Athugasemd frá Landsbankanum

12.01.2016

Dómstólar hafa staðfest túlkun Landsbankans á aðstöðumun

Landsbankinn-FAÍ umfjöllun um ágreining í gengislánamálum á vef Félags atvinnurekenda 28. desember sl. er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, að Landsbankinn virðist hafa gengið einna harðast fram í ágreiningsmálum um gengistryggð lán og túlkað dómafordæmi viðskiptavinum sínum í óhag.

Af þessu tilefni vill Landsbankinn koma eftirfarandi á framfæri:

Í kjölfar þess að gengistrygging var dæmd ólögmæt hefur Landsbankinn endurreiknað tugi þúsunda gengistryggðra lána og fært niður höfuðstól lánanna til samræmis. Í langflestum tilfellum hefur þetta verið gert án ágreinings en í sumum tilfellum hefur ágreiningsmálum verið skotið til dómstóla.

Fullyrðingar um að Landsbankinn hafi gengið harðar fram en önnur fjármálafyrirtæki í ágreiningsmálum um gengistryggð lán eru úr lausu lofti gripnar. Vissulega hefur bankinn, vegna stærðar sinnar, verið aðili að töluverðum fjölda dómsmála. Þau mál hafa að mati bankans verið nauðsynleg til þess að skýra réttarstöðu í viðkomandi málum og til þess að skapa forsendur fyrir úrlausn annarra sambærilegra mála.

Landsbankinn mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu að hafa túlkað dómafordæmi viðskiptavinum sínum í óhag. Í mjög mörgum álitamálum varðandi gengistryggð lán hefur tekið langan tíma að fá fram nægjanlega skýr fordæmi og vísbendingar frá Hæstarétti. Landsbankinn hefur fagnað öllum slíkum fordæmum og vísbendingum og beitt þeim með víðtækum hætti til að geta átt frumkvæði að því að leysa sem fyrst úr sambærilegum álitamálum þannig að viðskiptavinir fái rétta niðurstöðu.

Eitt álitamál tengt gengistryggðum lánum lýtur að svokölluðum aðstöðumun. Helsta fordæmið um hvernig eigi að skilgreina aðstöðumun í gengislánamálum er dómur Hæstaréttar í máli Haga gegn Arion banka. Í dómnum er að finna viðmið að því er varða stærð fyrirtækja og önnur atriði sem skipta máli þegar lagt er mat á hvort um sé að ræða aðstöðumun gagnvart fjármálafyrirtækjum. Á grundvelli dómsins útfærði Landsbankinn nánari viðmið um hvenær um sé að ræða aðstöðumun milli bankans og fyrirtækis. Í vetur hafa fallið dómar í gengislánamálum sem varða Landsbankann, bæði í Hæstarétti og í héraði, og hafa þeir allir staðfest túlkun bankans á að ekki hafi verið um aðstöðumun að ræða í þeim tilfellum. Fjöldi fyrirtækja, sem Landbankinn telur að séu það stór að ekki sé um að ræða aðstöðumun, er hins vegar miklu minni en gefið er í skyn í fyrrnefndri umfjöllun á vef Félags atvinnurekenda.

Niðurstöður könnunar Félags atvinnurekenda um fjölda ágreiningsmála, sem eftir er að leysa úr, koma Landsbankanum á óvart og eru ekki í samræmi við mat bankans á stöðu þeirrar vinnu sem bankinn hefur lagt í til að leysa úr málum viðskiptavina sinna. Landsbankinn sér fyrir endann á flestum deilumálum. Í óleystum málum liggja í mörgum tilfellum fyrir skýr dómafordæmi. Landsbankinn vonast til að fljótlega verði öllum ágreiningi um gengistryggð lán lokið.

Endurreikningur gengistryggðra lána og úrlausn álitamála, sem tengjast þeim, hefur verið gríðarlega umfangsmikið og flókið verkefni. Starfsfólk Landsbankans hefur gert sitt besta til að leysa úr verkefninu með eins skjótum og farsælum hætti og framast er unnt.

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning