Atvinnuvegasamtök fái að kæra útboð

14.03.2016

IMG_6490Félag atvinnurekenda leggur til að bætt verði í lögin um opinber innkaup ákvæði sem gerir atvinnuvegasamtökum á borð við FA kleift að kæra framkvæmd útboða. Þetta sé nauðsynlegt vegna þess að einstök fyrirtæki treysti sér oft ekki til að kæra brot á lögunum.

Kastljós RÚV fjallaði í tveimur þáttum í síðustu viku um útboðsmál ríkisins. Þar kom fram að gríðarlegur misbrestur er á að farið sé eftir lögum um opinber innkaup. Afleiðingin er sóun á fé skattgreiðenda upp á milljarða króna. Í máli Halldórs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Ríkiskaupa, kom fram að seljendur vöru og þjónustu væru oft tregir til að kæra framkvæmd ríkisstofnana á lögunum um opinber innkaup.

Þröngar útboðslýsingar útiloka stóran hluta
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, ræddi þessi mál við Helga Seljan í þættinum Vikulokunum á Rás 1 síðastliðinn laugardag. Ólafur rakti meðal annars hvernig ríkið reyndi stundum markvisst að komast hjá því að nýta stærð sína til að fá hagstæðari kjör. Skýrasta dæmið væri innkaup ríkisins á flugfarseðlum, en þar hélt fjármálaráðuneytið því fram fullum fetum í málarekstri fyrir kærunefnd útboðsmála að flugmiðainnkaup hverrar ríkisstofnunar fyrir sig væru undir þeim mörkum sem kveða á um skyldu til útboðs, ekki ætti að horfa á flugmiðakaup ríkisins í heild. „Þannig að ríkið var alveg markvisst að forðast að nota kaupendastyrk sinn. Þetta er í rauninni fullkomlega óskiljanlegt,“ sagði Ólafur.

Ólafur sagði að margar ríkisstofnanir reyndu að komast hjá útboðum. „Oft er það líka þannig að menn eru búnir að mynda sér skoðun á því hvað þá langar í og svo vilja þeir bara fara og kaupa það. Ef þeir eru neyddir til að bjóða út, þá orða þeir útboðslýsinguna svo þröngt að það er í rauninni bara búið að útiloka stærstan hluta af markaðnum og kannski bara einhver tiltekin ein vara sem kemur til greina,“ sagði Ólafur.  Aðspurður sagði hann ótal dæmi um þetta.

Samtök fái kæruheimild
Framkvæmdastjóri FA vitnaði til tillögu félagsins í umsögn um drög að nýju frumvarpi um opinber innkaup; um að atvinnuvegasamtökum á borð við FA verði gert kleift að kæra framkvæmd laganna um opinber innkaup. Í umsögn félagsins um þetta efni segir: „Í framkvæmd er það svo að fyrirtæki veigra sér við að kæra brot á lögum um opinber innkaup þar sem þau óttast mögulegar afleiðingar slíkrar kæru, þ.e. að viðkomandi fyrirtæki fái ekki samning í þeim opinberu útboðum sem á eftir fara. Mikilvægt er að vinna bug á þessu meini og tryggja að eftirlit með framkvæmd laganna sé virkt og skili árangri. Sjálfstæð heimild samtaka og félaga til að kæra ætlað brot væri þar öflugt tæki.“

Vísað er til fyrirmyndar að lagaákvæði af þessu tagi í dönskum lögum um framkvæmd útboðsreglna. Þar eru talin upp fyrirtæki og stjórnvöld sem ráðherra tilnefnir og hafa heimild til að leggja fram kæru til kærunefndar útboðsmála.

Umsögn FA um drög að frumvarpi til laga um opinber útboð

Vikulokin 12. mars 2016

Hádegisfréttir RÚV 12. mars 2016 – frétt um málið á 13.25

 

Nýjar fréttir

Innskráning