Kynning á fríverslunarsamningi við Taíland 14. janúar

08.01.2025

Íslensk-taílenska viðskiptaráðið (ÍTV) og Félag atvinnurekenda efna til kynningar á nýjum fríverslunarsamningi Íslands og Taílands og þeim tækifærum, sem hann felur í sér fyrir íslensk fyrirtæki, á fjarfundi 14. janúar næstkomandi. Fundurinn er opinn öllum fyrirtækjum sem áhuga hafa á viðskiptum við Taíland.

Fríverslunarsamningurinn, sem náðist í lok nóvember síðastliðins eftir tveggja ára samningaviðræður, kveður meðal annars á um fullt tollfrelsi inn á Taílandsmarkað fyrir flök af laxi, þorsk, grálúðu og loðnuhrogn, vélbúnað til matvælaframleiðslu og stoðtæki. Samningurinn kveður einnig á um samstarfsverkefni milli íslenskra og taílenskra aðila á sviði sjálfbærra fiskveiða og fiskveiðistjórnunar. Samningurinn veitir íslenskum fyrirtækjum ennfremur víðtækari heimildir til fjárfestinga á Taílandi, auk þess að bæta aðgang íslenskra þjónustufyrirtækja að taílenskum þjónustumarkaði. Þá fjallar samningurinn meðal annars um vernd hugverka og  sjálfbær viðskipti. 

Holberg Másson, formaður ÍTV, opnar fundinn. Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Sveinn K. Einarsson, deildarstjóri viðskiptasamninga, munu síðan fara yfir fríverslunarsamninginn, kynna fyrir fundarmönnum þau tækifæri sem í honum felast og svara spurningum. Fundarstjóri er Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA og ÍTV.

Fundurinn fer fram á Teams kl. 15 þriðjudaginn 14. janúar. Skráning er hér að neðan. Skráð fyrirtæki fá sent fundarboð með hlekk til þátttöku með góðum fyrirvara.

Skráning á Teams-fund til kynningar á fríverslunarsamningi Íslands og Taílands

Nýjar fréttir

Innskráning