FA fagnar umbótum í innkaupum Landspítalans

03.11.2016

LandspitaliFélag atvinnurekenda fagnar yfirlýsingu Landspítalans um umbætur í innkaupum spítalans, sem gerð var opinber í dag með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2016. Spítalinn gaf yfirlýsinguna út einhliða vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins (SE)  á innkaupum hans, en niðurstaða SE varð, meðal annars með hliðsjón af yfirlýsingunni, að ekki væru forsendur til að aðhafast frekar gagnvart spítalanum.

Rannsókn SE hófst vegna kvartana Logalands ehf. yfir innkaupaháttum Landspítalans. Í málinu komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að gera mætti ýmsar athugasemdir við þá innkaupahætti.

Samkeppnisréttaráætlun í gagnið í mars
Í yfirlýsingu sinni skuldbindur spítalinn sig meðal annars til að gera eftirfarandi breytingar:

  • Innleidd verður samkeppnisréttaráætlun fyrir spítalann. Tryggt verður að allir stjórnendur og starfsmenn sem hafa innkaupaheimildir verði að fullu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnisreglur gera til starfsemi Landspítala í innkaupum á heilbrigðisvörum.
  • Tryggt verður að viðkvæmar upplýsingar sem spítalinn býr yfir um birgja, tilboð þeirra eða viðskiptaskilmála, berist ekki til annarra birgja eða keppinauta fyrir tilstuðlan spítalans. Hnykkt verður á þessu í nýrri gæðahandbók innkaupa spítalans.
  • Landspítalinn mun beita verðfyrirspurnum með reglulegum hætti vegna innkaupa sem er undir viðmiðunarfjárhæðum laga um opinber innkaup. Leitast skal við að senda verðfyrirspurnir til allra þekktra birgja sem bjóða viðkomandi vöru og/eða þær verða birtar í opinni gátt á vef spítalans.
  • Við innkaup á heilbrigðisvörum, tækjum og búnaði fyrir gjafafé skal eftir fremsta megni reynt að fylgja sambærilegum ferlum og við önnur innkaup, með það að markmiði að ná sem hagkvæmustum innkaupum. Þannig skal almennt beita verðfyrirspurnum í innkaupum á slíkum vörum.
  • Svokallaðar huglægar kröfur í útboðum (sem varða matskennda þætti) hafa verið gerðar hlutlægar eins nákvæmlega og unnt er. Landspítalinn lýsir sig meðvitaðan um þá hættu sem felist í vörumerkjatryggð fyrir samkeppni á markaði og jafnræði bjóðenda.
  • Spítalinn mun innleiða nýjar innkaupareglur og draga þær saman í sérstaka gæðahandbók innkaupa. Hún verður aðgengileg öllum hagsmunaaðilum.
  • Yfirlýsingin er dagsett 9. júní síðastliðinn. Ætlunin er að samkeppnisréttaráætlun og verkferlar henni tengdir verði komin í gagnið innan níu mánaða frá undirritun hennar (9. mars 2017) en aðrar aðgerðir innan tólf mánaða.

IMG_3328Stórt skref í rétta átt
„Við fögnum þeim umbótavilja sem kemur fram í þessari yfirlýsingu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Landspítalinn hefur verið að bæta innkaupahætti sína á undanförnum misserum og árum en hefur engu að síður verið það opinbera fyrirtæki, sem hefur oftast verið kært til kærunefndar útboðsmála, samkvæmt samantekt FA. Aðildarfyrirtæki FA hafa rekið sig á mörg þeirra atriða sem Samkeppniseftirlitið bendir á, meðal annars óljósa útboðsskilmála, að gjafafé sé ráðstafað til að kaupa tæki frá fyrirframákveðnum framleiðendum í stað þess að leitast sé við að ná sem hagkvæmustum innkaupum og svo mætti áfram telja. Með þessum breytingum er stigið stórt skref í rétta átt.

Við tökum undir það með Samkeppniseftirlitinu að vegna stærðar Landspítalans getur hann með innkaupaháttum sínum haft veruleg áhrif á samkeppni á markaði fyrir lyf og heilbrigðisvörur. Heilbrigðir innkaupahættir spítalans stuðla sömuleiðis að því að spara skattgreiðendum verulega fjármuni.“

Sjálfstæð kæruheimild samtaka fyrirtækja mikilvæg
Ólafur vekur athygli á að í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftir að Logaland kærði útboð á vegum Landspítalans missti fyrirtækið viðkomandi viðskipti. „Þetta er í samræmi við það sem við hjá FA höfum áður vakið athygli á; að fyrirtækjum er oft refsað fyrir að kæra opinber útboð og afleiðingin er sú að þau veigra sér oft við því. Þess vegna er líka mikilvægt að inn í lögin um opinber útboð kom í haust nýtt ákvæði, að frumkvæði FA, um að samtök fyrirtækja geti kært opinber útboð en fyrirtækin þurfi ekki að gera það í eigin nafni. FA mun beita þessari heimild í þágu sinna félagsmanna, því að enn er víða pottur brotinn í opinberum innkaupum.“

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Yfirlýsing Landspítalans

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning