Eru afurðastöðvar ekki keppinautar kjötinnflytjenda?

29.11.2024

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 29. nóvember 2024

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL), skrifaði grein í Morgunblaðið í gær um nýlegan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem breyting á búvörulögum síðastliðið vor var dæmd andstæð stjórnarskránni og ógild. Breytingin veitti kjötafurðastöðvum, félagsmönnum Margrétar, víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum.

Það væri hægt að segja margt um málflutning framkvæmdastjóra SAFL, en ég staldaði sérstaklega við eitt atriði. Margrét vísar til þess sem bent var á í áðurnefndu máli sem Innnes ehf. höfðaði, að fyrirtækið væri í beinni samkeppni við afurðastöðvar, sem að mati Innness gætu nýtt sér undanþáguna þegar kæmi að því að bjóða í tollkvóta fyrir kjötvörur. „Hér má benda á að ekkert í lagatexta frumvarpsins eða lögskýringargögnum bendir til þess að undanþágan eigi við um innflutning erlendra kjötvara eða kaup á tollkvótum vegna innflutnings. Þannig er með engum rökum hægt að halda að því fram að undanþágan taki til samstarfs vegna innflutnings á kjötvörum og útboðs á tollkvótum og að Innnes ehf. og framleiðendafélög séu samkeppnisaðilar í skilningi hinnar nýju undanþágu,“ skrifar Margrét.

Með meirihluta tollfrjáls innflutnings frá ESB
Það er auðvitað hlægilegt að halda því fram að kjötafurðastöðvarnar séu ekki keppinautar verzlunarfyrirtækja, sem flytja inn kjöt. Þær eru sjálfar umsvifamiklir innflytjendur kjötvara og keyptu á árunum 2022-2024 samtals 52% tollkvótans fyrir nautgripa-, svína- og alifuglakjöt, sem flutt er inn frá Evrópusambandinu. Þær keppa á sama markaði og innflutningsfyrirtækin, um sömu viðskiptavinina. Hvað lagatextann og lögskýringargögnin varðar, eru þau engan veginn skýr að þessu leyti, enda kemur ekkert þar fram um að hin víðtæka samkeppnisundanþága nái ekki til kjötinnflutnings afurðastöðvanna.

Misskilur ráðuneytið lögin?
Lögfræðingar atvinnuvegaráðuneytisins komust að eftirfarandi niðurstöðu, í erindi til atvinnuveganefndar Alþingis: „Þess skal getið í samþykktum félags að tilgangur þess sé að starfa sem framleiðendafélag. Ekki er kveðið á um frekari skilyrði í lögunum. Með vísan til framangreinds geta fyrirtæki sem starfa á þessum markaði í dag, sem stunda fjölbreytta starfsemi, til dæmis við innflutning landbúnaðarafurða og jafnvel rekstur sem ekki fellur undir landbúnað, þannig fallið undir undanþáguna að mati ráðuneytisins. Þá er ekki kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað framleiðendafélaga frá annarri starfsemi.“ (Leturbreyting greinarhöfundar)

Þessi ólíki skilningur framkvæmdastjóra SAFL og matvælaráðuneytisins er alveg ágætt dæmi um að sá nýi lagatexti sem nefndarmenn í meirihluta atvinnuveganefndar sömdu, með aðstoð lögmanna SAFL, er lélegur og hefði þarfnast langtum meiri yfirlegu og skoðunar. Að undanförnu hefur komið í ljós að áhrif laganna hafa jafnvel komið flutningsmanni breytinganna, formanni atvinnuveganefndarinnar, allsendis á óvart. Lagasetningin var einfaldlega hroðvirknislega unnin og illa undirbúin, meðal annars af því að hún fékk ekki þá meðferð á Alþingi sem stjórnarskráin kveður á um.

Alþingi þarf að vanda til verka
Grein Margrétar fjallar um hvort áfrýja eigi dómi Héraðsdóms. Hvort sem honum verður áfrýjað eða ekki, blasir við að fleiri dómsmál verða höfðuð vegna laganna, sem Margréti er svo annt um að standi óhögguð. Því var einmitt komið á framfæri við nefndarmenn í meirihluta atvinnuveganefndar að líklegt væri að ef málið yrði keyrt í gegnum þingið svona illa undirbúið, yrði niðurstaðan áralöng málaferli, sem gæti ekki verið góð staða fyrir starfsumhverfi landbúnaðarins og tengdra greina. Ekkert var hlustað á þær viðvaranir.

Hin rökrétta niðurstaða af dómi Héraðsdóms og þeim margvíslegu upplýsingum, sem fram hafa komið að undanförnu um óvönduð vinnubrögð Alþingis í málinu, er að nýtt þing ýti til hliðar þeim lélega texta sem lögmenn SAFL hjálpuðu þingmönnum að semja og Alþingi vandi til verka, sé á annað borð talin þörf á lagabreytingum til að greiða fyrir hagræðingu í sláturiðnaði.  

Á myndinni má sjá innflutt beikon, undir vörumerkjum íslenskra afurðastöðva.

Nýjar fréttir

Innskráning