Með breytingum á skattlagningu áfengis um áramótin mun Ísland endurheimta Evrópumet í áfengisgjöldum á sterkari drykki, sem tapaðist í hendur Norðmanna þegar krónan hrundi.
Alþingi hefur samþykkt að um áramótin lækki virðisaukaskattur á áfengi úr 24% í 11%, en á móti munu áfengisgjöld hækka um rúmlega 20%. Heildarskattlagning á áfengi breytist þannig ekki, en hlutfall áfengisgjaldsins, sem er föst krónutala á lítra af hreinum vínanda, hækkar hins vegar verulega.
Í samanburði áfengisskatta í Evrópu var Ísland lengi vel með hæstu áfengisgjöldin. Þetta breyttist við bankahrunið þrátt fyrir að áfengisgjöldin hækkuðu duglega í krónum talið, vegna þess að gengi krónunnar hrundi og skekkti allan samanburð. Nú nær Ísland hins vegar fyrsta sætinu aftur, þrátt fyrir gengishrun.
Hæstu áfengisgjöldin, næstlægsti virðisaukaskatturinn
Hagsmunasamtökin Spirits Europe gera reglulega samanburð á skattlagningu áfengis í Evrópulöndum. Í slíkum samanburði frá því maí síðastliðnum er Ísland með næsthæstu áfengisgjöldin á eftir Noregi. Þegar bætt hefur við þeim hækkunum sem Alþingi hefur nú samþykkt verður útkoman sú að Ísland endurheimtir Evrópumetið í álagningu áfengisgjalds á sterkt áfengi (til dæmis vodka og viskí) og styrkt áfengi (til dæmis sérrí og púrtvín) en Noregur á áfram metið í áfengisgjaldi á léttvín og bjór. Í samanburðinum sést að öll Evrópulönd leggja áfengisgjöld á sterkt áfengi, en sums staðar eru lítil sem engin áfengisgjöld lögð á léttvín eða bjór, heldur virðisaukaskatturinn látinn nægja.
Breytingin um áramót mun hins vegar þýða að óvíða í Evrópu verður lagður lægri virðisaukaskattur á áfengi en á Íslandi. Skattprósentan hér verður 11%, en í Sviss er hún 8%.
Ódýra áfengið hækkar, það dýra lækkar
Áfengisgjöld eru lögð á hreinan vínanda. Í meðfylgjandi töflum er notuð mælieiningin evrur á hektólítra hreins vínanda. Algengt er að gjaldið á hverja einingu vínanda sé hærra ef um sterka drykki er að ræða. Þannig verður áfengisgjaldið á Íslandi 8.807 evrur á hektólítra hreins vínanda þegar um sterkt eða styrkt áfengi er að ræða, eða sem samsvarar um 12.300 krónum á hvern lítra. Í tilfelli bjórs er gjaldið tæplega 4.000 evrur á hektólítra hreins vínanda, eða sem samsvarar um 5.500 krónum á lítra hreins alkóhóls.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að þróun áfengisgjalda hér á landi sé umhugsunarverð. „Áfengisgjöld eru föst krónutala á hverja einingu hreins vínanda. Vegna þess að þau taka mið af áfengisinnihaldi en ekki innkaupsverði vörunnar stuðla há áfengisgjöld að því að ódýrari tegundir áfengis verða hlutfallslega dýrari en í nágrannalöndum en dýru vínin hlutfallslega frekar ódýr. Tilfærsla skattheimtu um áramótin úr virðisaukaskatti yfir í áfengisgjöld ýkir enn þessi áhrif og hefur í för með sér að ódýrari áfengistegundir hækka í verði en þær dýrari lækka,“ segir Ólafur.
Óæskilegar afleiðingar skattahækkana
FA hefur bent á þá hættu að þegar ódýrari áfengistegundir hækka í verði leita þeir sem alla jafna kaupa þær frekar í ólöglegt áfengi eins og heimabrugg og smygl. „Hækkun áfengisgjalda hefur langoftast slíkar óæskilegar afleiðingar í för með sér. Það má líka setja spurningarmerki við að sterkara áfengið sé skattlagt svona miklu þyngra en það léttara. Ef ætlunin er að slík skattheimta hafi forvarnargildi er rétt að hafa í huga að það er ekki síður hætta á misnotkun létts áfengis en þess sterka,“ segir Ólafur.