FA skrifar ráðherra: Næsta samkeppnismat OECD taki til landbúnaðar og sjávarútvegs

23.11.2020
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, beitti sér fyrir gerð samkeppnismats á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu. FA hvetur Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að stíga næsta skref með sambærilegu mati á regluverki landbúnaðar og sjávarútvegs. Myndin var tekin er ráðherrar tóku höndum saman um að fella úr gildi úreltar reglugerðir í landbúnaði og sjávarútvegi. (Mynd: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið).

Félag atvinnurekenda hefur ritað Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, erindi og hvatt hann til að leita samstarfs við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD, um gerð samkeppnismats á regluverki landbúnaðar og sjávarútvegs á Íslandi. Slíku mati er nýlokið á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu og gerir OECD 438 tillögur um hvernig ryðja megi samkeppnishindrunum úr vegi.

Í bréfi FA til Kristjáns Þórs segir að lög og reglur um bæði landbúnað og sjávarútveg feli í sér ýmsar samkeppnishindranir. Samkeppnisyfirvöld hafi sent ráðuneytinu og/eða forverum þess ábendingar um þær margar, en úrbótatillögur hafi hlotið lítinn hljómgrunn.

FA rifjar m.a. upp álit Samkeppniseftirlitsins frá 2012 um samkeppnishindranir vegna aðstöðumunar annars vegar útgerða sem ekki stunda fiskvinnslu og fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda jafnframt veiðar á sjávarafla og hins vegar svokallaðra lóðrétt samþættra sjávarútvegsfyrirtækja, sem bæði stunda veiðar og vinnslu. Tillögum samkeppnisyfirvalda um úrbætur hefur lítt eða ekki verið sinnt.

FA bendir einnig á margvísleg álit, umsagnir og skýrslur samkeppnisyfirvalda vegna regluverks í landbúnaði, en af tillögum Samkeppniseftirlitsins má nefna eftirfarandi:

  • Undanþágur mjólkurafurðastöðva frá ákvæðum samkeppnislaga verði afnumdar.
  • Samkeppnislög gildi fullum fetum í landbúnaði og vinnslu landbúnaðarafurða líkt og í annarri atvinnustarfsemi.
  • Búvörulög verði tekin til heildstæðrar endurskoðunar til að greiða fyrir samkeppni.
  • Bændur séu ekki bundnir í viðskiptum við tilteknar afurðastöðvar, heldur eigi val.
  • Tryggt verði að íslenskur landbúnaður hafi samkeppnislegt aðhald, m.a. af innflutningi.
  • Felldir verði niður tollar á mjólkurdufti til að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði.
  • Tollar verði felldir niður á svína- og kjúklingakjöti.
  • Útboð á tollkvótum verði felld niður eða kvótunum úthlutað án endurgjalds.

„Eins og ofangreint gefur til kynna, eru að mati íslenzkra samkeppnisyfirvalda víða í gildi samkeppnishömlur í regluverki sjávarútvegs og landbúnaðar, sem stjórnvöld hafa ekki aðhafzt til að afnema. Ætla má, ekki sízt með tilliti til fjölda ábendinga í hinni nýútkomnu skýrslu, að sérfræðingar OECD kæmu jafnvel auga á enn fleiri hindranir í vegi frjálsrar samkeppni,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til ráðherra. „Að mati Félags atvinnurekenda er forgangsatriði að gera samkeppnismat á regluverki umræddra atvinnugreina í því skyni að efla samkeppni og auka þannig skilvirkni, draga úr sóun og bæta hag landsmanna. Að mati OECD væri ávinningur þjóðarbúsins af því að hrinda í framkvæmd tillögum stofnunarinnar um byggingariðnað og ferðaþjónustu um 30 milljarðar króna. FA telur allar líkur á að í umbótum í landbúnaði og sjávarútvegi felist jafnframt gríðarleg tækifæri.“

Erindi FA til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning