Kerfisbundin vanáætlun lyfjaútgjalda í fjárlögum

15.12.2021

Útgjöld til lyfjamála eru verulega vanáætluð í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem er nú til umfjöllunar á Alþingi. Félag atvinnurekenda, Frumtök og Samtök verslunar og þjónustu benda á þetta í sameiginlegri umsögn til fjárlaganefndar og vekja athygli á að undanfarin ár virðist lyfjaútgjöld hafa verið kerfisbundið lækkuð á fjárlögum frá mati Sjúkratrygginga Íslands á fjárþörf vegna lyfja. Raunkostnaður hafi hins vegar alla jafna verið nálægt mati SÍ.

Samkvæmt samantekt frá Sjúkratryggingum Íslands gerir stofnunin ráð fyrir að kostnaður vegna almennra lyfja stefni í 14.676 m.kr. árið 2021, sem mun vera í nokkuð góðu samræmi við áætlun stofnunarinnar fyrir árið. Fjárlög þessa árs gerðu hins vegar ráð fyrir 11.926 m.kr. Hallinn stefnir því í 2.750 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum sem samtökin þrenn öfluðu hjá Sjúkratryggingum er það mat stofnunarinnar að þörf næsta árs vegna almennra lyfja sé 15.024 m.kr. Það mat er byggt á faglegum forsendum, m.a. um þróun sjúkdóma, fólksfjölgun og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Samtökin kölluðu eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands um áætlun stofnunarinnar um kostnað við almenn lyf sex síðastliðin ár. Í töflunni hér að neðan er það frummat stofnunarinnar borið saman við eiginleg framlög á fjárlögum til liðarins almenn lyf og raunútgjöld til málaflokksins.

 

Að mati samtakanna er einkar varasamt að vanáætla útgjöld til lyfja í fjármálaáætlun og fjárlögum. Eins og taflan sýnir, hafa raunveruleg útgjöld verið í nokkuð góðu samræmi við frummat SÍ, þótt sum ár hafi heimild á fjárlögum verið langt undir raunverulegri þörf.

„Ein afleiðing af  ítrekaðri vanáætlun er að stjórnvöld grípi reglubundið til vanhugsaðra niðurskurðaraðgerða sem stefna beinlínis lyfjaöryggi og þar með öryggi sjúklinga í hættu. Tilraun til slíks átti sér einmitt stað í desember í fyrra en var afstýrt eftir að m.a. undirrituð samtök bentu á alvarlegar afleiðingar reglugerðardraga, sem þáverandi heilbrigðisráðherra setti fram til að keyra niður lyfjakostnað,“ segir í umsögn samtakanna.

Þar er jafnframt frá því greint að samtökin hafa í framhaldinu átt í samskiptum við heilbrigðisráðuneytið um leiðir til að lækka kostnað heilbrigðiskerfisins, m.a. með því að lyfjaverðstefna stjórnvalda tryggi að ný hagkvæm lyf með bætta virkni fáist skráð á Íslandi. Þeirri vinnu er langt í frá lokið.

„Samtökin telja að við vanáætlun lyfjaútgjalda þurfi fjárlaganefnd að bregðast og  auka þurfi framlög vegna almennra lyfja til samræmis við mat Sjúkratrygginga Íslands. Að öðrum kosti er fyrirsjáanlegt að kostnaður vegna liðarins mun fara langt fram úr fjárframlögum, með óæskilegum afleiðingum eins og að framan er lýst,“ segja FA, SVÞ og Frumtök.

Sameiginleg umsögn samtakanna

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning