Afnám 20/50-reglunnar jók skatttekjur ríkissjóðs

09.04.2015

FjarmalaraduneytiAfnám hinnar svokölluðu 20/50-reglu við skattlagningu arðs jók skatttekjur ríkissjóðs, að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag. Félag atvinnurekenda barðist hart fyrir afnámi þessarar ósanngjörnu reglu undir merkjum Falda aflsins.

20/50-reglan var sett á í tíð fyrri ríkisstjórnar árið 2009. Hún gekk í stuttu máli út á að úthlutaðan arð til einstaklinga sem vinna við eigin atvinnurekstur, umfram 20% af skattalegu eigin fé, skuli skattleggja þannig að helmingur teljist til launatekna og helmingur til fjármagnstekna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra beitti sér fyrir afnámi reglunnar í árslok 2013.

Í Viðskiptablaðinu er haft eftir endurskoðendum að afnám reglunnar hafi haft töluverð áhrif á hegðun eigenda þeirra fyrirtækja sem reglan tók til. Sturla Jónsson, endurskoðandi hjá Grant Thornton, segir: „Ég gæti trúað að haldið hafi verið aftur af arðgreiðslum og fjármagninu frekar haldið inni í fyrirtækinu. Þannig safnast upp fjármagn innan fyrirtækjanna sem ekki var tekið út úr þeim. Eftir breytingu laganna hefur þetta snúist við og arðgreiðslur aukist. Þá er í einhverjum tilvikum greiddur út arður vegna hagnaðar sem skapaðist meðan reglan var í gildi.“

Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti jukust í fyrra um tæplega 58% frá árinu á undan. Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja að afnám 20/50-reglunnar sé ekki eina ástæðan. Skráð fyrirtæki og bankar hafi greitt út mikinn arð í fyrra, sem vegi líka þungt.

„20/50-reglan er ágætt dæmi um það þegar stjórnvöld ganga of langt í ósanngjarnri og flókinni skattlagningu. Það sem átti að vera aðferð til tekjuöflunar snýst upp í andhverfu sína. Einfalt og sanngjarnt skattkerfi skilar á endanum mestu í sameiginlega sjóði og hvetur um leið til verðmætasköpunar í fyrirtækjunum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning