Formaður Félags atvinnurekenda, Magnús Óli Ólafsson, hefur skrifað bréf til forystumanna allra stjórnmálaflokka sem náðu kjöri á Alþingi í nýafstöðnum kosningum. Þar er vakin athygli á nokkrum hagsmunamálum atvinnulífsins, sem eigi heima í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.
„Félagi atvinnurekenda þykir mikilvægt að í nýjum stjórnarsáttmála verði tekið á ýmsum atriðum sem varða hagsmuni fyrirtækjanna í landinu, ekki síst þeirra minni og meðalstóru. Þau fyrirtæki eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi og öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðarinnar sem við viljum öll tryggja,“ segir í bréfi Magnúsar til flokksformanna.
Eftirfarandi atriði telur FA að eigi heima í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem vill tryggja öflugt atvinnulíf í landinu.
- Aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum til að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans. Stöðugleiki, þar sem verðbólgumarkmið nást og vextir halda áfram að lækka, er stærsta hagsmunamál fyrirtækjanna.
- Haldið verði áfram að lækka tryggingagjald fyrirtækja í áföngum.
- Átak verði gert í því að einfalda regluverk atvinnulífsins og hrinda í framkvæmd áformum um að tilkynningaskylda fyrirtækja komi í stað flókinna og dýrra leyfisveitinga. FA leggur áherslu á að fylgt verði eftir tillögum í nýlegri skýrslu utanríkisráðuneytisins um að komið verði upp verklagi þar sem tilgreint verði í greinargerðum með frumvörpum til innleiðingar EES-reglna hvaða ákvæði varði reglurnar beinlínis, hvaða ákvæði gangi lengra en þær kveða á um og þá af hvaða ástæðum og hvaða svigrúm sé til að haga innleiðingu þannig að hún verði minna íþyngjandi fyrir atvinnulífið.
- Haldið verði áfram á þeirri braut að einfalda virðisaukaskattskerfið. Fækka ætti undanþágum, breikka skattstofninn og leggja á virðisaukaskatt í einu þrepi sem yrði mun lægra en efra þrep skattsins í dag.
- Eftirlitsgjöld sem ríkið leggur á fyrirtæki verði tekin til heildarendurskoðunar með það að markmiði að þau endurspegli ævinlega raunkostnað við eftirlitið og stuðli að kostnaðaraðhaldi hjá eftirlitsstofnunum. Fyrir liggur skýrsla FA frá því fyrr á árinu, sem verið getur leiðarvísir stjórnvalda um tiltekt í eftirlitsgjöldum.
- Endurskoðun búvörusamninga verði lokið í breiðri sátt bænda, neytenda og atvinnulífs. Stuðningskerfi landbúnaðarins verði breytt og tollar lækkaðir í samræmi við tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
- Leitað verði leiða til að tryggja aðgengi fiskvinnslu án kvóta eða eigin útgerðar að hráefni til vinnslu. Ný ríkisstjórn ætti að skuldbinda sig til að hrinda í framkvæmd tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá 2012, um afnám samkeppnishindrana í sjávarútvegi.
- Gert verði átak í því að ríkisstofnanir fari að lögum um opinber innkaup og bjóði út kaup á vörum og þjónustu.
- Stjórnvöld fari að tilmælum Samkeppniseftirlitsins um að afnema samkeppnishömlur, til dæmis í landbúnaði, sjávarútvegi og millilandaflugi. Taka ætti upp samkeppnismat á allri löggjöf sem varðar atvinnulífið eins og OECD hefur lagt til.
- Hömlur verði settar á samkeppni ríkisfyrirtækja á borð við Isavia og Íslandspóst við einkarekin fyrirtæki.
- Átak verði gert í gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki, ýmist tvíhliða eða á vettvangi EFTA, og sérstaklega gætt að hagsmunum íslenskra fyrirtækja vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.