Einföldun á regluverki fagnað

27.03.2017

Félag atvinnurekenda fagnar nýju frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, um breytingu á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Frumvarpinu er ætlað að einfalda gildandi reglur um stofnun félaga.

„Félag atvinnurekenda fagnar allri einföldun á regluverki atvinnulífsins og telur því frumvarpið sem slíkt til mikilla bóta. Einfalt, skilvirkt og hagkvæmt regluverk er bæði almenningi og atvinnulífi til hagsbóta,“ segir í umsögn FA til Alþingis. Þar kemur fram að þrátt fyrir fögur fyrirheit hafi ekki náðst sú einföldun regluverks atvinnulífsins sem stefnt hefur verið að síðustu árin eins og  berlega hafi komið í ljós með skýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í október síðastliðnum.

FA telur tillögu frumvarpsins um niðurfellingu búsetuskilyrðis stofnenda hlutafélaga mjög til bóta en líkt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins hefur ráðherra almennt veitt undanþágu frá þessu skilyrði. Einnig er lagt til að skráð félagasamtök og lífeyrissjóðir bætist við upptalningu þeirra aðila sem geta stofnað hlutafélag. Í framkvæmd hefur ráðherra almennt veitt öðrum aðilum undanþágu. „Þessar breytingar fela í sér umtalsverða einföldun, auka skilvirkni og minnka óþarfa kostnað og vinnu. Þá telur FA til mikillar einföldunar að frestir til að tilkynna hlutafélagaskrá séu lengdir í nokkrum tilvikum úr tveimur vikum í fjórar þannig að samræmis gæti við almennan tímafrest til skráningar samkvæmt XVII. kafla hlutafélagalaganna og XVII. kafla einkahlutafélagalaganna,“ segir í umsögn FA. 

Í frumvarpinu er lögð til breyting á búsetuskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra en hún felur í sér að skilyrðið gildi ekki fyrir ríkisborgara EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings EFTA og Færeyja, sama hvar þeir eru búsettir í heiminum, og einstaklinga sem búsettir eru í framangreindum ríkjum. „FA telur þessa breytingu afar jákvæða enda stuðlar hún að frjálsu flæði starfsfólks og fellur betur að því starfsumhverfi sem verður æ algengara, þ.e. að fólk hafi búsetu í einu landi en starfi í öðru eða öðrum með aðstoð tölvutækni og góðra samgangna,“ segir félagið í umsögn sinni.

Félag atvinnurekenda telur einsýnt að frumvarpið leiði til aukinnar skilvirkni og einföldunar á þeim reglum sem lúta að stofnun og starfsemi hlutafélaga og einkahlutafélaga. Með hliðsjón af því leggur FA til að frumvarpið nái fram að ganga.

Umsögn FA

Nýjar fréttir

Innskráning