Búvörusamningar eru ekki kjarasamningar

12.07.2016
OS SS Bylgjan 120716 jpeg
Ólafur Stephensen og Sindri Sigurgeirsson ræða búvörusamninga á Bylgjunni. Mynd: Bylgjan/Vísir

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýndi í viðtali á Bylgjunni í morgun þann málflutning talsmanna landbúnaðarins að búvörusamningar við bændur væru sambærilegir við kjarasamninga við launþega. Verið væri að semja við sjálfstæða atvinnurekendur.

Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Facebook-síðu sinni í gær: „Nei – þið bændur þurfið ekki samninga þó flestir aðrir hafi fengið verulegar kjarabætur. Þannig gæti hljómað samandregin skilaboð frá þeim sem talað hafa á undanförnum mánuðum gegn kjarasamningum.“

Í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun sagði Sindri Sigurgeirsson, núverandi formaður Bændasamtakanna, að ekki hefði verið eðlilegt að fulltrúar atvinnulífs og neytenda fengju meiri aðkomu að gerð búvörusamninganna. „Ríkið er náttúrulega fulltrúi almennings í þessum samningaviðræðum. Á fulltrúi bænda til dæmis að sitja við samningaborðið þegar verið er að semja við opinbera starfsmenn?“ spurði Sindri.

„Þetta eru ekki kjarasamningar. Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur og margir hverjir með fólk í vinnu,“ sagði Ólafur Stephensen. Það njóta nú engar aðrar atvinnugreinar þeirra forréttinda að ríkið semji sérstaklega við þær um þeirra starfskjör. Þeir sem eru til dæmis í mínu félagi fara bara að lögum sem Alþingi setur. Alþingi þarf ekki frekar en það vill að semja við bændur um þeirra starfsumhverfi. Það getur einfaldlega bara sett lög um það. Þannig að það að bera þetta saman við kjarasamninga og segja þá að bændur ættu að sitja við samningaborðið þegar verið er að semja við opinbera starfsmenn, það er algjörlega galið,“ sagði Ólafur.

Sjálfsagt að aðrir atvinnurekendur, neytendur og skattgreiðendur hafi skoðun
Fyrst eftir að búvörusamningar voru gerðir í febrúar síðastliðnum hélt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, því fram að samningarnir væru sambærilegir við kjarasamninga við ríkisstarfsmenn. Um það sagði Félag atvinnurekenda í minnisblaði um samningana til fjárlaganefndar Alþingis: „Með því er gefið í skyn að bændur séu ríkisstarfsmenn. Það eru þeir auðvitað ekki. Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur og sjálfsagt er að aðrir atvinnurekendur, neytendur og skattgreiðendur hafi skoðun á því hvernig farið er með þá gífurlegu fjármuni sem varið er í stuðning við fyrirtæki í þessari einu atvinnugrein, ýmist með beinum fjárframlögum skattgreiðenda eða óbeint með tollvernd. Þess má jafnframt geta að atvinnurekendum í öðrum geirum gefst ekki færi á að semja við ríkið um starfsskilyrði sín með sambærilegum hætti.“

Ólafur Stephensen og Sindri Sigurgeirsson á Bylgjunni

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning