Félag atvinnurekenda hefur tekið saman, félagsmönnum til hægðarauka, yfirlit um þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í til aðstoðar fyrirtækjum vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar. Allar ábendingar um betrumbætur á þessum upplýsingum eru vel þegnar.
Uppfært 23. nóvember 2020: Við erum hætt að uppfæra yfirlitið enda er nú loksins komið slíkt yfirlit á vegum stjórnvalda sjálfra á vidspyrna.is. Á vefnum er greinargott yfirlit um helstu úrræði sem eru virk núna eða í vinnslu og upplýsingar um hvar og hvernig sótt er um.
HLUTABÓTALEIÐIN – ATVINNULEYSISBÆTUR Á MÓTI SKERTU STARFSHLUTFALLI
Alþingi hefur samþykkt lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda. Lögin fela í sér að laun sem greidd eru samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Úrræðið gilti í upphafi fyrir tímabilið 15. mars til 1. júní 2020 en var síðar framlengt til loka ágúst 2020.Tekjur þeirra sem hafa 400.000 krónur eða minna í laun á mánuði skerðast ekki, en launamaður getur að hámarki fengið 700.000 krónur samanlagt í laun fyrir hlutastarf og atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun hefur umsjón með umsóknum um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Vinnuveitendur þurfa að staðfesta skert starfshlutfall. Ekki er heimilt að nota hlutabótaleiðina hafi starfsmanni verið sagt upp.
Sjá upplýsingar og skýringarmyndband og spurt og svarað á vef Vinnumálastofnunar.
Eins og áður sagði var hlutabótaleiðin framlengd til 31. ágúst 2020. Hún er í óbreyttu formi út júní, þ.e. lágmarksstarfshlutfall starfsmanns hjá vinnuveitanda er 25%. Frá 1. júlí til 31. ágúst er lágmarksstarfshlutfall hins vegar 50%.
Um greiðslu hlutabóta á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst gilda hert skilyrði. Tímabundinn samdráttur í starfsemi vinnuveitanda er skilgreindur þannig: Meðaltal mánaðartekna vinnuveitanda frá 1. mars 2020 og til þess dags er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu, eða staðfestir hjá Vinnumálastofnun áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu, hafi dregist saman um a.m.k. 25% í samanburði við eitt af eftirtöldum tímabilum:
- meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið 2019
- meðaltal mánaðartekna frá 1. júní 2019 til 31. ágúst 2019
- meðaltal mánaðartekna frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 eða
- meðaltal mánaðartekna frá 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020
Önnur skilyrði fyrir því að atvinnurekandi geti nýtt sér hlutabótaleiðina eru
- að hann hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er starfsmaður sækir um
- að hann hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.
- að hann hafi, á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2022, ekki í hyggju að
- greiða út arð
- lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa
- greiða óumsamda kaupauka
- kaupa eigin hlutabréf
- inna af hendi aðra greiðslu til eigenda á grundvelli eignaraðildar þeirra
- greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga
- veita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna
- greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins
Vinnumálastofnun hefur heimild til að krefjast nánari staðfestingar eða gagna frá vinnuveitanda um þessi atriði og skal orðið við þeirri kröfu tafarlaust.
Komi til þess að vinnuveitandi uppfylli ekki lengur þessar skyldur á tímabilinu frá 1. júní 2020 til 31. maí 2023 skal hann endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem starfsmenn hans fengu greiddar á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2020, með 15% álagi.
Komi í ljós að skilyrðin hafi ekki verið uppfyllt eða fullnægjandi gögnum er ekki skilað, hefur Vinnumálastofnun heimild til að krefjast endurgreiðslu atvinnuleysisbóta til starfsmanna á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2020, með 15% álagi.
Launamaður sem hefur nýtt rétt til hlutabóta skal staðfesta hjá Vinnumálastofnun fyrir 30. júní áframhaldandi nýtingu á þeim rétti
Launamaður sem hyggst nýta rétt til hlutabóta eftir 1. júlí skal staðfesta breytt starfshlutfall við Vinnumálastofnun fyrir 1. júlí.
Vinnumálastofnun verður heimlt að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur launamanna sem fá greiddar hlutabætur.
Í lögunum um hlutabótaleiðina var í fyrstu miðað við að atvinnuleysisbætur taki mið af tekjum starfsmannsins sl. þrjá mánuði. Þetta breyttist þannig og gildir afturvirkt til 15. mars:
- Launamanni er heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði árið 2019.
- Launamanni sem er að koma úr fæðingarorlofi er heimilt að óska eftir að tekið verði mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við
- Launamanni sem var í foreldraorlofi á viðmiðunartímabilinu er heimilt að óksa eftir að tekið verði mið af meðaltali heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en hann hóf töku foreldraorlofs. Vinnumálastofnun getur þá óskað eftir tilkynningu frá vinnuveitanda um tilhögun foreldraorlofsins.
STUÐNINGUR ÚR RÍKISSJÓÐI VEGNA HLUTA LAUNAGREIÐSLNA Á UPPSAGNARFRESTI
Alþingi hefur samþykkt lög um fjárstuðning við fyrirtæki vegna hluta launagreiðslna á uppsagnarfresti. Skatturinn gaf út 16. júní 2020 að umsóknarferli um fjárstuðning á uppsagnarfresti yrði ekki tilbúið fyrir lögbundinn umsóknarfrest, sem rann út 20. júní. „Af þeim sökum mun umsóknarfrestur vegna launagreiðslna í uppsagnarfresti í maí 2020 verða 10 dagar frá því tímamarki að auglýst verður að unnt sé að taka við umsóknum,“ segir í tilkynningu frá Skattinum. Embættið hefur samkvæmt lögum um fjárstuðning á uppsagnafresti 30 daga til að afgreiða fullnægjandi umsókn talið frá því að hún barst. „Þrátt fyrir tafir er stefnt að því að afgreiða umræddar umsóknir vegna maímánaðar 2020 í síðasta lagi 20. júlí sama ár, enda séu þær þannig úr garði gerðar að þær teljist fullnægjandi,“ segir einnig þar.
Settar verða inn fréttir af stöðu undirbúnings fyrir móttöku á umsóknum á vef Skattsins, www.skatturinn.is, eftir því sem tilefni verður til, þ.m.t. hvenær hægt verður að sækja um stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti í maímánuði.
- Til að fá stuðning úr ríkissjóði samkvæmt lögunum þarf atvinnurekandi
- að hafa hafið starfsemi fyrir 1. desember 2019
- að bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi
- að hafa sagt upp launamönnum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstrinum, sem rekja má beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem hafa skapast vegna heimsfaraldursins.
- Atvinnurekandi þarf að uppfylla ÖLL eftirtalin skilyrði:
- Hann sagði viðkomandi launamönnum, sem ráðnir höfðu verið fyrir 1. maí 2020, upp störfum vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
- Meðaltal mánaðartekna hans frá 1. apríl 2020 og til uppsagnardags hefur dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við eitt af eftirtöldu:
a. meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður,
b. meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst árið áður,
c. meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020, eða
d. meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. apríl 2019 til 31. mars 2020. - Hann hefur eftir 15. mars 2020 ekki ákvarðað
– úthlutun arðs – það á þó ekki við ef um er að ræða nýtt hlutafé sem gefið var út til að bregðast við fjárhagserfiðleikum í kjölfar heimsfaraldursins,
– lækkað hlutafé með greiðslu til hluthafa,
– keypt eigin hluti – það á þó ekki við um endurkaup af starfsmönnum vegna kaupréttarsamninga,
– innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans,
– greitt óumsaminn kaupauka,
– greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna.
Jafnframt skuldbindur hann sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur, sjá nr. 5 og 6 hér að neðan. - Hann er
– ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019
– ekki í þeirri stöðu að álagðir skattar og gjöld byggist á áætlunum
– í skilum með skattframtöl og fylgigögn, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum
– búinn að skila öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar.
– búinn að standa skil á ársreikningum og upplýsa um raunverulega eigendur. - Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
- Stuðningurinn nemur 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti, miðað við ráðningarkjör (skv. ráðningarsamningi) 1. maí.
- Hann getur þó að hámarki orðið 633.000 krónur á mánuði vegna launa og 85.455 kr. vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda. Þessar fjárhæðir reiknast hlutfallslega fyrir hlutastörf.
- Þótt launamaður hafi verið tímabundið í skertu starfshlutfalli (hlutabótaleið) hefur það ekki áhrif á stuðninginn.
- Stuðningurinn nær til uppsagna sem koma til framkvæmda frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020.
- Hafi atvinnurekandi sagt upp launamanni með uppsagnardag fyrr, en uppfyllir að öðru leyti skilyrði laganna, getur hann sótt um stuðning vegna launa á uppsagnarfresti í maí og júní 2020.
- Hámarkstímabil stuðnings vegna hvers launamanns er þrír mánuðir, en aldrei lengra en samnings- eða lögbundinn uppsagnarfrestur kveður á um. Ef uppsagnarfrestur er lengri en sex mánuðir ber atvinnurekandinn einn kostnaðinn af því sem umfram er.
- Sérstakur stuðningur greiðist vegna orlofslauna, þó að hámarki 85% eða 1.014.000 kr. fyrir fullt starf.
- Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sótt sé um til Skattsins, en rafrænt umsóknarferli hefur ekki verið útfært.
- Skila skal umsókn mánaðarlega fyrir næstliðið launatímabil, eigi síðar en 20. hvers mánaðar.
- Atvinnurekandi þarf að staðfesta við umsókn að hann uppfylli ofangreind skilyrði, að upplýsingar frá honum séu réttar og að hann átti sig á að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar upplýsingar, sjá nr. 8 að neðan.
- Skatturinn ákveður fjárhæð stuðningsins, sérstaklega fyrir hvern mánuð eða hluta úr mánuði uppsagnarfrests.
- Ákvörðun er ekki tekin nema atvinnurekandi hafi skilað staðgreiðslu skatts af launum viðkomandi mánaðar.
- Að fengnum gögnum tekur Skatturinn ákvörðun innan 30 daga frá umsókn. Stuðningurinn er svo greiddur innan þriggja virkra daga frá því að ákvörðun er tekin.
- Ákvarðanir Skattsins um fjárhæð eru endanlegar á stjórnsýslustigi, eru sem sagt ekki kæranlegar til ráðherra.
- Skatturinn skal endurákvarða fjárhæðina, komi í ljós að atvinnurekandi hafi ekki átt rétt á greiðslu eða þá hærri eða lægri fjárhæð en hann fékk greidda.
- Atvinnurekandi á að færa stuðninginn til tekna í skattskilum sínum, fyrir það rekstrarár sem hann fékk hann greiddan, þar til tap þess árs og yfirfæranlegt tap frá fyrri árum er að fullu jafnað.
- Fjárstuðningur umfram þá tapsjöfnun skal færður í sérgreindan bundinn sjóð meðal eigin fjár.
- Sjóðurinn skal leystur upp með tekjufærslu á næstu fjórum rekstrarárum þar á eftir með 25% tekjufærslu á ári.
- Atvinnurekandi sem vill leysa sig undan skuldbindingum á borð við að greiða ekki út arð getur gert það með því að endurgreiða óuppleystan sjóð, ásamt verðbótum og vöxtum.
- Ef starfsmaður fær annað starf á uppsagnarfrestinum og greiðslum er hætt áður en uppsagnarfresti lýkur, fellur niður réttur atvinnurekandans til stuðnings.
- Atvinnurekandi sem hefur þegið stuðning, verður að upplýsa launamenn sem hann sagði upp, um áform sín um að ráða að nýju í sambærilegt starf og gera þeim þá starfstilboð.
- Skyldan fellur niður að 12 mánuðum liðnum frá uppsagnardegi, en í síðasta lagi 30. júní 2021.
- Viðkomandi starfsmaður skal eiga forgang að starfinu og svara tilboði um starf innan tíu virkra daga.
- Starfsmaðurinn heldur réttindum sem hann hafði áður áunnið sér.
- Ef atvinnurekandi fær stuðning umfram það sem honum bar, ber að endurgreiða hina ofgreiddu fjárhæð með vöxtum.
- Hafi atvinnurekandi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar leggst 50% álag á kröfuna. Fella má álagið niður ef sýnt er fram á að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að réttar upplýsingar væru veittar eða leiðréttingu komið á framfæri.
- Telji Skatturinn hins vegar að háttsemi atvinnurekanda geti varðað sektum eða fangelsi, á ekki að gera honum að greiða álag heldur kæra hann til lögreglu. Fangelsi vegna brota á lögunum getur varðað allt að sex árum.
- Ákvarðanir um endurgreiðslu ofgreidds stuðnings eru aðfararhæfar.
BÆTUR VEGNA LAUNAGREIÐSLNA TIL STARFSMANNA Í SÓTTKVÍ
Alþingi hefur samþykkt lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að sýna merki þess að vera sýktir samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Lögin taka til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 30. september 2020. Lögunum er einnig ætlað að gilda um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda sínum. Hér að neðan eru upplýsingar um greiðslurnar, teknar saman af lögfræðiþjónustu FA 8. júlí 2020.
Til að hemja útbreiðslu COVID-19 er þess vænst að vinnuveitendur greiði starfsmönnum laun í sóttkví, þó ekki sé um eiginleg veikindi að ræða. Það sama á við um starfsmenn sem þurfa að sinna börnum undir 13 ára aldri eða 18 ára aldri þiggi barnið þjónustu skv. lögum nr. 38/2018 sem eru í þeirra forsjá og þurfa að sæta sóttkví.
Verndarsóttkví
Vinnuveitendum ber ekki að greiða laun vegna svonefndrar verndarsóttkvíar, þar sem ekki er um fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda að ræða.
Endurgreiðsla launa til vinnuveitenda
Vinnuveitendur geta sótt um endurgreiðslu á mínum síðum hjá Vinnumálastofnun. Skilyrði fyrir endurgreiðslu er að um sé að ræða sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda (vegna þess að starfsmaður hafi umgengist sýktan einstakling). Sinni starfsmaður í sóttkví starfi sínu á meðan kemur ekki til endurgreiðslu Vinnumálastofnunar. Sinni hann því að hluta kemur til hlutfallslegrar endurgreiðslu. Greiðslur til vinnuveitenda taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Þær geta þó aldrei verið hærri en 633.000 m.v. heilan almanaksmánuð. Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag eru 21.000 kr.
Ferðalög starfsmanna í orlofi til útlanda
Með lögum nr. 37/2020 sem samþykkt voru 11. maí sl. voru gerðar breytingar á lögum nr. 24/2020. Félag atvinnurekenda vekur athygli á að lögin hafa ekki verið uppfærð á vef Alþingis til samræmis við breytingarnar.
Samkvæmt breytingarlögunum kemur ekki til greiðslna samkvæmt lögum nr. 24/2020 hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dveljast í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.
Þegar þetta er ritað er staðan sú að íslenskir ríkisborgarar og aðrir sem búsettir eru hér á landi þurfa að sæta 4-5 daga sóttkví eftir komu til landsins þar til fyrir liggur niðurstaða sýnatöku, óháð því hvaðan þeir eru að koma, sjá hér.
Ef starfsmaður hefur ákveðið að ferðast til útlanda í orlofi sínu á hann því ekki rétt til launa þann tíma sem hann þarf að sæta sóttkví þegar hann kemur heim. Starfsmaður og vinnuveitandi geta þó skipulagt orlof starfsmanns þannig að starfsmaður sé enn í orlofi eftir heimkomu. Ef starfsmaður á ekki inni orlof sem hann getur nýtt þann tíma sem hann sætir sóttkví eftir heimkomu þarf hann að óska eftir launalausu leyfi. Rétt er að starfsmenn hafi þetta í huga við skipulagningu orlofs enda ber þeim að jafnaði skylda til að mæta til starfa að loknu orlofi.
Starfsmaður greinist með COVID-19 eftir utanlandsferð
Greinist starfsmaður með COVID-19 er um veikindi að ræða og getur hann nýtt veikindarétt sinn. Öðru máli kann að gegna um starfsmann sem greinist með sjúkdóminn eftir að hafa ferðast til lands þar sem hætta á sýkingu var mikil en hann kann þá að glata veikindarétti sínum, sjá t.d. umfjöllun hér.
FRESTUN OG LÆKKUN RÍKISINS Á OPINBERUM GJÖLDUM
Alþingi hefur samþykkt lög sem kveða á um frestun og lækkun ýmissa skatta og gjalda til aðstoðar fyrirtækjum. Hægt er að lesa nánar um þessar aðgerðir í „spurt og svarað“ á vef stjórnarráðsins. Gott yfirlit er jafnframt að finna á vef Skattsins.
- Heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds á árinu 2020, á tímabilinu frá 1. apríl til og með 1. desember 2020. Heimilt er að óska eftir frestun á gjalddaga og eindaga til 15. janúar 2021 að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum, sem eru útskýrð nánar á vef skattsins.
- Rekstrarörðugleikar
- Engin vanskil með opinber gjöld og skýrsluskil
- Umsókn um frestun hafi borist tímanlega til Skattsins
Opið er fyrir umsóknir um frestun gjalddaga á þjónustusíðu Skattsins.
- Heimild til að lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu tekjuskatts. Fyrirtæki hafa val um hvort þau greiði fyrirframgreiðslu tekjuskatts á gjalddögunum 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2020. Frestunin tekur ekki til sérstaks fjársýsluskatts, sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki eða jöfnunargjalds alþjónustu sem greiða skal á auglýstum gjalddögum samkvæmt reglugerð nr. 1227/2019. Á þjónustusíðu fyrirtækis hjá Skattinum er skattheimtuseðill þar sem fram kemur skipting á fyrirframgreiðsluskyldu eftir gjöldum og gjalddögum. Þar er því unnt að sjá hvernig heildarfjárhæð fyrirframgreiðslna skiptist upp eftir gjaldtegundum. Greiðsluskylda á mánuði eftir umræddar breytingar er samkvæmt framansögðu óbreytt, 8,5% af heildarfjárhæð síðustu álagningar annarra gjalda en tekjuskatts, þ.m.t. á hverjum gjalddaganna 1. apríl, 1. maí og 1. júní. Sjá nánar á upplýsingasíðu Skattsins.
- Frestun á greiðslu tekjuskatts fyrirtækja. Fyrirtæki sem rekin voru með hagnaði árið 2019 geta frestað tekjuskattgreiðslum og jafnað allt að 20 milljónum króna af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019. Fyrirtæki sem sjá fram á tap á yfirstandandi ári geta þannig sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts þar til álagning ársins 2021, vegna rekstrar á árinu 2020, liggur fyrir og lækkað skattkröfuna sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins, að uppfylltum skilyrðum laganna. Samkvæmt áður gildandi skattalögum var heimilt að færa tap yfir á næstu 10 rekstrarár (yfirfæranlegt tap) en nú er heimilt að færa tap yfir á fyrri ár (afturfæranlegt tap). Fyrirtæki skulu tilkynna Skattinum um þá fjárhæð sem þau kjósa að fresta þegar álagning árið 2020 liggur fyrir, og í síðasta lagi 15. nóvember. Skatturinn á eftir að útfæra form þessara tilkynninga. Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins (ath. að upplýsingarnar hafa ekki verið uppfærðar til samræmis við endanlega útgáfu laganna sem Alþingi samþykkti 11. maí).
- Heimild til niðurfellingar álags á virðisaukaskatt. Á árinu 2020 frá gildistöku laganna er Skattinum heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag á virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Þetta gilti um virðisaukaskatt sem standa átti skil á 6. apríl síðastliðinn. Sjá nánar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ráðuneytið hefur jafnframt heimilað Skattinum að fella niður álag á vangoldinn virðisaukaskatt á gjalddaga 15. apríl vegna aðila sem gera upp mismun út- og innskatts mánaðarlega eftir að hafa verið afskráðir af virðisaukaskattsskrá vegna áætlana en verið skráðir að nýju. Með þessu er svigrúm til greiðslu virðisaukaskatts aukið til muna eða í allt að mánuð. Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga leggjast þó á dráttarvextir frá gjalddaga. Sjá nánar á vef Skattsins.
- Gistináttaskattur verður felldur niður tímabundið á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 og gjalddaga skatts frá janúar og út mars 2020 verður frestað til febrúar 2022.
- Tollafgreiðslugjald vegna skipa og flugvéla verður fellt niður tímabundið, til ársloka 2021.
- Gjalddagi aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabila frá mars 2020 hjá þeim fyrirtækjum sem njóta greiðslufrests í tolli, (tollkrít), verður 5. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virka dag á eftir. Fyrirtækjum verður heimilt að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt engum eða einungis hluta virðisaukaskatts hafi á þeim tíma verið skilað. Sjá tilkynningu um tæknileg atriði vegna þessarar breytingar á tollur.is
- Bankaskattur lækkar. Áður lögfestri lækkun bankaskatts sem taka átti gildi í skrefum 2021-2023 verður flýtt þannig að hún verði öll komin til framkvæmda árið 2021. Þetta á að gera viðskiptabönkum kleift að styðja betur við fyrirtæki sem þurfa á lánsfjármagni að halda.
- Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu fólks við íbúðarhúsnæði á byggingarstað verður tímabundið hækkuð úr 60% í 100%. Heimildin verður jafnframt látin ná til frístundahúsnæðis og hönnunar eða eftirlits. Þá er heimildin útvíkkuð tímabundið til reikninga vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis, s.s. garðvinnu, ræstingar sameignar og annarra þrifa, og til viðhalds á fólksbifreiðum. Sjá nánari upplýsingar á vef Skattsins.
- Innflytjendur, sem stunda innflutning á ökutækjum í atvinnuskyni og hafa gert upp vörugjald á ökutækjum miðað við eins mánaðar uppgjörstímabil, munu frá 1. mars 2020 fá að fresta greiðslu vörugjalds fram að nýskráningu ökutækis, þó ekki lengur en í 12 mánuði frá tollafgreiðsludegi. Þeir innflytjendur sem þegar hafa greitt gjaldið geta óskað eftir endurgreiðslu vegna þeirra ökutækja sem falla undir gjalddagabreytinguna. Nánari upplýsingar eru á vef Tollstjóra.
- Endurgreiðsla framleiðslukostnaðar kvikmynda. Framleiðendur kvikmynda geta óskað eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu á milliuppgjörum verkefna sem þegar hafa fengið vilyrði fyrir endurgreiðslu 25% kostnaðar. Með reglugerðarbreytingu verður framleiðendum heimilt, á tímabilinu 1. apríl til 1. júlí 2020, að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu að hluta. Þetta á við verkefni sem áður hefur fengið vilyrði fyrir endurgreiðslum, þó framleiðslu sé ekki lokið. Þessi hlutaendurgreiðsla kemur til frádráttar fullri endurgreiðslu við lokauppgjör. Sérstök skilyrði eru sett fyrir hlutaendurgreiðslunni, m.a. um áhrif COVID-19 á verkefnið. Sjá tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og reglugerð um breytinguna.
FRESTUN SVEITARFÉLAGA Á FASTEIGNAGJÖLDUM
Sveitarfélög hafa fengið lagaheimild til að fresta fasteignagjöldum fyrirtækja.
- Borgarráð hefur samþykkt tímabundnar breytingar á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Eftirstöðvum ógjaldfallinna fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins, sem koma til gjalda í maí til október, verður dreift á mánuðina maí til desember. Ógjaldfallin fasteignagjöld koma því til greiðslu á átta mánuðum í stað sex mánaða. Ekki þarf sérstaklega að sækja um þetta úrræði.
Hins vegar geta fyrirtæki óskað eftir því að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, vegna tekjufalls, til 15 janúar 2021. Sömu skilyrði eru fyrir frestun gjalddaga fasteignaskatta og gjalda og fyrir frestun opinberra gjalda hjá skattinum, sjá að ofan. Hér er sótt um um þetta úrræði.
Athugið: Fyrirtæki skulu einnig hafa sótt um sambærilega frestun opinberra gjalda hjá Skattinum og með umsókninni til Reykjavíkurborgar skal fylgja staðfesting frá Skattinum fyrir umsókn um frestun opinberra gjalda. - Sveitarfélögin í Kraganum (Seltjarnarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og Mosfellsbær) hafa samþykkt svipaða frestun á fasteignagjöldum, sjá sameiginlega tilkynningu.
- Fleiri af stærri sveitarfélögum hafa ákveðið sambærilega frestun fasteignagjalda fyrirtækja, til dæmis Akureyrarkaupstaður, Akraneskaupstaður, Reykjanesbær, Árborg, Ísafjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð og Borgarbyggð.
AÐGERÐIR SEÐLABANKA ÍSLANDS TIL AÐ AUKA AÐGANG AÐ LÁNSFÉ
Seðlabankinn hefur gripið til ýmissa aðgerða í því skyni að bæta aðgang fyrirtækja að lánsfé. Sjá upplýsingar á vef Seðlabankans.
- Seðlabankinn hefur lækkað vexti um samtals 1,75 prósentustig á undanförnum mánuðum.
- Lækkun sveiflujöfnunarauka viðskiptabanka úr 2% af áhættugrunni í 0% getur aukið útlánagetu bankakerfisins um 350 milljarða króna.
- Þá hefur bankinn einnig lækkað og breytt framkvæmd bindiskyldu. Aðgerðin losar um 40 milljarða króna til viðbótar í bankakerfinu.
- Bankinn hefur ákveðið að bjóða fjármálafyrirtækjum í reglulegum viðskiptum við bankann sérstaka og tímabundna lánafyrirgreiðslu í formi veðlána.
- Peningastefnunefnd hefur einnig ákveðið að hætta að bjóða upp 1 mánaðar bundin innlán. Að mati bankans eykur það laust fé í umferð og styrkir miðlun peningastefnunnar enn frekar.
BRÚARLÁN TIL FYRIRTÆKJA
- Tekjutap fyrirtækis er ófyrirséð og nemur að lágmarki 40% og unnt er með rökstuddum hætti að rekja það beint eða óbeint til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana sem honum tengjast að mati lánastofnunar.
- Fyrir liggur að lánastofnun hafi gripið til allra þeirra úrræða sem hún gripi til undir venjulegum kringumstæðum til að leysa lausafjárvanda fyrirtækis til að viðhalda rekstri þess og að fyrirtæki uppfyllir ekki skilyrði sem alla jafna eru sett fyrir frekari lánveitingum af hálfu lánastofnunar samkvæmt útlánareglum hennar
- Viðbótarlán verður að veita fyrir lok árs 2020 og hámarkslánstími frá útgáfu er 18 mánuðir.
- Ábyrgð á einstökum viðbótarlánum verður að hámarki 70%.
- Lán til einstaks aðila munu geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði árið 2019 og launakostnaður félags verður að lágmarki hafa verið 25% af heildarrekstrarkostnaði þess árið 2019.
- Lán sem nýtur ábyrgðar getur hæst numið 1,2 milljörðum króna.
- greitt út arð
- greitt út óumsamda kaupauka (bónusa)
- keypt eigin hlutabréf eða veitt eða greitt lán til eigenda eða nákominna aðila
- greitt víkjandi lán fyrir gjalddaga
- greitt neinar þær greiðslur til eigenda eða nákominna aðila sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi félagsins.
LOKUNARSTYRKIR TIL FYRIRTÆKJA
Alþingi hefur samþykkt lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila, sem kveða á um lokunarstyrki til fyrirtækja sem neyddust til að hætta starfsemi vegna heimsfaraldursins. Sjá nánar í „spurt og svarað“ á vef Stjórnarráðsins.
- Fjárhæð lokunarstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði fyrirtækis tímabilið 24. mars til 3. maí 2020. Lokunarstyrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þúsund krónur á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020 og ekki meira en 2,4 milljónir króna á hvern rekstraraðila. Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.
- Til að fá lokunarstyrk þarf atvinnurekandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Honum var gert skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda.
- Tekjur hans í apríl 2020 voru a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
- Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru a.m.k. 4,2 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
- Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Að auki skal hafa staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.
- Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
- Sækja skal um styrkina til Skattsins eigi síðar en 1. september 2020. Hér eru leiðbeiningar um umsóknarferlið. Nánari upplýsingar og reiknivél er að finna hér.
STUÐNINGSLÁN TIL FYRIRTÆKJA
Samkvæmt ofangreindum lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila skulu lánastofnanir veita minni og meðalstórum fyrirtækjum stuðningslán með ríkisábyrgð að fullu eða að stórum hluta. Sjá nánar í „spurt og svarað“ á vef Stjórnarráðsins.
- Lánastofnanir eiga eftir að semja við Seðlabankann um útfærslu lánanna. Lögin gera ráð fyrir að lánin verði veitt fyrir árslok.
- Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum fyrirtækisins á rekstrarárinu 2019. Ef hann hóf starfemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
- Hámarkslán með 100% ríkisábyrgð er 10 milljónir króna, en lán á bilinu 10-40 milljónir eru veitt með 85% ríkisábyrgð og er lánastofnun heimilt að leggja hóflegt álag á síðarnefndu lánin.
- Skilyrðin sem atvinnurekandi þarf að uppfylla til að eiga rétt á þessum lánum eru eftirfarandi:
- Tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars til 30. september 2020 voru, eða fyrirséð er að þær verði, a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili 2019. Hafi hann hafið starfsemi svo seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
- Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru að lágmarki 9 millj. kr. og að hámarki 1.200 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
- Launakostnaður hans á rekstrarárinu 2019 var a.m.k. 10% af rekstrarkostnaði hans sama ár. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
- Hann hefur ekki greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi rekstraraðilans frá 1. mars 2020 og skuldbindur sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.
- Hann er ekki í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur en 90 daga.
- Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Að auki skal hann hafa staðið skil á ársreikningu, upplýst um raunverulega eigendur og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, ef við á.
- Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
- Hann uppfyllir hlutlæg viðmið sem ráðherra skilgreinir í reglugerð og gefa tilefni til að ætla að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru eru liðin hjá.
- Sótt skal um lánin á vefnum island.is.
- Reglurnar gilda eingöngu um stuðningslán til smærri fyrirtækja, en ekki um viðbótarlán eða svokölluð brúarlán.
- Gert er ráð fyrir að umsóknir fari í gegnum island.is.
- Greint verður á milli umsókna um lán með 100% ríkisábyrgð (upp að 10 milljónum) og um lán með 85% ríkisábyrgð (10-40 milljónir)
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem umsjónaraðili Ísland.is, aflar upplýsinga frá fyrirtækinu sem sækir um lán, lánastofnunum, Skattinum, Fjársýslu ríkisins og aðilum sem annast lánshæfismöt eða vanskilaskrár sem eru nauðsynlegar til að meta hvort rekstraraðili uppfylli skilyrði fyrir því að fá stuðningslán.
- Ráðuneytið framsendir síðan umsóknina ásamt upplýsingum til aðallánastofnunar rekstraraðila, sem oftast er viðskiptabanki. Hafi bankinn ekki samið við Seðlabanka Íslands um veitingu stuðningslána, getur fyrirtækið valið banka sem samið hefur við SÍ.
- Ráðuneytið á að upplýsa lánastofnunina um hvort framkomnar upplýsingar gefi til kynna að fyrirtækið uppfylli skilyrði fyrir því að fá stuðningslán og hvort umsóknin kunni að kalla á sérstaka skoðun lánastofnunarinnar.
- Lánastofnunin sem fær umsókn framsenda ákveður hvort fyrirtækinu skuli veitt stuðningslán og fjárhæð þess. Hún getur kallað eftir frekari upplýsingum og gögnum frá rekstraraðila ef hún telur það nauðsynlegt til að taka ákvörðun um lánveitingu, þ. á m. um fjárhæð láns.
- Lánastofnun afgreiðir stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu á grundvelli umsóknar og upplýsinga sem henni berast nema hún megi bersýnilega ætla að umsóknin byggist á ófullnægjandi upplýsingum.
- Lánastofnun er heimilt að veita rekstraraðila stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs uppfylli hann öll skilyrði laganna um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, viðmið reglugerðarinnar sjálfrar um rekstrarhæfi og mögulega viðmið sem lánastofnunin setur um veitingu slíkra lána skv. samningi við Seðlabankann.
- Athugið vel að heimildir lánastofnana til að veita þessi lán ná aðeins til ársloka 2020 og mikilvægt er að sækja um í tíma, hafi fyrirtæki í huga að nýta þetta úrræði.
- Hvert fyrirtæki getur fengið allt að tvö stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu og allt að tvö stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs. Stuðningslán til hvers rekstraraðila geta þó samanlagt aldrei orðið hærri en sem nemur 10% af tekjum fyrirtækisins á rekstrarárinu 2019 og aldrei hærri en 40 milljónir króna.
- Skilyrði um rekstrarhæfi fyrirtækis eftir heimsfaraldurinn eru þannig fram sett að a.m.k. annað af eftirtöldu á við:
-
Samkvæmt síðasta lánshæfismati þegar umsókn er lögð fram eru líkur á alvarlegum vanskilum af fyrirtækisins hálfu næstu tólf mánuði minni en 5%.
-
Fyrirtækið uppfyllir a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
-
Það er ekki á vanskilaskrá þegar umsókn er lögð fram.
-
Reksturinn skilaði hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) a.m.k. annað af tveimur síðustu rekstrarárum eða frá því að fyrirtækið hóf starfsemi til loka febrúar 2020 hafi það ekki starfað heilt rekstrarár.
-
Eigið fé rekstrar var jákvætt í lok síðasta rekstrarárs eða í lok febrúar 2020 ef starfsemi fyrirtækisins var ekki hafin í lok síðasta rekstrarárs.
-
-
-
Stuðningslán sem ríkissjóður ábyrgist að fullu skal veitt til 30 mánaða og endurgreitt með 12 jöfnum greiðslum síðustu 12 mánuði lánstímans.
-
Lánastofnun getur veitt stuðningslán með 85% ábyrgð ríkissjóðs til lengri tíma en 30 mánaða, eða framlengt lánstíma umfram 30 mánuði, og krafist lengri endurgreiðslutíma en 12 mánaða. Lánstími má þó ekki verða lengri en fjögur ár og endurgreiðslur, sem skulu vera í formi jafnra greiðslna, skulu hefjast eigi síðar en tveimur árum frá því að lán er veitt.
-
Fyrirtæki eiga að geta nálgast almennar upplýsingar um stuðningslán og upplýsingar um afgreiðslu umsóknar um stuðningslán á Ísland.is. Fyrirspurnum um stuðningslán skal hins vegar beina til aðallánastofnunar fyrirtækisins eða annarrar lánastofnunar sem fyrirtækið hefur valið, sbr. ofangreint.
-
Fyrirtæki getur borið réttarágreining við lánastofnun um stuðningslán undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki eftir því sem nánar greinir í samþykktum nefndarinnar eða dómstóla eftir almennum reglum.
AÐGERÐIR FJÁRMÁLAFYRIRTÆKJA
Ríkisstjórnin, Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamband Lífeyrissjóða hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um greiðslufresti og viðbótarlán vegna heimsfaraldursins.
Einnig liggur fyrir samkomulag fjármálafyrirtækja; Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankans, Kviku, Lykils, sparisjóðanna og lífeyrissjóða, um frestun greiðslna vegna heimsfaraldursins. Helstu atriði samkomulagsins eru þessi:
- Fyrirtæki geta sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði hjá aðalviðskiptabanka sínum eða sparisjóði sem leggur mat á hvort fyrirtæki uppfylli viðmið samkomulagsins.
- Aðalviðskiptabanki eða sparisjóður tilkynnir öðrum lánveitendum sem aðilar eru að samkomulaginu um frestunina.
- Aðilar samkomulagsins fresta þá greiðslum afborgana og vaxta sem leggjast við höfuðstól og skal samningstíminn lengjast sem nemur fjölda frestaðra afborgana. Skuldir án gjalddaga frestast til loka samningstíma. Frestaðar greiðslur bera sömu vexti og upphaflegt lán.
- Samkomulagið nær til rekstrarfyrirtækja sem selja vöru og þjónustu og uppfylla tiltekin skilyrði:
- Eru í heilbrigðum rekstri en verða fyrir tímabundnu tekjufalli sem leiðir til rekstrarvanda vegna heimsfaraldursins.
- Hafa ekki verið í vanskilum í 60 daga eða lengur í lok febrúar síðastliðins.
- Hafa nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.
Markmið samkomulagsins er að sem flest fyrirtæki geti komist hratt í skjól með einföldum hætti. Samkomulagið kemur ekki í veg fyrir að einstakir lánveitendur geti áfram unnið með sínum viðskiptavinum þó þeir kunni að falla fyrir utan viðmið samkomulagsins.
STUÐNINGUR VIÐ NÝSKÖPUNARFYRIRTÆKI
Í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar voru ýmis atriði sem snúa að auknum stuðningi við nýsköpun í atvinnulífinu. Sjá nánar í „spurt og svarað“ á vef stjórnarráðsins.
- Hlutfall og þak endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunarstarfs hefur verið hækkað. Vegna aukins fjölda umsókna munu framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verða aukin á þessu ári og leitast við að flýta endurgreiðslum vegna ársins 2019. Hlutfall endurgreiðslna hækkar úr 20% í 25% og hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hækkar úr 600 milljónum króna í 1100 milljónir hjá hverju fyrirtæki. Jafnframt verði komið á þrepaskiptingu sem feli í sér að lítil og meðalstór félög, sbr. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, geti átt rétt á skattfrádrætti sem nemur allt að 35% af útlögðum kostnaði vegna staðfestra verkefna á gildistíma bráðabirgðaákvæðisins sem bætist við lögin skv. 2. gr. frumvarpsins.
- Skattafsláttur til einstaklinga vegna fjárfestinga í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem uppfyllir skilyrði laga um tekjuskatt um nýsköpunarfyrirtæki hækkar tímabundið úr 50% í 75% af fjárhæð fjárfestingar að teknu tilliti til annarra ákvæða laganna. Jafnframt hækki fjárhæðarmörk heildarfjárfestingar einstaklings tímabundið úr 10 millj. kr. í 15 millj. kr.
- Tækniþróunarsjóður hafði áður verið efldur um 700 m.kr og ferli umsókna flýtt.
- Þrjár aðgerðir snúa beint að því að auka fjáfestingu í sprota- og -nýsköpunarfyrirtækjum:
- Stofnun sprota- og nýsköpunarsjóðsins Kríu verður flýtt þannig að hann geti komið til móst við stofnun nýrra sjóða strax á þessu ári.
- Stuðnings-Kría mun bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Um er að ræða fjárfestingu í formi láns með vöxtum og breytirétti í samvinnu við fjárfesta. Til að koma til móts við lífvænleg sprotafyrirtæki, sem standa frammi fyrir mikilli fjárhagslegri óvissu vegna heimsfaraldursins, munu stjórnvöld bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum (venture capital funds) hefur verið rýmkuð úr 20% í 35%.
- Stofnun Matvælasjóðs hefur verið flýtt, en hann varð til með samruna Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, auk þess sem sjóðnum verða lagðar til 500 milljónir króna til viðbótar til úthlutunar á þessu ári. Við úthlutun styrkja verður sérstök áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Sjóðurinn mun einnig styðja við markaðssetningu á alþjóðlegum mörkuðum.
- Auglýst verður eftir umsóknum um styrki í ágúst eða september og fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður í haust.
- Ekki er gert ráð fyrir neinum takmörkunum á því hverjir geta sótt um styrki í sjóðinn.
- Framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna verða aukin um 300 milljónir á þessu ári til að gera námsmönnum kleift að starfa við nýsköpunarverkefni í allt að þrjá mánuði. Háskólanemar í grunn- og meistaranámi geta sótt um styrki, sem og sérfræðingar innan fyrirtækja, stofnana og háskóla sem óska eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir.
- Þá er gert ráð fyrir að nýsköpunarfyrirtæki geti ráðið til sín starfsmenn af atvinnuleysisskrá í allt að sex mánuði í samvinnu Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Auk þess verður leitað leiða til að gera fyrirtækjum mögulegt að halda starfsfólki í tímabundnu úrræði vegna vinnu við nýsköpunarverkefni.
OPINBERAR FRAMKVÆMDIR OG FJÁRFESTINGAR
Ríkisstjórnin hefur boðað átak í opinberum fjárfestingum og framkvæmdum sem lesa má nánar um á vef stjórnarráðsins.
Reykjavíkurborg hyggur sömuleiðis á auknar framkvæmdir og fjárfestingar, og á frekari útfærsla þeirra að liggja fyrir í maí. Sjá tilkynningu á vef borgarinnar.
FRAMLENGING Á ÁFENGISLEYFUM
Alþingi hefur samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum til að heimila framlengingu fresta og rafræna meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.
Ein grein laganna snýr beint að hagsmunum allmargra félagsmanna í FA, en það er sú níunda. Þar er kveðið á um að inn í áfengislög komi bráðabirgðaákvæði, sem heimilar að leyfi til framleiðslu, innflutnings eða sölu áfengis, sem rennur út á tímabilinu fram til 1. október 2020 og „ekki reynist unnt að framlengja sökum hindrunar sem ekki byggist á atvikum er varða málsaðila sjálfan“ framlengist þá sjálfkrafa til 1. desember 2020Fréttin birtist fyrst 8. apríl 2020.
Uppfært 16. apríl með hlekk á tilkynningu Vinnumálastofnunar, upplýsingum um niðurfellingu álags vegna gjalddaga sérstakra mánaðarskila á virðisaukaskatti og upplýsingum um frestun greiðslu vörugjalds af ökutækjum.
Uppfært 20. apríl með nýjum upplýsingum um samning fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans um skilmála brúarlána og samþykki ESA fyrir slíkri ríkisaðstoð.
Uppfært 21. apríl með upplýsingum um hlutaendurgreiðslu til kvikmyndagerðarverkefna og reglugerð þar um, og með upplýsingum um veðlánafyrirgreiðslu Seðlabankans við lánastofnanir.
Uppfært 22. apríl með upplýsingum um kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum og um gjaldfrest á fasteignagjöldum vegna atvinnuhúsnæðis hjá Akureyrarkaupstað.
Uppfært 4. maí með upplýsingum um sjálfkrafa framlengingu áfengisleyfa.
Uppfært 12. maí með upplýsingum um frestun á tekjuskatti fyrirtækja, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og um undirritun samninga viðskiptabanka við Seðlabankann um brúarlán.
Uppfært 19. maí með upplýsingum um umsóknir um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við viðhald og umhirðu húsnæðis og viðhald fólksbifreiða.
Uppfært 20. maí með upplýsingum um stuðningslán og lokunarstyrki eftir gildistöku laga um fjárstuðning við minni rekstraraðila og upplýsingum um síðustu vaxtalækkun Seðlabankans.
Uppfært 26. maí með upplýsingum um reiknivélar fyrir stuðningslán og lokunarstyrki og með upplýsingum um að Arion banki hafi opnað fyrir umsóknir um brúarlán.
Uppfært 4. júní með upplýsingum um framlengingu hlutabótaleiðarinnar, stuðning úr ríkissjóði vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og reglugerð um stuðningslán til fyrirtækja.
Uppfært 22. júní með hlekk á leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar um lokunarstyrk, upplýsingum um umsóknarfrest vegna fjárstuðnings á uppsagnarfresti og hlekk á upplýsingar um hert skilyrði fyrir þátttöku í hlutabótaleiðinni.
Uppfært 8. júlí með nýjum upplýsingum um greiðslu launa í sóttkví.