Áfengisfrumvarp gengur of skammt – ekkert gert með leiðréttingar og ábendingar

11.02.2016

ÁfengiFélag atvinnurekenda telur áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna, sem hefur nú verið lagt fram öðru sinni, meingallað. Félagið lýsir í umsögn til Alþingis vonbrigðum með litlar breytingar á frumvarpinu frá í fyrra og að ekkert skuli hafa verið gert með leiðréttingar á rangfærslum í frumvarpinu og vel rökstuddar og málefnalegar ábendingar FA og fleiri samtaka fyrirtækja um hvernig mætti sníða af því gallana.

„Félag atvinnurekenda styður markaðs- og verzlunarfrelsi á öllum mörkuðum, líka áfengismarkaðnum. Hins vegar getur félagið með ekki með nokkru móti lýst yfir stuðningi við það meingallaða frumvarp sem hér er til umfjöllunar, segir í umsögn FA. „Með samþykkt frumvarpsins yrði umhverfi viðskipta með áfengi áfram mjög óheilbrigt, í fyrsta lagi vegna þess að flutningsmenn þess virðast ekki skilja að öllu leyti núverandi lagaumhverfi, í öðru lagi vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að ganga alla leið í að aflétta hömlum á sölu og markaðssetningu áfengis og í þriðja lagi vegna þess að að sumu leyti eru settar á nýjar hömlur með frumvarpinu. Þetta gengur þvert á þau rök flutningsmanna að áfengi sé almenn neyzluvara. Óhætt er að fullyrða að yrði frumvarpið að lögum myndi það að þarflausu hafa mjög neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja sem stunda heildsölu á áfengi.“

Rangfærsla um áfengisgjald stendur óbreytt
FA lýsir furðu yfir því að enn standi í frumvarpinu sú rangfærsla að það sé smásalan sem stendur skil á áfengisgjaldi til ríkissjóðs. Fyrir vikið sé í frumvarpinu engin tillaga um að breyta því fyrirkomulagi, en FA hefur áður bent á að breyting á smásölufyrirkomulagi áfengis án þess að breyta innheimtu áfengisgjalds myndi hafa mjög neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi fyrirtækja í framleiðslu og innflutningi áfengis.

„Þetta atriði var margleiðrétt og rætt ýtarlega á fundum FA með fyrsta flutningsmanni frumvarpsins og með tveimur þingnefndum. Því er illskiljanlegt að þetta atriði standi óbreytt í frumvarpinu,“ segir í umsögninni.

Þar er jafnframt bent á að breytingar á skattlagningu áfengis um áramót, þar sem áfengisgjaldið var hækkað en virðisaukaskattur lækkaður, magni enn upp þennan stóra ágalla frumvarpsins.

Ekkert gert með tillögur um afnám auglýsingabanns
FA lýsir ennfremur vonbrigðum með að ekkert skuli hafa verið gert með ýtarlegar tillögur félagsins um hvernig mætti leyfa áfengisauglýsingar með skýrum skilyrðum, en þær voru sendar allsherjar- og menntamálanefnd að beiðni formanns hennar. Þvert á móti vilji formaðurinn og aðrir í 1. minnihluta nefndarinnar „raunhæfari úrræði til að bregðast við brotum á núverandi auglýsingabanni“ eins og fram hafi komið í nefndaráliti þeirra um frumvarpið á síðasta þingi og hafi lagt fram breytingartillögur sem feli í sér skýrari ákvæði um refsingar fyrir brot á auglýsingabanninu.

Félagið rifjar upp röksemdir sínar gegn auglýsingabanni á áfengi. Meðal annars er vísað til áforma Haga, stærstu smásöluverslanakeðju landsins, um að hefja beinan innflutning á eigin áfengisvörumerkjum. „Ætla má að aðrar stórar smásölukeðjur hafi svipuð áform. Eigin innflutningur stóru verzlanakeðjanna yrði þá áberandi í áfengishillum stórmarkaðanna. Þetta er staða sem er kunnugleg fyrir heildsala í matvöru og annarri dagvöru. Stóri munurinn er sá að innflytjendur slíkrar vöru geta vakið athygli á eigin vörumerkjum og ýtt undir áhuga neytenda með auglýsingum. Gangi frumvarpið fram óbreytt munu áfengisheildsalar hins vegar ekki eiga neinn slíkan kost. Að óbreyttum ákvæðum frumvarpsins myndi því enn halla á heildsölustigið gagnvart smásölustiginu,“ segir í umsögninni.

Þá er bent á að með því að áfengi verði selt í almennum verslunum komi það oftar og víðar fyrir sjónir almennings en nú. „Í útstillingum og kynningum í verzlunum felst bein og óbein auglýsing, sem enn og aftur verður á forræði smásöluverzlananna. Ekkert væri óeðlilegt við það ef framleiðendum og innflytjendum áfengis væri jafnframt frjálst að auglýsa vöru sína,“ segir FA.

Engin rök fyrir mismunun gagnvart sterku áfengi
Félag atvinnurekenda gagnrýnir áfram ákvæði frumvarpsins um að sterkt áfengi skuli haft aðskilið frá öðru áfengi, nema í sérverslunum. Þessi mismunandi meðhöndlun á sterku og léttu áfengi sé ómálefnaleg og ekkert rökstudd í greinargerð frumvarpsins. Fyrir neytandann þýði þetta skref aftur á bak. Þá sé sala sterks áfengis aðeins um 3,85% af heildarsölu áfengis í lítrum. „Að gera verzlunum að ráðast í dýrar ráðstafanir vegna vöru sem er svo lágt hlutfall sölunnar myndi gera búðum á landsbyggðinni og smærri verzlunum almennt sérstaklega erfitt fyrir,“ segir í umsögn FA.

Allt undir í heildarendurskoðun áfengislöggjafar
„FA ítrekar stuðning sinn við afnám á hömlum á viðskiptafrelsi, á hvaða markaði sem er,“ segir að lokum í umsögn félagsins. „Félagið telur sig hafa lagt fram rökstuddar og málefnalegar tillögur um hvernig megi skoða þetta mál heildstætt, tryggja sem frjálsast viðskiptaumhverfi sölu og markaðssetningar áfengis og bæta úr stórum og augljósum göllum á frumvarpinu. Félagið getur ekki mælt með því að frumvarpið verði að lögum óbreytt; það myndi að þarflausu skaða hagsmuni fjölda fyrirtækja í framleiðslu og innflutningi áfengis. Félagið ítrekar tillögu sína um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar hvað varðar ríkiseinokunina, auglýsingabannið, skattpíninguna, aldursmörk viðskiptavina og aðrar þær hömlur sem lagðar eru á þessa atvinnugrein umfram aðrar.“

Umsögn FA um endurframlagt áfengisfrumvarp á 145. löggjafarþingi

Umsögn FA um áfengisfrumvarpið á 144. löggjafarþingi

Tillögur FA um afnám auglýsingabanns á áfengi og setningu siðareglna

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning