Opinber fyrirtæki fyrirferðarmikil á hraðhleðslumarkaðnum – skapar hættu á misnotkun aðstöðu

13.02.2024

Fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga eru fyrirferðarmikil á hinum nýja markaði fyrir hraðhleðslu rafmagnsbíla og veita einkafyrirtækjum harða samkeppni. Ætla má að rúmlega fjórðungur hraðhleðslustöðva sé í eigu opinberra fyrirtækja, en erfitt er að leggja nákvæmt mat á markaðshlutdeild. Þetta er á meðal niðurstaðna skýrslunnar „Er ríkið í stuði?“, sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon hefur unnið fyrir Félag atvinnurekenda um raforkumarkaðinn og samkeppni í orkuskiptum. Skýrslan verður kynnt á opnum fundi FA í dag.

Í skýrslunni kemur fram að af þeim fimm fyrirtækjum sem starfi á þremur samkeppnismörkuðum virðiskeðjunnar á rafmorkumarkaði, þ.e. í heildsölu og smásölu raforku og rekstri hraðhleðslustöðva, séu þrjú í opinberri eigu, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Þetta eru Orka náttúrunnar, Orkusalan (sem er 100% í eigu Rarik) og Orkubú Vestfjarða. Einkafyrirtækin eru HS orka og N1 rafmagn.

Meira en fjórðungur hleðslustöðva í eigu hins opinbera
Ekki er hlaupið að því að afla gagna um markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja á hraðhleðslumarkaði en talning á hleðslustöðvum leiðir í ljós að Orka náttúrunnar hefur langflestar og opinber fyrirtæki reka rúmlega fjórðung allra hraðhleðslustöðva á landinu. Skýrsluhöfundar segja slíkt tæpast geta talist heppilegt, sérstaklega í ljósi þess hve opinberir aðilar hafi mikið að segja um rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu fyrirtækja á þessum markaði.

Fjöldi hraðhleðslutengja eftir fyrirtækjum.

„Þátttaka opinberra fyrirtækja í samkeppnisrekstri eftir allri virðiskeðjunni skapar hættu á misnotkun aðstöðu,“ segir í skýrslu Intellecon. „Fyrirtæki sem rekur hleðslustöðvar og hefur einnig á hendi dreifingu raforku á viðkomandi svæði er í lykilaðstöðu þegar kemur að uppbyggingu hraðhleðslustöðva. Það er t.a.m. óheppilegt ef rekstraraðili hraðhleðslustöðvar þarf að sækja um heimtaug til aðila sem hann er á sama tíma í samkeppni við.“

Ætti ríkið að reka bensínstöðvar?
Í skýrslunni er bent á að bæði hvað varðar búnaðinn sjálfar, þ.e. hraðhleðslustöðvarnar, og ýmiss konar þjónustu, séu einkafyrirtæki í samkeppni við fyrirtæki í opinberri eigu. „Fáir myndu mæla fyrir því að hið opinbera færi að reka bensínstöðvar í dag. Sennilega kæmi það einnig fólki spánskt fyrir sjónir að veitufyrirtæki í eigu hins opinbera seldi fólki elda- eða þvottavélar og uppsetningu þeirra,“ segir í skýrslunni.

Í helstu niðurstöðum segir m.a.: „Einkaaðilar leika lykilhlutverk í að finna og útfæra lausnir í heilbrigðri samkeppni á markaði. Í samkeppni einkaaðila og hins opinbera hallar alla jafna á þá fyrrnefndu. Skýr merki eru um að fyrirtæki sem eru að fullu í eigu opinberra aðila séu í samkeppni við einkafyrirtæki á mörkuðum, þar með töldum hinum nýja markaði fyrir rafhleðslu bíla, þótt veigalítil rök séu fyrir slíku.“

Skýrsla Intellecon: Er ríkið í stuði?

Nýjar fréttir

Innskráning