Er ríkið í stuði? Upptaka og myndir

14.02.2024

Opinn fundur FA um samkeppni í orkuskiptum, „Er ríkið í stuði?“ var fjölsóttur og fékk ágæta athygli fjölmiðla. Þar kynnti Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellecon, nýja skýrslu fyrirtækisins um raforkumarkaðinn. Talsmenn einkarekinna fyrirtækja sem selja raforku í smásölu og reka hleðslustöðvar gagnrýndu harðlega sókn opinberu fyrirtækjanna Orku náttúrunnar, Orkusölunnar og Orkubús Vestfjarða inn á hleðslumarkaðinn.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.

Ætti að vera ríkisolíufélag?
Guðrún Ragna Garðarsdóttir, formaður FA og framkvæmdastjóri Atlantsorku, sagði fyrirtæki í opinberri eigu veita einkafyrirtækjum harða samkeppni á raforkumarkaði, bæði hvað varðaði sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja en líka á hinum nýja markaði hleðslu og þjónustu við rafbílaeigendur. „Lítil umræða hefur verið um hvort það sé yfirleitt eðlilegt að svo sé,“ sagði Guðrún. „Hver er munurinn á að þjónusta rafmagnsbíl eða bensín- eða dísilbíl? Hver er munurinn á að selja orkugjafann rafmagn eða orkugjafann bensín og dísil? Frá mínum bæjardyrum séð er munurinn enginn. Með smá einföldun má segja að kjarnastarfsemin sé sú sama, að koma farartækjum frá A til B. Eini munurinn er að orkugjafinn er ólíkur og salan getur farið fram á heimili sem og á hleðslustöð utan heimilis í tilfelli raforkunnar.“

Guðrún sagði að mörgum þætti eflaust skjóta skökku við ef á olíumarkaði starfaði félag í fullri eigu ríkisins. Sama ætti við um þjónustu við rafbílaeigendur. „Af hverju ættu fyrirtæki í eigu hins opinbera að þjónusta bíleigendur yfirleitt þegar einkafyrirtæki á samkeppnismarkaði eru fullfær um að leysa það verkefni, burtséð frá því fyrir hvaða orkugjafa bíllinn gengur, eins og sést á þeim fjölda fyrirtækja sem gefa sig út fyrir að þjónusta rafbílaeigendur með einum eða öðrum hætti.“

Forsíða Viðskiptablaðsins í dag, þar sem fjallað er um fund FA og rætt við Þórdísi Lind.

Halda ótrauð áfram í óheiðarlegri samkeppni
Þórdís Lind Leiva, forstöðumaður orkusviðs N1, benti meðal annars á undirverðlagningu opinberu fyrirtækjanna og harða markaðssókn, þar sem neytendum væru gerð tilboð sem einkafyrirtækin gætu ekki keppt við. Opinberu fyrirtækin hefðu forskot, sem fælist í því að þau hefðu erft viðskiptamannahóp frá tímum einokunar. Eðlilega væri keppt um neytendur eftir að samkeppni væri komið á, en þessi félög teldu sig oft ekki þurfa að lúta samkeppnislögum. „Það virðist vera að þessi fyrirtæki í eigu hins opinbera láti ekkert stöðva sig og haldi ótrauð áfram í óheiðarlegri samkeppni,“ sagði Þórdís.

Orkustofnun ekki búin að leysa mál eftir 26 mánuði
Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri Ísorku gagnrýndi einnig opinberar stofnanir, sérstaklega Orkustofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, innviðaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fyrir lélegt eftirlit, litla leiðbeiningu og ófullkomna umgjörð um þennan nýja markað. Hann benti til dæmis á að Orkustofnun hefði dregið í 26 mánuði að leysa úr kvörtunum fyrirtækisins, þrátt fyrir ítrekaðan eftirrekstur umboðsmanns Alþingis. Þá sæti umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið á málum misserum saman.

Þarf að skilgreina reglurnar á markaðnum betur
Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra orkumála, viðurkenndi að margt mætti betur fara í eftirliti og umgjörð þessa markaðar. Hann sagðist gjarnan vilja ræða stöðuna á markaðnum og fagnaði þeirri gagnrýni sem fram kom á fundinum. Hann sagði að samkeppnismarkaði með raforku hefði verið komið á, en eftir væri að skilgreina reglurnar betur. Starfshópur á vegum ráðuneytis hans væri meðal annars að skoða lóðrétt eignarhald sömu fyrirtækja á mörgum þáttum virðiskeðjunnar á orkumarkaðnum. „Það á ekki að vera þannig að þú sért með framleiðsluna, dreifinguna og söluna á sömu hendi, jafnvel þótt það séu dótturfyrirtæki,“ sagði Guðlaugur. „Þegar kemur að samkeppni eiga ríkið og sveitarfélög að halda sér frá henni.“ Guðlaugur sagðist vona að starfshópurinn myndi draga upp þessar línur.

Sigurjón Ragnar tók myndirnar hér að neðan á fundinum og í móttöku sem haldin var að fundi loknum..

Nýjar fréttir

Innskráning