Ráðherra tekur efni eftirlitsgjaldaskýrslunnar til sín

04.04.2017
Benedikt Jóhannesson var ánægður með eftirlitsgjaldaskýrslu FA.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði á fundi Félags atvinnurekenda í morgun að skýrsla félagsins um eftirlitsgjöld hins opinbera hefði komið honum ánægjulega á óvart. Þegar hann hefði fengið beiðni um að tala á fundinum hefði hann verið nýbúinn að fá tvo tölvupósta um dóma, þar sem ríkið hefði verið dæmt til að endurgreiða oftekin eftirlitsgjöld. „Skýrslan er gagnleg að því leyti að þetta er ekki eins og stundum er, einhver einhliða áróður. Hér er mjög málefnalega tekið á þessu málefni og beinlínis sagt hvað sé skynsamlegt að gera. Ég mun sannarlega taka það til mín inni í ráðuneytinu og reyna að beita mér fyrir því að menn vinni með þeim hætti sem þarna er sagt,“ sagði Benedikt.

Eftirlitið þarf að vera undir eftirliti
Hann sagði að í skýrslunni væri ekki mælst til þess að dregið yrði úr réttmætu eftirliti, heldur fjallað um hvernig ætti að verðleggja það. Benedikt sagði að hjá ríkinu væri almennt stefnt að því að hverfa frá því að marka tekjustofna til sérstakra verkefna. Frekari endurskoðun á þeim málum væri framundan, þótt það myndi ekki endilega gilda um öll þau eftirlitsgjöld sem væru hér til umræðu.

Benedikt sagði að eftirlitsstofnanir þyrftu líka að vera undir eftirliti. „Það þarf líka að vera einhver sem sýnir eftirlitinu aðhald. Þeir sem eru undir eftirliti eru náttúrulegustu aðilarnir til þess, en þeir þora ekki alltaf að segja sitt álit því að þeir óttast að það komi niður á þeim,“ sagði Benedikt.

Leynd um gjaldskrár þarf að laga
Í eftirlitsgjaldaskýrslunni kemur fram að Matís, opinbert hlutafélag sem annast eftirlitsverkefni og rannsóknir, m.a. fyrir Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit, birti gjaldskrá sína ekki opinberlega og neiti að afhenda hana. Benedikt sagði hins vegar að eftirliti með eftirlitinu væri best háttað með því að reglur væru gegnsæjar og birtar opinberlega á netinu.

„Ég verð nú að segja að ég er gáttaður á að opinberir aðilar skuli ekki vilja birta gjaldskrár, ekki einu sinni þegar eftir þeim er leitað. Ég verð að segja að mér finnst það með fádæmum og ég mun svo sannarlega beita mér í því. Það er ekki bara gagnstætt góðri stjórnsýslu, það er gagnstætt öllum mínum prinsippum ef einhver sem er að vinna fyrir okkur öll – og eftirlitsmennirnir eru svo sannarlega að vinna fyrir samfélagið – að það eigi að vera einhver leynd yfir því hvernig menn vinna. Þannig er ekki nútímasamfélag og þetta verðum við að laga,“ sagði fjármálaráðherra.

Þarf ekki einu sinni að skipa nýja nefnd
Benedikt þakkaði FA fyrir skýrsluna og tillögurnar í henni. „Ég vonast til þess að maður muni sjá fleiri skýrslur eins og þessa, málefnalegar, vel unnar með skýrum tillögum, þannig að maður geti bara tekið skýrsluna – það þarf ekki einu sinni að skipa nýja nefnd til að ákveða hvað eigi að gera, þetta er bara hér, algjörlega ókeypis fyrir fjármálaráðuneytið fyrir utan þessar endurgreiðslur sem við lendum í,“ sagði fjármálaráðherra.

Hann sagðist vonast eftir góðu samstarfi við Félag atvinnurekenda um þetta mál og önnur. „Ég kvarta svo sannarlega ekki undan því að vera undir aðhaldi og eftirliti bæði frá samtökum og einstaklingum,“ sagði Benedikt Jóhannesson.

Upptaka af fundinum er á Facebook-síðu FA

Eftirlitsgjaldaskýrsla FA

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning