Aukinn stuðningur við tillögu um afnám snakktolls

19.12.2015
IMG_5520
Frá kynningu á matartollaskýrslu FA í október, þar sem tekin voru dæmi um ósanngjarna tolla sem ætti að afnema.

Sigríður Á. Andersen alþingismaður hefur lagt fram á nýjan leik tillögu sína um afnám ofurtolls á innflutt kartöflusnakk. Í hópinn hafa nú bæst sex aðrir flutningsmenn úr fjórum flokkum. Stuðningur við málið virðist víðtækur í þinginu.

Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í efnahags- og viðskiptanefnd lagði upphaflega til afnám 59% tolls á kartöflusnakks, en lét undan þrýstingi innlendra snakkframleiðenda, sem njóta verndar tollsins. Sigríður Á. Andersen, sem sæti á í nefndinni, flutti þá tillöguna um afnám tollsins í eigin nafni, með þeirri breytingu að afnámið tæki gildi á miðju ári 2016, en ekki um næstu áramót.

Sigríður dró tillöguna til baka við lok 2. umræðu um bandorminn svokallaða, en hefur nú lagt hana fram að nýju fyrir 3. umræðu. Nýir flutningsmenn með henni eru Árni Páll Árnason, Samfylkingu, Guðmundur Steingrímsson, Bjartri framtíð, Líneik Anna Sævarsdóttir og Willum Þór Þórsson, Framsóknarflokki og Vilhjálmur Bjarnason og Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki. Þetta þýðir að allur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, að Frosta Sigurjónssyni formanni undanskildum, stendur að tillögunni. Enn hefur tillögunni verið breytt, á þann veg að tollurinn falli ekki úr gildi fyrr en í ársbyrjun 2017.

„Mér heyrist að þessi tillaga njóti nú víðtæks stuðnings í þinginu, enda held ég að allir hljóti að sjá hversu fráleitur þessi tollur er,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það hefur komið rækilega fram í umræðum um þetta mál að snakktollurinn hefur ekkert með tollvernd landbúnaðarins að gera, enda er ekkert snakk framleitt á Íslandi úr íslenskum kartöflum. Hér er verið að leggja 160 milljóna króna álögur á neytendur til að vernda hagsmuni tveggja lítilla iðnfyrirtækja. Ég hvet þingmenn eindregið til að samþykkja þessa tillögu sem skref í að koma hér á heilbrigðara viðskiptaumhverfi með matvöru.“

Lestu meira um matartolla sem ætti að lækka eða fella niður í skýrslu FA um matartolla

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning