Enn hækkar útboðsgjaldið – neytendur tapa 330 milljónum á úreltu kerfi

IMG_4609„Tollfrjáls“ innflutningskvóti fyrir landbúnaðarvörur sem fluttar eru inn frá Evrópusambandinu hækkar enn í verði milli ára. Útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir kvótann, hækkar í mörgum tilvikum um 15-20%. Þessi hækkun fer beint út í verðlagið og étur upp þann hag sem neytendur áttu að hafa af tollfrelsinu. Ætla má að um 330 milljónir króna renni úr vösum neytenda og í ríkissjóð vegna útboðsgjaldsins.

Félag atvinnurekenda hefur gert samanburð á niðurstöðum útboða á tollfrjálsum innflutningskvóta á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu fyrir árin 2014 til 2016, en niðurstöður úr nýjasta útboðinu voru tilkynntar fyrir skömmu. Íslenskum stjórnvöldum ber að heimila tollfrjálsan innflutning á takmörkuðu magni af búvörum frá ESB-ríkjum samkvæmt tvíhliða samkomulagi, sem gert var við ESB á grundvelli 19. greinar EES-samningsins. Nýtt samkomulag við ESB, sem gert var á árinu, tekur væntanlega ekki gildi fyrr en 2017 og er því tollkvótinn sem kemur til úthlutunar fyrir 2016 sá sami og undanfarin ár.

Fjór- til fimmföld eftirspurn
Niðurstaða samanburðarins er í stuttu máli sú að áfram er mikil umframeftirspurn innflutningsfyrirtækja eftir að fá að flytja inn búvörur frá ríkjum ESB; innflutningsfyrirtæki sóttu í sumum tilvikum um fjór- til fimmfalt það magn sem er í boði. Í sumum vöruflokkum dregst eftirspurn þó saman frá því í fyrra. Ástæður þess geta verið margvíslegar, til dæmis opnir tollkvótar sem hafa verið gefnir út fyrir nauta-, svína- og alifuglakjöt vegna skorts á innanlandsmarkaði.

Í töflunni hér að neðan sést yfirlit yfir þróunina í eftirspurn eftir tollkvótunum árin 2014-2016.

Kvóti í boði, tonn Umsóknir 2014, tonn Umsóknir 2015, tonn Umsóknir 2016, tonn Breyting 2015-2016 í % Umframeftirspurn 2016, margfeldi
Naut 100 334 461 438 -5,0 4,4
Svín 200 615 798 570 -28,6 2,9
Alifuglar 200 820 1043 867 -16,9 4,3
Þurrkað og reykt kjöt 50 45 57 99 73,7 2,0
Ostur (vöruliður 406) 80 170 254 195 -23,2 2,4
Ostur (svæðisbundnir) 20 37 52 80 53,8 4,0
Pylsur 50 66 123 122 -0,8 2,4
Elduð kjötvara 50 200 222 225 1,4 4,5

 

15-20% hækkun á útboðsgjaldinu
Í öllum tilvikum hækkar það gjald sem innflutningsfyrirtæki greiða fyrir tollkvótana. Margar ástæður geta verið fyrir því að boðið er hærra í tollkvótana; sum fyrirtæki eru til dæmis byrjuð að byggja upp viðskipti á hraðvaxandi veitingahúsamarkaði fyrir innflutta hágæðavöru og neyðast til að bjóða hátt í tollkvóta til að tryggja viðskiptavinum sínum afhendingaröryggi. Í öðrum tilvikum geta matvælafyrirtæki þurft innflutta búvöru í framleiðslu sína til að standast alþjóðlegar gæðakröfur. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan hækkar útboðsgjaldið á tollkvóta fyrir svínakjöt að meðaltali um tæplega 21%, um 18% á eldaðri kjötvöru og um ríflega 15% á skinkum og pylsum. Þar sem hækkunin er lítil, til dæmis á tollkvóta fyrir alifuglakjöt, er útboðsgjaldið einfaldlega komið að þolmörkum; ef boðið væri hærra í kvótann væri orðið dýrara að flytja inn á „tollfrjálsa“ kvótanum en á almennum tolli á viðkomandi vöru frá ESB.

Meðalverð 2014 kr./kg Meðalverð 2015 kr./kg Meðalverð 2016 kr./kg Hækkun 2015-2016 í %
Naut 460 521 560 7,5
Svín 200 211 255 20,9
Alifuglar 616 618 619 0,2
Þurrkað og reykt kjöt (serrano, parmaskinka o.fl.) 120 158 182 15,2
Ostur (vöruliður 406) 410 443 458 3,4
Ostur (svæðisbundnir) 434 445 474 6,5
Pylsur 142 176 204 15,9
Elduð kjötvara 505 614 725 18,1

 

Alþingi hefur fest útboðsgjaldið í sessi
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessi þróun sýni vel að kerfi útboðs á tollkvótum hafi gengið sér til húðar og vinni gegn hagsmunum neytenda. „Samkeppniseftirlitið hefur árum saman talað gegn þessari aðferð, að bjóða tollkvótana upp, og bent á að hún stuðli að hærra verði og hefti samkeppni. Samkeppnisyfirvöld hafa ítrekað mælt með því að kvótanum yrði úthlutað endurgjaldslaust með hlutkesti. Fyrr á árinu féllu dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem fyrirkomulagið var dæmt ólöglegt og í andstöðu við stjórnarskrá, þar sem ráðherra var í búvörulögum afhent val um hvort hann úthlutaði tollkvóta án endurgjalds eða með útboði og þar með skattlagningu. Viðbrögð meirihluta Alþingis við þeim dómi voru að ganga þvert gegn tilmælum Samkeppniseftirlitsins og strika út úr búvörulögunum þann kost að úthluta kvótanum með hlutkesti. Þetta var gert í flýti fyrir þinglok í sumar, án teljandi umræðu og án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila. Þannig var útboðsgjaldið fest í sessi og neytendur bera áfram skaðann af því, eins og þessar tölur sýna.“

Ólafur segir að þegar nýtt samkomulag við Evrópusambandið taki gildi, vonandi í ársbyrjun 2017, muni tollkvótarnir stækka margfalt. „Það mun vonandi fara langt með að mæta eftirspurn eftir innflutningi á þessum vörum, að minnsta kosti um einhvern tíma, en eftir stendur þetta útboðskerfi sem augljóslega vinnur gegn tilgangi samkomulagsins við ESB og hagsmunum neytenda. Þetta kerfi þarf sárlega endurskoðunar við.“

Mál innflutningsfyrirtækja gegn ríkinu vegna útboðsgjaldsins verða tekin fyrir í Hæstarétti 8. janúar næstkomandi. „Í raun má segja að íslenska ríkið hafi nú þegar, með þessari lagabreytingu, fallist á ólögmæti þess fyrirkomulags sem var til staðar,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður sem flytur málin. „Eftir stendur að svara þeirri spurningu hvort umbjóðendur mínir eigi rétt á að þeim sé skilað því sem var tekið af þeim með ólögmætum hætti.“

Tilkynning atvinnuvegaráðuneytisins um úthlutun ESB-tollkvóta fyrir árið 2016

Ýtarleg umfjöllun um vankanta útboðs á tollkvótum er í skýrslu FA um matartolla

Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni

Viðtal við Ólaf Stephensen í tíufréttum RÚV

Deila
Tísta
Deila
Senda