FA vill útvíkka heimild til sölu áfengis á framleiðslustað

04.03.2021

Félag atvinnurekenda leggur í umsögn til Alþingis til að heimild áfengisframleiðenda til að selja vörur sínar til neytenda á framleiðslustað, líkt og lagt er til í frumvarpi dómsmálaráðherra, verði útvíkkuð. Ekki verði stærðarmörk á því hvaða framleiðendur megi selja vöru sína beint og ekki heldur gert upp á milli bjórs og sterkara áfengis.

Öll brugghús fái að selja á framleiðslustað
Með frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að brugghúsum, sem framleiða minna en 500.000 lítra af sterku öli á ári, verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. FA tekur undir þau rök sem fram koma í greinargerð frumvarpsins, að það skjóti skökku við að brugghús, sem mörg hver hafa byggt upp ferðaþjónustu samhliða bruggstarfseminni, geti ekki selt gestum sínum vörur sínar í lokuðum umbúðum sem þeir geti haft með sér til eigin neyslu. Félagið tekur einnig undir að ástæða sé til að auðvelda brugghúsum að selja beint til neytenda áfengistegundir sem framleiddar eru tímabundið eða í litlu magni og henta því mögulega ekki til sölu í Vínbúðum ríkisins. Af báðum þessum ástæðum sé sjálfsagt að áfengisframleiðendur geti selt vörur sínar milliliðalaust til neytenda. FA bendir hins vegar á ýmsa neikvæða hvata sem fylgi stærðartakmörkuninni og leggur til að brugghús fái heimild til sölu á framleiðslustað óháð stærð og því hvers konar áfengi þau framleiða.

Mikilvægt að breytingarnar standist EES-samninginn
FA bendir jafnframt á að Alþingi verði að huga að jafnræðisreglu EES-samningsins þegar það samþykkir frumvarpið; að innlendum framleiðendum sé ekki hyglað umfram framleiðendur sambærilegrar vöru í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

FA vitnar m.a. til skýrslu sænskra stjórnvalda frá 2010 um möguleika á beinni sölu brugghúsa á áfengi til viðskiptavina en þar var það skýr niðurstaða skýrsluhöfunda að það gengi gegn jafnræðisreglu Evrópuréttarins að mismuna innlendum framleiðendum og framleiðendum sambærilegra vara í öðrum ESB-ríkjum. Með því að leyfa innlendum framleiðendum sölu á framleiðslustað hefðu þeir tækifæri til að koma vörum sínum á framfæri við neytendur bæði í sænsku ríkiseinkasölunni og í eigin sölu, en framleiðendur í öðrum aðildarríkjum ættu ekki aðra leið að neytendum en ríkiseinkasöluna. Sænsk stjórnvöld tilkynntu nýlega að gerð yrði ný úttekt á möguleikum á beinni sölu sænskra áfengisframleiðenda til neytenda. Í tilkynningu sænska félagsmálaráðuneytisins kemur fram að eitt skilyrði þess að slík sala verði heimiluð, sé að engin mismunun eigi sér stað gagnvart öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins með því að hygla sérstaklega innlendum vörum og þjónustu. Í ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar kemur fram að ein forsenda niðurstöðu í málinu sé greining á þeim álitamálum sem snúa að Evrópulöggjöfinni.  Niðurstöðu úttektarinnar er að vænta í lok ársins.

Framleiðendur á EES eigi jafngreiða leið að neytendum
„Sú Evrópuréttarlega greining, sem að baki frumvarpi þessu liggur, virðist harla rýr í roðinu ef marka má greinargerðina. FA leggur til að nefndin mæli með því við dómsmálaráðuneytið að það fylgist með vinnu sænskra stjórnvalda í málinu og eftir atvikum beri málið undir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í því skyni að tryggja megi að framleiðendur sambærilegra áfengra drykkja í öðrum EES-ríkjum eigi ekki síðri möguleika á að koma vöru sinni á framfæri við íslenzka neytendur en innlendir framleiðendur. FA vekur athygli á mikilvægi þess að það fyrirkomulag sem Alþingi ákveður haldi, verði látið á það reyna fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir í umsögn FA til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

FA leggur til ýmsar fleiri breytingar á frumvarpinu, m.a. til að skýra ákvæði þess betur. Félagið leggur til að ákvæði um bann við áfengisauglýsingum verði rýmkuð, þannig að áfengisframleiðendum verði heimilað að auglýsa starfsemi sína með skiltum á byggingum og við þjóðvegi.

Ekki búa til nýtt ójafnræði og samkeppnishömlur
„FA hefur almennt jákvæða afstöðu til markmiða frumvarpsins og telur æskilegt að það verði að lögum, en leggur um leið ríka áherzlu á að leyst verði úr þeim álitamálum og ábendingum sem félagið hefur sett hér fram. Að öðrum kosti er hætta á að samþykkt frumvarpsins búi til nýtt ójafnræði og samkeppnishömlur á áfengismarkaðnum, þvert á markmiðin. Þá þarf ekki að hafa mörg orð um þá áhættu sem í því getur falizt fyrir íslenzka ríkið ef fyrirkomulagið sem Alþingi samþykkir stenzt ekki EES-samninginn,“ segir í niðurlagi umsagnar FA.

Umsögn FA um frumvarp dómsmálaráðherra

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning