðinni með frumvarpi ráðherra.
Smit dýrasjúkdóma með kjöti fyrirbyggt
Í greinargerðinni kemur ennfremur fram að að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis hafi afnám frystiskyldu lítil sem engin áhrif á veiru- og bakteríusjúkdóma í dýrum en geti haft áhrif á sníkjudýrasmit. Sú krafa sé hins vegar gerð að kjöt sé framleitt í samræmi við EES-löggjöf. „Auk þess bregðast EES-ríki við með ýmsum hætti ef upp koma alvarlegir dýrasjúkdómar, t.d. með „skyndi-tilkynningarkerfi“ á milli landa. Að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis ætti framangreint að fyrirbyggja að afurðir sem geta innihaldið smitefni dýrasjúkdóma berist hingað til lands. Í því sambandi er vakin athygli á því að hér á landi sé bannað að gefa afurðagefandi dýrum matarleifar sem sé helsta smitleið úr matvælum í dýr en langsótt sé að slíkt komi til. Með vísan til aðgerðaráætlunar ráðuneytisins, sem síðar verður rakin, telja fyrrnefndir sérfræðingar að afnám frystiskyldunnar muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og aðgerðirnar muni minnka áhættuna.“
Kampýlóbaktervottorða krafist
Meðal þeirra aðgerða, sem taldar eru upp í aðgerðaáætlun ráðuneytisins, er að krafist verði vottorða, jafnt með innlendu og innfluttu ómeðhöndluðu fuglakjöti, um að það sé laust við kampýlóbaktersmit. „Að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis eru framangreindar aðgerðir til þess fallnar að hindra eins og kostur er að ófryst hrátt alifuglakjöt á markaði sé mengað af kampýlóbakter en hér á landi er gerð krafa um að sýni séu tekin fyrir slátrun, þ.e. úr eldishópum og að sýnin séu ekki eldri en fimm daga gömul. Þær aðgerðir sem lagðar eru til með frumvarpinu séu til þess fallnar að viðhalda því árangursríka fyrirkomulagi sem hefur verið til staðar hér á landi í nær tvo áratugi enda muni fyrirkomulagið bæði ná til alifuglaafurða sem framleiddar eru hér á landi og erlendis. Framangreint fyrirkomulag hafi skilað miklum árangri í því skyni að minnka líkur á kampýlóbakter smiti í fólk frá alifuglaafurðum hér á landi,“ segir í greinargerðinni um þetta atriði.
Viðbótartryggingar vegna salmonellu
Þá er rifjað upp í greinargerðinni að Ísland hafi fengið samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA við því að beita svokölluðum viðbótartryggingum varðandi salmonellu gagnvart innfluttu kjúklingakjöti, kalkúnakjöti og eggjum. Það þýðir að Ísland getur krafist þess að sýni séu tekin úr vörusendingum og staðfest að þær séu lausar við salmonellu. „Í ljósi þessa er talið að unnt verði að viðhalda lágri tíðni salmonellusmits hér á landi,“ segir í greinargerð frumvarpsins.