Tollar, neytendur og leigufélög

05.01.2023

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 5. janúar 2023.

Það er sameiginlegt mat FA og stéttarfélaga að lækkun tolla sé ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega.

Í kjarasamningum, sem Félag atvinnurekenda gerði við viðsemjendur sína innan Alþýðusambandsins, VR og Rafiðnaðarsambandið, á síðustu vikum nýliðins árs, var samhljóða bókun sem er eftirfarandi:

„Aðilar sammælast um að óska eftir því við stjórnvöld að farið verði í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda. Lækkun tolla er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega. Að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu.“

Þessi bókun varð Sverri Fal Björnssyni, hagfræðingi Bændasamtaka Íslands, tilefni til að skrifa grein í Morgunblaðið 30. desember sl. Þar setur hann fram ýmsar fullyrðingar sem ástæða er til að staldra við.

Sverrir segir í fyrsta lagi að færð séu „rök fyrir því að íslenska þjóðin væri betur sett ef innflutningur væri aukinn á kostnað íslenskrar framleiðslu.“ Þetta hefur ekki verið röksemdafærsla Félags atvinnurekenda. FA hefur hins vegar lengi barizt fyrir því að íslenzk landbúnaðarframleiðsla fengi aukna samkeppni frá innflutningi með lækkun tolla og þannig hvata til að gera betur. Þá væri íslenzka þjóðin klárlega betur sett og búvörur á betra verði, fjölbreyttari og af meiri gæðum. Tollarnir hindra nefnilega hagræðingu og vöruþróun. Bezta dæmið um þetta er niðurfelling tolla á nokkrum grænmetistegundum, sem á sínum tíma hleypti nýjum krafti í íslenzka grænmetisframleiðslu. Þannig reyndist niðurfelling tolla á endanum styrkja innlenda framleiðendur, sem þurftu að efla sig og bæta, með þeim árangri að þeir stóðu uppi sem sigurvegarar í samkeppni en sú niðurstaða varð bæði þeim og neytendum til mikilla hagsbóta.

Tollalækkanir hafa skilað sér til neytenda
Sverrir vill í öðru lagi meina að það hafi gengið „treglega“ að koma tollalækkunum til neytenda og breytingar á tollum hafi haft „lítil sem engin áhrif á verðlag“. Það er ekki rétt. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem út kom 2017 sýndi fram á að niðurfelling tolla og vörugjalda á árunum 2015-2017 skilaði sér til neytenda. Niðurstaða úttektar verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands, sem birtist í desember 2020, var að tollasamningur við Evrópusambandið og breytt aðferð við útboð tollkvóta, sem var í gildi um skamma hríð, hefði jafnframt skilað sér í lægra vöruverði en ella.

Í þriðja lagi er það hins vegar svo að ef þetta væri nú rétt hjá Sverri og lækkun tolla hefði bara ekki haft neinar verðlækkanir í för með sér – hvaða áhyggjur þyrfti landbúnaðurinn þá að hafa? Meiningin með tollverndinni er einmitt að gera innfluttu vöruna svo dýra að neytendur vilji hana ekki. Hin stóra þversögn í greininni eru fullyrðingar Sverris um að annars vegar græði neytendur ekkert á tollalækkunum og að hins vegar myndi landbúnaðurinn fara á hliðina ef tollar lækkuðu. Það er röksemdafærsla sem gengur ekki upp.

Útreikningar sem koma spánskt fyrir sjónir
Í fjórða lagi tekur Sverrir dæmi af hlutdeild tolls í verði franskra kartaflna. Það er forvitnilegt að Bændasamtökin hafi tekið sér fyrir hendur að verja þann toll með kjafti og klóm, vegna þess að hann verndar enga innlenda landbúnaðarframleiðslu. Eina iðnfyrirtækið sem framleiddi franskar kartöflur á Íslandi hætti framleiðslu og ekki er um það að ræða að íslenzkir kartöflubændur eigi erfitt með að koma uppskeru sinni út; hún selst öll ef hún er á annað borð í söluhæfum gæðum. Tollurinn kostar neytendur hins vegar að minnsta kosti 300 milljónir króna á ári. Andstaða Bændasamtakanna við niðurfellingu tollsins virðist því byggjast á að það sé eitthvert prinsipp að neytendur séu látnir gjalda fyrir það að neyta erlendrar vöru og þannig sé það markmið í sjálfu sér að skaða neytendur án þess að af því sé ábati fyrir nokkurn mann.

Sverrir setur fram heldur ótrúverðugt dæmi um verðmyndun á frönskum kartöflum, þar sem hann fær út að innlend álagning sé rétt um helmingur af útsöluverði franskra kartaflna, en 46% tollur á innflutningsverð (miðað við að þær séu fluttar inn frá Evrópusambandinu) ekki nema tæp 12% af verðinu. Ekki veit ég hvaða leið hagfræðingurinn fór við útreikninginn, þar sem hann gefur sér augljóslega eitt og annað, helzt má láta sér detta í hug að meðalinnflutningsverð allra franskra kartaflna á einhverju tímabili hafi verið notað í dæminu, en hins vegar útsöluverð einhverrar af dýrustu tegundunum. Svo mikið er víst að í krónum talið er álagningin í dæmi Sverris hátt í tvöfalt hærri en í þeim dæmum sem FA þekkir. Sverrir lætur þess líka ógetið að álagning er yfirleitt reiknuð í prósentum og allt sem hækkar innflutningsverðið – eins og 46% tollur í þessu tilviki – veldur hækkun á álagningunni í krónum talið. Í áðurnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar kom einmitt fram að niðurfelling tolla olli lækkun álagningar í krónum. Þannig virkar þetta.

Full niðurfelling tolla á frönskum kartöflum er frábært dæmi um aðgerð sem myndi gagnast neytendum beint og hefði ekki nokkur einustu áhrif á innlenda framleiðslu. Nú er tollurinn 46% og niðurfelling hans gæti stuðlað að verðlækkun sem neytendur fyndu strax fyrir. Hversu mikil hún yrði er erfitt að segja, en rifja má upp að þegar 59% tollur á kartöflusnakki var afnuminn í ársbyrjun 2017 leiddi það þegar í stað af sér verðlækkun upp á 22-43%. Hin harða samkeppni á matvörumarkaði gerir nefnilega að verkum að viðskiptavinir innflutningsfyrirtækja ganga mjög hart eftir því að tollalækkanir skili sér. Lækkun á þessum gagnslausa verndartolli kæmi sér vel í baráttunni við verðbólguna þessa dagana, ekki sízt vegna þess að erlendir birgjar boða nú talsverðar hækkanir á frönskum kartöflum.

Hverja er verið að vernda með tollum?
Í fimmta lagi segir Sverrir að án tolla myndi íslenzkur landbúnaður „leggjast af í þeirri mynd sem við þekkjum“. Fáir leggja í alvöru til að fella alfarið niður tolla á búvörum, en það mætti lækka þá umtalsvert og Ísland viðhéldi samt meiri tollvernd en flest vestræn ríki. Skýrsla starfshóps um þróun tollverndar, sem kom út fyrir rúmum tveimur árum, sló því þannig föstu að tollvernd á búvörum á Íslandi væri langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD, 77% af afurðaverði til bænda miðað við 12% í OECD í heild og 4% í Evrópusambandinu.

Það er heldur ekki sama landbúnaður og landbúnaður. Í sumum tilvikum vernda tollarnir enga innlenda framleiðslu, eins og dæmið af frönsku kartöflunum sýnir. Það á líka við um t.d. háa tolla á fjöldamörgum blómategundum sem eru ekki ræktaðar á Íslandi. Í búfjárrækt er annars vegar hefðbundin framleiðsla sauðfjár- og kúabænda á fjölmörgum búum um allt land, sem á sér meira en þúsund ára sögu og skiptir máli fyrir byggðaþróun í landinu. Hins vegar er svína- og alifuglakjötsframleiðsla, sem er fyrst og fremst verksmiðjubúskapur stundaður í nágrenni við þéttbýli og stærstur hluti framleiðslunnar er í höndum fáeinna fjölskyldna. Þær eru sumar hverjar umsvifamiklar í öðrum rekstri, eins og á t.d. leigu- og fjárfestingarfélögum. Þarna er ólíku saman að jafna. FA og viðsemjendur félagsins meðal stéttarfélaga telja þannig fulla ástæðu til að ræða hvort til dæmis eigi að viðhalda tollvernd fyrir eigendur Ölmu leigufélags, á kostnað neytenda í landinu.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning