Rétt eins og hin 95 árin frá stofnun félagsins, setti barátta fyrir lækkun tolla og frjálsum milliríkjaviðskiptum mark sitt á starf FA. Félagið lagði meðal annars áherslu á að hneykslið við tollflokkun pitsaosts, þar sem flokkað var rangt undir þrýstingi frá hagsmunaaðilum í landbúnaði, yrði leiðrétt. Bent var á jákvæð verðlagsáhrif af lækkun tolla. FA talaði áfram fyrir því að breyta aðferðum við úthlutun tollkvóta þannig að innlendar afurðastöðvar geti ekki framar spilað á kerfið með því að bjóða hátt í tollkvóta, sölsa hann þannig undir sig og halda uppi verðinu á innflutningi til að vernda eigin framleiðslu.