Helmingur fyrirtækja með gengislán hefur átt í ágreiningi við bankann

28.12.2015

Gengislán ágreiningurEnn er óleyst úr ágreiningi margra fyrirtækja við lánastofnanir vegna gengislána, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Félag atvinnurekenda í nóvember og desember.

Könnunin var gerð með svokölluðum fyrirtækjavagni sem náði til 455 fyrirtækja. Af þeim eru rúm 27% með lán í erlendri mynt eða höfðu verið með slíkt lán undanfarin sjö ár. Af stærri fyrirtækjunum, þ.e. með veltu yfir 1.000 milljónir, voru 57% með gengislán eða höfðu verið með slíkt lán.

Af fyrirtækjum sem höfðu tekið lán í erlendri mynt hafði rétt um helmingur, eða 48,6%, átt í ágreiningi við fjármálastofnun vegna lánsins. Er þau fyrirtæki voru spurð hvort leyst hefði verið úr ágreiningnum, svöruðu rúmlega 40% að hann hefði verið leystur að fullu, um 35% að úr honum hefði verið leyst að hluta og rúmlega 23% að ágreiningurinn væri óleystur.

Þeir sem höfðu fengið leyst úr ágreiningi sínum við banka að öllu leyti eða að hluta til voru spurðir hversu ánægðir þeir væru með úrlausnina. Rúmlega 28% sögðust óánægðir, 38% ánægðir og 33% hvorki né.

Nokkrir dómar hafa fallið í Hæstarétti þar sem rétturinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki eigi ekki að njóta svokallaðrar fullnaðarkvittanareglu og verði sjálf að bera viðbótarkröfu bankans vegna gengislána þar sem ekki hafi verið aðstöðumunur á fyrirtækinu og bankanum. Af því tilefni voru fyrirtæki sem átt höfðu í ágreiningi við fjármálastofnanir vegna gengislána spurð: „Hefur fjármálastofnunin haldið því fram að ekki hafi verið aðstöðumunur varðandi fjármálaþekkingu milli fyrirtækisins og fjármálastofnunar þegar lánið var tekið eða hefur fjármálastofnunin ekki haldið því fram?“ Tæplega 42% fyrirtækjanna svöruðu því til að slíku hefði verið haldið fram af hálfu fjármálastofnunar.

Gengislán aðstöðumunurVakin skal athygli á að svarendur við sumum spurningum könnunarinnar eru fáir og ber að túlka hlutfallstölur með varúð, en þær gefa engu að síður ágæta vísbendingu um hvernig landið liggur.

Til marks um óviðunandi stöðu
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að niðurstöður könnunarinnar komi ekki á óvart og staðfesti það sem Félag atvinnurekenda hafi leitast við að benda á fyrr á árinu; að átta árum eftir hrun og að gengnum hundruðum dóma í gengislánamálum séu alltof mörg lán enn í ágreiningi. Í sumum tilvikum sé enn beinlínis deilt um lögmæti lánanna, í öðrum um hvort fyrirtækjunum beri að njóta svokallaðrar fullnaðarkvittanareglu.

„Þetta virðist því miður staðfesta það sem við höfum haldið fram, að nýju bankarnir hafa í of miklum mæli látið dómstólunum eftir að ráðstafa þeim afslætti sem þeir fengu af gengislánunum þegar þau voru færð úr þrotabúum gömlu bankanna. Þessi mál hafa verið látin danka í ágreiningi milli bankanna og viðskiptavina þeirra og sífellt beðið eftir nýjum dómafordæmum, í stað þess að bankarnir leitist við að leysa úr ágreiningnum með frjálsum samningum við viðskiptavini sína, á viðskiptalegum forsendum,“ segir Ólafur.

Hann segir þó að munur virðist vera á nálgun bankanna við að reyna að finna lausn á vanda vegna gengislána. Landsbankinn virðist hafa gengið einna harðast fram og túlkað dómafordæmi viðskiptavinum sínum í óhag, til að mynda virðist bankinn hafa haldið því fram að nánast öll fyrirtæki með meira en 1,5 milljarða króna í veltu hafi ekki verið í aðstöðumun gagnvart bankanum. „Þetta hugtak um aðstöðumun kom inn í dóma Hæstaréttar þar sem Hagar, eitt stærsta fyrirtæki landsins, tókst á við Arion-banka. „Að því sama sé haldið fram um allt að 40% fyrirtækja sem hafa átt í ágreiningi við bankann sinn um gengislán er með talsverðum ólíkindum,“ segir Ólafur.

„Óleystur ágreiningur vegna gengislána er meinsemd í íslensku viðskiptalífi sem stendur í vegi fyrir því að mörg fyrirtæki nái að blómstra, vaxa og fjárfesta. Allt þetta ferli hefur tekið alltof mikinn tíma og orku frá alltof mörgum fyrirtækjum og dregið úr þeim kraft til vaxtar og fjárfestinga,“ segir Ólafur Stephensen.

Samkvæmt úttekt sem unnin var fyrir FA fyrr á árinu voru um 547 milljarðar króna, eða um þriðjungur af upphaflegri upphæð gengislána, enn í ágreiningi.

Niðurstöður úr fyrirtækjavagni Gallup í heild sinni

Nýjar fréttir

Innskráning