Upplýsingaþjónusta Félags atvinnurekenda vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar er sú þjónusta félagsins sem félagsmenn hafa notað mest undanfarið ár og eru hvað ánægðastir með, samkvæmt könnun sem gerð var meðal félagsmanna. Í upphafi faraldursins markaði FA þá stefnu að standa þétt við bakið á félagsmönnum í efnahagskreppunni sem blasti við. Einn þáttur í því var að leggja mikla áherslu á tíða og virka upplýsingamiðlun til aðildarfyrirtækjanna um sóttvarnir og aðgerðir stjórnvalda til aðstoðar fyrirtækjum. Sendir voru 114 upplýsingapóstar til félagsmanna á árinu og haldnir fjarfundir til að skýra einstök mál nánar.
Eins og áður sagði er þetta sú þjónusta félagsins sem flestir sögðust nota, eða 93% svarenda. Af þeim sögðust 72% mjög ánægðir með þjónustuna og 22% ánægðir, samtals 94%. Þegar spurt var í opinni spurningu hvort FA hefði gert eitthvað vel á árinu nefndi um helmingur svarenda Covid-upplýsingaþjónustuna sérstaklega.
Lögfræðiþjónusta félagsins hefur um árabil verið sú þjónusta sem félagsmenn nota mest, en í þetta sinn sögðust 77% nota hana. Ánægjan með lögfræðiþjónustuna hefur aldrei verið meiri; 59% þeirra sem nota hana sögðust mjög ánægðir og 34% ánægðir, samtals 93%. Það kann að hafa eitthvað með það að gera að annað markmið FA í faraldrinum var að veita félagsmönnum framúrskarandi lögfræðiráðgjöf um nýtingu úrræða stjórnvalda vegna kórónuveirukreppunnar.
Félagið lagði einnig mikla áherslu á að miðla ábendingum og sjónarmiðum félagsmanna vegna heimsfaraldursins til stjórnvalda. 68% svarenda í könnuninni segjast hafa notað sér aðstoð við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og segjast 64% notendanna mjög ánægðir með þá þjónustu og 31% ánægðir, samtals 95%.
Yfir helmingur svarenda sagðist nýta þjónustu vegna kjarasamninga og var yfirgnæfandi meirihluti mjög ánægður eða ánægður með þjónustuna, eða 93%. Fáir félagsfundir voru haldnir á árinu vegna samkomutakmarkana, enda sögðust nú aðeins 49% félagsmanna hafa fylgst með félagsfundum. Af þeim sögðust 72% ánægðir eða mjög ánægðir.
Er spurt var um starf FA í heild sögðust 40% mjög sammála þeirri fullyrðingu að þeir væru ánægðir með það og 43% voru sammála, samtals 83%.
Ánægja félagsmanna með þjónustu og starf félagsins hefur sjaldan mælst meiri.
Könnunin var gerð dagana 27. janúar til 3. febrúar og var send í tölvupósti til 166 félagsmanna með beina félagsaðild. Svör bárust frá 62, eða 37,3%. Svarhlutfall í könnuninni undanfarin ár hefur verið á bilinu 31 til 64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.