Óforsvaranlegt að breyta ekki innheimtu áfengisgjalds

26.05.2017
FA lýsir furðu á að meirihluti allsherjarnefndar vilji reka ÁTVR áfram í samkeppni við einkareknar vínbúðir.

Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega afgreiðslu meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á frumvarpi um breytingar á smásölufyrirkomulagi áfengis. FA lýsir miklum vonbrigðum með að ekki sé brugðist við athugasemdum og tillögum félagsins varðandi breytta innheimtu áfengisgjalds. Þá sé þrengt um of að auglýsingum á áfengi og léttöli í ljósvakamiðlum, ákvæði um sérverslanir séu óljós og misráðið að ÁTVR starfi áfram í samkeppni við einkaaðila.

Óforsvaranlegt að breyta ekki innheimtu áfengisgjalds
Í athugasemdum, sem FA hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd, bendir félagið á að núverandi lagaákvæði um innheimtu áfengisgjalds séu arfur einkaréttarfyrirkomulags í áfengisverslun og einboðið að þurfi að breyta þeim ef breyta eigi sölufyrirkomulaginu. „Allir sem hafa lágmarksþekkingu á rekstri og fjármögnun fyrirtækja átta sig á að það hefur gífurlega neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi að þurfa að greiða upp undir 80% af verði vöru í skatt áður en hún er sett í sölu, en þurfa svo að bíða í upp undir tvo mánuði eftir því að tekjurnar af sölunni skili sér, eins og mun gerast ef sömu lögmál gilda um smásölu áfengis og aðra verzlun, að óbreyttum ákvæðum um innheimtu áfengisgjalds,“ segir í athugasemdum FA. Þar er jafnframt bent á neikvæð samkeppnisleg áhrif þessa, bæði í smásölu og heildsölu.

„FA hvetur nefndina eindregið til að endurskoða þennan þátt málsins og ítrekar að félagið telur algjörlega óforsvaranlegt að samþykkja frumvarpið án þess að við það bætist ákvæði um breytta innheimtu áfengisgjalds. Með því væri að þarflausu verið að skaða rekstur fyrirtækja, sem veita fjölda manns atvinnu,“ segir í bréfi FA.

Hvað er unnið með áframhaldandi rekstri ÁTVR?
FA lýsir furðu á þeirri breytingartillögu að starfrækja ÁTVR áfram, samhliða sérverslunum með áfengi.  Félagið ítrekar þá afstöðu sína að ríkið eigi almennt ekki að stunda rekstur sem einkaaðilar sinna ágætlega, síst af öllu sölu almennrar neysluvöru.

„Vandséð er, þegar einkareknar sérverzlanir með áfengi hafa verið leyfðar, eins og breytt frumvarp gerir ráð fyrir, að áframhaldandi rekstur ÁTVR hafi nokkuð með lýðheilsu eða aðgang að áfengi að gera, eins og stundum er haldið fram. Þá átelur FA að þessi breyting sé gerð á frumvarpinu án þess að nokkur athugun hafi verið gerð á líklegum afleiðingum þess fyrir rekstur ÁTVR eða samkeppni á markaði að taka upp þetta sérkennilega fyrirkomulag,“ segir í bréfi FA til allsherjarnefndar.

Erlendar auglýsingar í sjónvarpi yfir daginn – innlendar bannaðar
Félag atvinnurekenda telur alltof mikið þrengt að áfengisauglýsingum með breytingartillögum meirihlutans. Banna eigi áfengisauglýsingar í ljósvakamiðlum frá klukkan sjö að morgni til 21 að kvöldi. „Á sama tíma og fram fara útsendingar frá t.d. erlendum íþróttaviðburðum, þar sem erlendar áfengistegundir eru auglýstar stanzlaust, er innlendum framleiðendum bannað að vekja athygli á sínum vörumerkjum. Með banni við auglýsingum léttöls er þeim meira að segja gert enn erfiðara fyrir en í dag að koma vörumerkjum sínum á framfæri! Þá vakna spurningar um hvort þá verði yfirhöfuð leyfilegt að auglýsa t.d. sælgæti með sama vörumerki og notað er á áfengum drykkjum,“ segir framkvæmdastjóri FA í bréfinu til þingnefndarinnar.

Óljós ákvæði um sérverslanir
FA átelur að ákvæði breytingartillagna nefndarmeirihlutans um að áfengi skuli selt í sérverslunum séu óljós. „Sé hugmyndin sú að takmarka aðgengi að áfengi er þetta varla leiðin til þess, enda verður stórum matvöruverzlanakeðjum í lófa lagið að fara framhjá ákvæðum laganna með því að setja upp „sérverzlanir“ inni í stórmörkuðum. Minni verzlanir munu síður eiga þann kost, sem eykur enn á neikvæð samkeppnisleg áhrif frumvarpsins eins og það lítur út með breytingartillögum meirihlutans. Ekki er heldur gerð nein tilraun til þess að skýra betur út hvað átt sé við með sérverzlun. Vísað er í tiltekið ÍSAT-númer yfir sérverzlun með mat- og drykkjarvöru en þeirri spurningu er ósvarað með hvaða mat- og drykkjarvörum má þá selja áfengi,“ segir í bréfi FA.

Þá bendir félagið á að samkvæmt breytingartillögum meirihluta meirihlutans sé það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði að áfengi verði selt í sérverzlunum en meirihlutinn leggur til að hægt verði að gefa verulegar undanþágur frá því ákvæði. „FA hefur ekki gefizt tími til að meta áhrif þessa ákvæðis til hlítar en spyr hvort það standist jafnræðisreglu. Það hlýtur alltaf að verða afar matskennd ákvörðun sveitarstjórnar hvort grundvöllur sé fyrir rekstri sérverzlunar með áfengi í sveitarfélagi eða hvort leyfa eigi að áfengi sé selt í almennum dagvöruverzlunum,“ segir í athugasemdum félagsins til Alþingis.

Ætti að gefa málinu meiri tíma
FA telur óviðunandi, eigi ekki að gefa félaginu og öðrum hagsmunaaðilum hæfilegan tíma til að meta áhrif breytingartillagnanna og koma á framfæri athugasemdum við gerbreytt frumvarp. Með því að leita eftir nýjum umsögnum að hæfilegum tíma liðnum gæfist þinginu betra tækifæri til að meta áhrif frumvarpsins heildstætt og taka upplýsta ákvörðun. FA telur of margt óljóst í frumvarpinu og mælir ekki með samþykkt þess eins og það lítur út með breytingartillögum meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Athugasemdir FA til allsherjar- og menntamálanefndar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning