Ýmis sveitarfélög taka vel í áskorun FA um lækkun fasteignaskatta

11.07.2022
Ýmis sveitarfélög, stór og smá, hafa brugðist við áskorun stjórnar FA um að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði. Viðbrögð Reykjavíkurborgar eru vonbrigði, segir framkvæmdastjóri FA.
Atvinnuhúsnæði í Kópavogi. Bæjarfélagið er á meðal þeirra sem hyggjast lækka fasteignaskatta.

Félag atvinnurekenda hefur fengið viðbrögð frá ýmsum sveitarfélögum, stórum og smáum, við áskorun stjórnar félagsins frá 31. maí sl. um að sveitarstjórnir lækki álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta miklum hækkunum fasteignamats.

Kópavogur, Mosfellsbær og Hveragerði lækka skattprósentu

Á fundi bæjarráðs Kópavogs var þannig bókað að ráðið tæki undir „ábendingar FA um að núverandi fyrirkomulag fasteignaskatta geti skapað ranga hvata hjá sveitarfélögum og tilefni sé til endurskoðunar á gildandi aðferðafræði við útreikning fasteignaskatta.“ Bent er á að frá árinu 2018 hafi fasteignaskattsprósentan lækkað á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði í Kópavogi. „Við leggjum ríka áherslu á að fasteignaskattar munu lækka samfara hækkun fasteignamats og á það við um íbúðar- og atvinnuhúsnæði,“ segir í bókun bæjarráðs.

Í Mosfellsbæ bókaði meirihluti bæjarráðs: „Fyrir liggur að fasteignamat í Mosfellsbæ hefur hækkað gríðarlega mikið milli ára vegna ástandsins á fasteignamarkaði. Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingarinnar og Viðreisnar er kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda skuli lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats.“

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti að „við gerð næstu fjárhagsáætlunar verði álagningarhlutfall fasteignagjalda lækkað til að mæta hækkun á fasteignamati.“

Reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga flækja málin
Á fundi í sveitarstjórn Hrunamannahrepps var bókað: „Sveitarstjórn mun fara yfir þær breytingar sem orðið hafa á fasteignamati í sveitarfélaginu við fjárhagsáætlunargerð núna í haust og meta þá hvort ástæða sé til breytinga á álagningarprósentum.“

Í Vogum og Norðurþingi hefur erindi FA verið vísað til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Sama á við í sveitarfélaginu Skagafirði, en þar bókaði byggðarráð: „Byggðarráð skilur áhyggjur FA á hækkunum fasteignaskatta en minnir á fasta tengingu við framlag Jöfnunarsjóðs við álagsprósentu fasteignaskatts, þ.e. framlag Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins lækkar ef það fullnýtir ekki skattstofninn. Ljóst er að þetta fyrirkomulag þarfnast endurskoðunar við.“

Samkeppnisstaða Reykjavíkurborgar versnar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir félagið að sjálfsögðu fagna viðbrögðum þessara sveitarfélaga: „Okkar von er að enn fleiri feti í þessi fótspor og lækki álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði þannig að álögur á atvinnurekstur þyngist ekki á milli ára. Það er hins vegar áhyggjuefni ef reglur um framlög úr jöfnunarsjóði hindra minni sveitarfélög í að lækka fasteignaskattana. Það er mál sem stjórnvöld þurfa að taka til skoðunar hið fyrsta.“

„Það veldur hins vegar að sjálfsögðu vonbrigðum að Reykjavíkurborg, þar sem flestir félagsmenn okkar eru staðsettir og sem innheimtir um helming allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á landinu, skuli ekki ætla að lækka skattprósentuna fyrr en eftir þrjú ár. Samkeppnisstaða höfuðborgarinnar gagnvart nágrannasveitarfélögum versnar stöðugt að þessu leyti,“ segir Ólafur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning