Félag atvinnurekenda hefur sent fjármálaráðuneytinu erindi til að vekja athygli á því að ólögmætt ástand hefur ríkt í rúmlega þrjú ár hvað varðar innkaup á flugfarmiðum fyrir ríkisstarfsmenn. Spurt er hvað líði boðuðu útboði á þessum viðskiptum, sem átti að fara fram á fyrri hluta ársins.
Í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til fjármálaráðuneytisins er vitnað til úrskurðar Kærunefndar útboðsmála frá því 29. apríl síðastliðinn, en þar var lagt fyrir ríkið að bjóða út farmiðaviðskiptin. Niðurstaða nefndarinnar í máli Wow Air gegn fjármálaráðuneytinu var að ráðuneytið hefði „gerst brotleg[t] við áðurlýstar reglur um opinber innkaup með því að koma á fót og viðhalda ástandi þar sem umrædd þjónusta var ekki keypt inn í samræmi við lögákveðna innkaupaferla.“
Í bréfi FA er forsaga málsins rifjuð upp. Í ágúst 2012 sögðu Ríkiskaup upp rammasamningi við Icelandair og Iceland Express um farmiðakaup. Jafnframt var þá boðað að höfðað yrði mál til að fá hnekkt úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 8. ágúst 2012, þess efnis að Ríkiskaup væru skaðabótaskyld gagnvart Iceland Express ehf. vegna brota á lögum um opinber innkaup sem fólust í því að ganga bæði að tilboði Iceland Express og Icelandair, þrátt fyrir að það síðarnefnda væri miklu hærra en tilboð Iceland Express. Um leið var boðað að farið yrði í nýtt útboð. Báðar þessar yfirlýsingar hafa reynst rangar. Ógildingarmálið var aldrei höfðað og enn bólar ekkert á nýju útboði.
Í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins 13. mars síðastliðinn sagði að unnið væri að útboði á vegum Ríkiskaupa og þess væri vænst „að nýtt útboð fari fram á fyrri hluta þessa árs.“ Þegar fyrri hluti ársins var liðinn án þess að útboð hefði verið auglýst sendi FA Ríkiskaupum fyrirspurn og spurðist fyrir um stöðu málsins. Í svarinu, sem barst um miðjan júlí, kom fram að gert væri ráð fyrir að auglýsa útboð á haustmánuðum.
FA sendi Ríkiskaupum aðra fyrirspurn 26. október síðastliðinn og spurðist enn fyrir um hvað liði útboðinu. Vakin var athygli á því að ríkt hefði ólögmætt ástand í málinu frá því í ágúst 2012 og brýnt væri að binda enda á það. Eftir að fyrirspurnin hafði verið ítrekuð barst svar um að „fjármálaráðuneytið [sé] eigandi verkefnisins og því rétt að ráðuneytið svari fyrir verkefnið, stöðu þess og framvindu.“
„Í framhaldi af þessum samskiptum er þessi fyrirspurn send ráðuneytinu og spurt hvenær standi til að bjóða út farmiðakaup ríkisins og binda þar með enda á brot á lögum um opinber innkaup, sem staðið hafa í meira en þrjú ár,“ segir í bréfi FA.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að fjármálaráðuneytið hljóti að svara því til að útboðið verði auglýst innan nokkurra vikna. „Það er með ólíkindum að ráðuneytið, sem á að hafa forgöngu um aðhald og ráðdeild í ríkisrekstrinum, skuli í þrjú ár hafa streist á móti því að bjóða út viðskipti sem augljóslega eru útboðsskyld og stuðla þannig að sparnaði fyrir hönd skattgreiðenda,“ segir Ólafur.
Fram hefur komið að í fyrirhuguðu útboði verði tekið fyrir vildarpunktasöfnun starfsmanna ríkisins á kostnað skattgreiðenda. Það er atriði sem FA hefur gagnrýnt harðlega, enda stuðla vildarpunktarnir að hættu á að ríkisstarfsmenn og stofnanir beini viðskiptum sínum fremur þangað sem þeir fá vildarpunkta en til flugfélaga sem bjóða hagstæðustu kjörin.