Ekki klúðra samningum við ríkisstarfsmenn

27.03.2024

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 27. mars 2024.

Sjálfsagt hafa fleiri en greinarhöfundur orðið hissa þegar Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi ráðherra VG og núverandi formaður Bandalags háskólamanna, lýsti því yfir í viðtali við RÚV að launajöfnuður á Íslandi hefði gengið of langt. Kolbrún sagðist ekki vilja krónutöluhækkanir og að millitekju- og efri millitekjuhópar hefðu greitt fyrir kjarabætur hinna lægst launuðu. Þá sagði hún skýrt að sú 3,5% árlega launahækkun, sem um samdist á almenna vinnumarkaðnum, dygði ekki BHM-fólki.

Þessi skoðun úr svolítið óvæntri átt staðfestir að það er rétt, sem kom fram í skýrslu Intellecon fyrir Félag atvinnurekenda (sem margir talsmenn opinberra starfsmanna drógu í efa) að laun í stjórnsýslunni eru orðin jafngóð eða betri en á almenna vinnumarkaðnum. Einkafyrirtæki eiga í harðri samkeppni um starfsfólk, sérstaklega sérfræðinga og stjórnendur, við hið opinbera sem bæði borgar betur og býður þægilegri vinnutíma.

Í kjarasamningunum 2014-2015 voru það launahækkanir opinberra starfsmanna sem settu vinnumarkaðinn á annan endann. Í samningum 2019 þóttist hið opinbera hafa samið við starfsfólk sitt um kjarabætur sem rúmuðust innan ramma Lífskjarasamningsins, en raunin varð sú að starfsfólk hins opinbera fékk miklu ríflegri styttingu vinnuvikunnar.

Eigi sá stöðugleiki að nást, sem nýgerðir samningar á almenna markaðnum miða að, er algjört lykilatriði að ríki og sveitarfélög láti ekki undan kröfum um meiri launahækkanir en 3,5% og standi í ístaðinu hvað varðar aðrar kröfur um rýmri kjör en á almenna markaðnum. Staðreyndin er sú að það er samkeppni frá hinu opinbera, sem er ein meginástæða launaskriðs á almenna markaðnum. Fyrirtækin verða einfaldlega að bjóða betur, ætli þau að keppa við launatölur, vinnutíma og fríðindi sem hið opinbera býður.

Hlutverki stjórnvalda við að tryggja árangur kjarasamninganna er með öðrum orðum ekki lokið.  Næsta verkefni er að klúðra ekki sínum kjarasamningum einu sinni enn.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning