Félag atvinnurekenda hefur ítrekað erindi sitt til forseta Alþingis um notkun alþingismanna og annarra starfsmanna ríkisins á vildarpunktum flugfélaga, sem fengnir eru vegna ferðalaga á kostnað skattgreiðenda. Í bréfi FA er forseti þingsins beðinn að svara fjórum spurningum um notkun þingmanna á vildarpunktum í eigin þágu.
Gegn lögum og siðareglum – og reglum um ferðakostnað
FA ritaði þingforseta bréf í október sl. vegna fregna af því að þingmenn notuðu vildarpunkta, fengna vegna ferðalaga á vegum skattgreiðenda, í eigin þágu. Jafnframt hafði verið greint frá því að yfirgnæfandi meirihluti viðskipta Alþingis vegna flugferða hefði verið við Icelandair og tengd félög, en lítill hluti við Fly Play, sem ríkið hefur þó einnig rammasamning við um afslátt af flugfargjöldum.
Í fyrra erindi FA til forseta Alþingis var vakin athygli á að það að þingmenn þiggi vildarpunkta fyrir að beina viðskiptum til Icelandair eða annarra flugfélaga með tryggðarkerfi færi gegn lögum og siðareglum þingsins.
„Hafi þingmenn notað persónulega vildarpunkta sem þeir fengu vegna slíkra farmiðakaupa, fer það einnig gegn reglum þeim sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett um greiðslu ferðakostnaðar, en þar er kveðið á um að fríðindi og hvers kyns vildarkjör, sem aflað er við greiðslu á farmiða, skuli eingöngu koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða. FA fékk ábendingu um þessar reglur eftir að áðurgreint erindi var sent,“ segir í erindi FA sem sent var þingforseta á í síðustu viku.
Þingið vildi ekki svara efnislega á meðan málið væri hjá kærunefnd
Í svari, sem barst frá skrifstofu þingsins 8. janúar sl. við fyrra erindi FA, var vísað til þess að Fly Play hf. hefði kært ólögmæta framkvæmd þingsins á rammasamningi til kærunefndar útboðsmála. „Að mati skrifstofunnar er í ofangreindu máli tekist á um réttmæti þeirra sjónarmiða sem fram koma í bréfi félagsins,“ sagði þar. „Í ljósi þessa telur skrifstofa Alþingis rétt að bíða með frekari viðbrögð við erindi félagsins á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála.“
Nú liggur fyrir úrskurður kærunefndarinnar í kæru Play, sem var felldur 19. febrúar sl. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að möguleg brot þingmanna eða starfsmanna Alþingis gegn reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins falli ekki undir valdsvið kærunefndarinnar. Ekki hafi verið sýnt fram á brot gegn ákvæðum rammasamnings Ríkiskaupa um flugsæti.
Ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að svara spurningum
Í fyrra erindi FA var ekki fjallað um möguleg brot þingsins á rammasamningnum. Kjarni erindisins er sá að það, að þiggja þannig persónuleg fríðindi vegna ferða sem skattgreiðendur kosta, sé spilling og lög og siðareglur eigi að hindra slíkt. Svo háttar jafnframt til að spillingin bitnar á félagsmanni FA, sem ekki veitir ríkisstarfsmönnum vildarpunkta, heldur eingöngu afslátt af flugfargjöldum samkvæmt rammasamningi. „Núverandi ástand stenzt augljóslega ekki lög, siðareglur þingmanna eða önnur siðferðileg viðmið,“ var niðurlag erindis FA.
Nú ætti Alþingi ekki að vera neitt að vanbúnaði að svara efnislega erindi FA og hefur þingið haft fjóra mánuði til að íhuga málið. Í erindi FA eru formaðar nánar þær spurningar sem félagið óskar svara við:
- Telur þingforseti að það að þingmenn noti vildarpunkta í persónulega þágu standist 11. gr. siðareglna alþingismanna?
- Telur þingforseti að það að þingmenn noti vildarpunkta í persónulega þágu standist 9. gr. reglna um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins, út gefinna af fjármála- og efnahagsráðherra 1. október 2020?
- Telur þingforseti að það að þingmenn noti vildarpunkta í persónulega þágu standist 1. mgr. 109. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 128. gr. sömu laga?
- Er þingforseti þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt fyrirkomulag og siðlegt og líklegt til að stuðla að ábyrgri nýtingu fjármuna skattgreiðenda að alþingismenn og aðrir starfsmenn hins opinbera þiggi vildarpunkta til eigin persónulegra nota vegna ferðalaga sem skattgreiðendur kosta?