Skylda til að birta jafnlaunaupplýsingar nái aðeins til fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri

08.07.2025

Félag atvinnurekenda leggur til að jafnlaunavottun verði valkvæð en ekki lagaskylda og að við innleiðingu launagegnsæistilskipunar Evrópusambandsins verði hún ekki „gullhúðuð“ heldur eingöngu látin ná til fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri. Þetta kemur fram í umsögn FA um áform Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um að létta og einfalda lagaákvæði um jafnlaunakerfi.

FA rifjar upp að í upphafi, þegar lagaskyldu um jafnlaunavottun fyrir fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn, hafi félagið lýst jákvæðri afstöðu til vottunarinnar, en lagt til að hún yrði ekki lagaskylda. FA vísar til kannana meðal félagsmanna sinna, sem sýna að kostnaður við jafnlaunavottun sé á bilinu 100 til 400 þúsund krónur á hvern starfsmann, en vinna stjórnenda við flókið vottunarferli feli í sér mun meiri kostnað til viðbótar. FA vitnar ennfremur til rannsókna, sem sýna að ekki sé munur á launamun kynjanna hjá annars vegar fyrirtækjum sem hafa farið í gegnum jafnlaunavottun og hinum, sem ekki hafa gert það.

Afstaða félagsmanna breyttist úr jákvæðri í neikvæða
FA hefur kannað afstöðu félagsmanna sinna til jafnlaunavottunar frá upphafi og hefur orðið mikil breyting á henni á þeim rúmlega sjö árum sem löggjöfin hefur verið í gildi.

Allar götur síðan, eða frá árinu 2018, hefur FA spurt um afstöðu til jafnlaunavottunarinnar í árlegum könnunum sínum meðal félagsmanna. Hér að ofan er sýnd afstaða aðildarfyrirtækja til fullyrðingar um að jafnlaunavottun stuðli að launajafnrétti.

Eins og sjá má, hefur á árabilinu 2018-2025 orðið veruleg breyting á afstöðu félagsmanna í FA og miklu fleiri eru nú ósammála því en í byrjun að lögbundin jafnlaunavottun stuðli að auknu launajafnrétti. Þannig hefur „mjög sammála“ og „sammála“ fækkað úr samanlagt 57,5% í 17,3%. Um leið hefur „ósammála“ og „mjög ósammála“ fjölgað úr samanlagt 15% í samtals 43,1%.

FA hefur jafnframt spurt hvort félagsmenn telji lögbundna jafnlaunavottun hafa í för með sér meiri ávinning en kostnað fyrir þeirra fyrirtæki. Niðurstöðurnar sjást á myndinni hér að ofan og sýna glögglega að undanfarin ár hafa æ fleiri talið kostnaðinn vegna jafnlaunavottunar meiri en ávinninginn. Árið 2018 sögðust samtals 17,5% ósammála eða mjög ósammála þeirri fullyrðingu að jafnlaunavottunin hefði í för með sér meiri ávinning en kostnað fyrir fyrirtækin. Í byrjun þessa árs er sú tala komin í 72,8%, samanborið við 16,7% sem segjast sammála eða mjög sammála fullyrðingunni. Síðarnefnda talan var 30% í upphafi tímabilsins.

„Ekki verður því annað séð en að væntingar atvinnurekenda, sem í upphafi voru jákvæðar, hafi með tímanum breytzt í allnokkur vonbrigði með löggjöfina og áhrif hennar,“ segir í umsögn FA.

EES-tilskipun verði ekki gullhúðuð
Í áformaskjali ráðuneytisins er vikið að upptöku svokallaðrar launagegnsæistilskipunar Evrópusambandsins (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2023/970). Samkvæmt ákvæðum hennar verða opinberar ýmsar þær upplýsingar, sem nú ber að veita samkvæmt jafnlaunastaðlinum, til að mynda um launagreiningar og mun á launum kynjanna hjá atvinnurekendum með fleiri en 100 starfsmenn. Eftirlitsaðilar gætu þá nálgast þær upplýsingar með einföldum hætti.

„Ef lögin um jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum standa óhögguð um leið og ákvæði tilskipunarinnar verða innleidd í íslenzkan rétt, væri verið að búa til fráleitan og íþyngjandi tvíverknað fyrir fjölda fyrirtækja. Stærðarmörk fyrirtækja, sem kveðið er á um í tilskipuninni (100 starfsmenn eða fleiri), eru að mati FA líka mun skynsamlegri en núgildandi ákvæði um 25 starfsmenn eða fleiri og engin ástæða væri til að „gullhúða“ tilskipunina með því að lækka viðmiðið, eins og því miður eru alltof mörg dæmi um. Þyngri kvaðir væru þá settar á minni íslenzk fyrirtæki en sambærileg fyrirtæki annars staðar á EES og samkeppnisstaða íslenzku fyrirtækjanna því skert. Eins og áður segir hefur hið lágt setta gólf verið alltof íþyngjandi fyrir minni fyrirtæki,“ segir í umsögn FA, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri ritar.

Mikilvægt að huga að samkeppnishæfni
FA segist sammála því mati dómsmálaráðherra að núgildandi löggjöf um jafnlaunakerfi hafi stuðlað að því að bæta vitund stjórnenda fyrirtækja um launaákvarðanir. „Í tilviki smærri fyrirtækja hefur hvort heldur jafnlaunavottunar- eða jafnlaunastaðfestingarferlið reynzt alltof þungt í vöfum og kostnaðarsamt og leitt af sér mun neikvæðari afstöðu atvinnurekenda til löggjafarinnar en í upphafi. Að mati FA er mikilvægt að viðhalda samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs með því að fyrirtæki búi ekki við meira íþyngjandi kvaðir að þessu leyti en sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum. Að mati FA ætti því niðurstaðan að verða sú að þegar launagegnsæistilskipun ESB verður innleidd í íslenzk lög, verði skylda til upplýsingagjafar samkvæmt henni miðuð við fyrirtæki með fleiri en 100 starfsmenn og kvöð um jafnlaunakerfi verði ekki lögð á minni fyrirtæki. Jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðli ætti að vera valfrjáls fyrir fyrirtæki,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning