Er verðmæti fólgið í vinnslu fisks eða erum við bara veiðimenn?

23.01.2018

Grein Arnars Atlasonar, formanns Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Fréttablaðinu 23. janúar 2018.

Tölur ársins 2017 byggja á tölum fyrir fyrstu 9 mánuðina en aukning útflutnings fyrstu 9 mánuðina er um 10%

Samkeppnisstaða íslenskrar fiskvinnslu, einkum og sér í lagi  fiskvinnslu fyrirtækja án útgerðar, er að mörgu leyti erfið. Súluritin sem fylgja þessari grein sýna í hnotskurn hráefnisvanda vinnslunnar; á árunum 2001 til 2016 fer hlutfall  afla sem fer á innlenda fiskmarkaði úr 20% í 15%. Neðri myndin sýnir svo útflutning óunnins afla en eftir viðvarandi samdrátt í útflutningi hans allt til ársins 2012 virðist mikil aukning aftur vera í farvatninu.

Hækkanir á launakostnaði

Það eru margar ástæður fyrir því að fiskvinnslan á í erfiðri glímu við erlenda samkeppni. Gengissveiflur eru ein þeirra, en við hagstjórnina hefur reynst erfitt að ná tökum á þróun krónunnar. Aðrar stærðir eru viðráðanlegri og þróast með ákvörðunum innlendra aðila. Tökum nokkur dæmi.

Tryggingagjaldið var í upphafi aldarinnar 5,23% af greiddum launum. Það fór hæst í 8,65% árið 2010 en stendur nú í 6,85% og hefur ekki verið lækkað til samræmis við hlutfallið sem gilti fyrir hrun, þrátt fyrir ítrekuð loforð stjórnmálamanna.

Kjarasamningar undanfarin misseri, hafa jafnframt snúist um greiðslur í lífeyrissjóði og skattfríðindi vegna þeirra. Séreignarsjóðir ýta til að mynda undir aukinn sparnað á sama tíma og þeir draga úr ráðstöfunartekjum einstaklinga.

Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð var í upphafi aldarinnar 6% af launum en verður á þessu ári 10,5%.

Á sama tíma hefur tekjuskattsbyrði launa við neðri fjórðungsmörk hækkað úr um 20% í 25%, samkvæmt nýrri skýrslu Alþýðusambandsins um þróun skattbyrði. Vinnuveitandinn þarf sem því nemur að greiða fleiri krónur í launaumslagið til að tryggja starfsmönnum sínum sömu ráðstöfunartekjur.

Arnar Atlason

Frá árinu 2001 hafa hlutfallstengd gjöld og frádrættir launþega og launagreiðenda hækkað úr liðlega 50% í 65%. Þetta útskýrist betur ef horft er til þess að í upphafi tímans þurfti 2,2 kr í launakostnað til að koma 1 kr í vasa starfsmannsins en ef þetta hlutfall hækkar í 67% mun þurfa 3 kr. Tekið skal fram að hér er horft fram hjá persónuafslætti.

Síðast en ekki síst hafa verið gerðir kjarasamningar, sem kveða á um 32% hækkun launakostnaðar að meðaltali á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018, að teknu tilliti til breytinga á lífeyrisiðgjöldum, á samningstímanum. Þetta eru langtum meiri launahækkanir en fyrirtæki í samkeppnislöndum okkar hafa þurft að bera. Hið opinbera leiddi í raun þessa launaþróun með samningum sínum við opinbera starfsmenn.

Samkeppnishindranir innanlands
Ofangreindar breytingar eiga við um öll fyrirtæki í landinu. Í tilviki sjálfstæðra fiskvinnslufyrirtækja bætist við skökk samkeppnisstaða á innanlandsmarkaði. Samkeppniseftirlitið gaf árið 2012 út álit, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ýmsar samkeppnishömlur hlytust af lóðréttri samþættingu útgerðar og fiskvinnslu. Vegna hennar hallaði á samkeppnisstöðu fiskvinnslufyrirtækja án útgerðar og útgerðarfyrirtækja án fiskvinnslu.

Samkeppniseftirlitið lagði í fyrsta lagi til að beitt yrði milliverðlagningarreglum í innri viðskiptum samþættra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja til að taka á því að vinnsluhlutinn fær iðulega aflann á mun lægra verði en gildir á fiskmörkuðum. Þetta er ein meginástæða þess að framboð á afla er ónógt á fiskmörkuðum. Jafnframt var lagt til að álagningu hafnargjalda yrði breytt. Í þriðja lagi lagði Samkeppniseftirlitið til að fyrirkomulagi Verðlagsstofu skiptaverðs yrði breytt þannig að útgerðarmenn kæmu ekki beint að ákvörðunum hennar um verð. Loks lagði Samkeppniseftirlitið til að auka heimildir til kvótaframsals og heimila aðilum sem ekki ættu fiskiskip að kaupa, leigja og selja aflaheimildir.

Ólafur Stephensen

Í stuttu máli hafa þeir fimm sjávarútvegsráðherrar, sem síðan hafa setið, ekkert aðhafst til að hrinda tillögum Samkeppniseftirlitsins í framkvæmd. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa ítrekað heitið að beita sér fyrir því að meiri afli fari um fiskmarkaðina, án þess að nokkuð hafi orðið um efndir.

Aðrar þjóðir, til að mynda Bretar, leggja upp úr því að fá íslenskan fisk til vinnslu. Þær þúsundir tonna sem þangað fara segja þeir að skapi þúsundir starfa og verðmæti sem eru talin í milljörðum. Hvert erum við komin þegar við erum tilbúin að láta slíkt frá okkur?

Nýjar fréttir

Innskráning