FA gagnrýnir harðlega áform um nýja lagasetningu um nikótínvörur

07.07.2025

Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega áform Ölmu Möller heilbrigðisráðherra um nýja lagasetningu um tóbaks- og nikótínvörur. Félagið bendir á að í áformunum felist illa rökstutt inngrip í atvinnufrelsi og eignarréttindi fyrirtækja og forsjárhyggja um það hvaða vörur fyrirtæki megi selja og neytendur nota. FA telur nær að tryggja skilvirkt eftirlit með að núverandi lagaákvæðum sé framfylgt, um að börnum og unglingum séu ekki seldar eða afhentar nikótínvörur.

Ráðherra hefur m.a. áform um að fella tóbak og aðrar nikótínvörur undir eina og sömu löggjöfina. Færa á hömlur á sölu nikótínvara (t.d. rafrettna og nikótínpúða) undir sömu ströngu hömlur og tóbak, þannig að vörurnar verði t.d. settar í einsleitar umbúðir í „ljótasta lit í heimi“. Þá verði bannað að selja nikótínvörur í netsölu. Banna á bragðefni í nikótínvörum sem „höfði til barna“.

FA gagnrýnir eindregið að ekki sé í áformunum að finna neinn rökstuðning fyrir því inngripi í atvinnufrelsi og eignarrétt, sem í þeim felast. „Mikilvægt er að ráðuneytið skoði málið rækilega út frá réttindum og hagsmunum allra hlutaðeigandi aðila. Svo umfangsmikið inngrip í atvinnufrelsi og friðhelgi eignarréttarins hlýtur að eiga að fá rækilega umfjöllun í áformunum sem og í greinargerð með því frumvarpi sem boðað er. Núverandi rökstuðningur er á engan hátt fullnægjandi og eiginlega verri en enginn,“ segir í umsögn FA.

Verða bragðefni í áfengi bönnuð?
Í áformaskjalinu kemur fram að fyrirhugaðar lagabreytingar miði að því að draga úr notkun barna og ungmenna á vörunum sem um ræðir. Í áformaskjalinu kemur fram að „…[í] frumvarpinu verður lagt til að settar verði takmarkanir á sölu nikótínvara sem innihalda bragðefni sem höfða til barna…“ FA þykir óljóst hvaða vörur eiga hér undir. Hvaða bragðefni höfða til barna, fremur en fullorðinna, er einstaklingsbundið og afar matskennt, að því er fram kemur í umsögn félagsins. „Í ýmsum öðrum vöruflokkum hefur ekki þótt ástæða til að setja á bragðefnabann þótt ástæða sé til að takmarka neyslu barna á viðkomandi vörum; þannig eru seldir áfengir drykkir með margs konar ávaxta- og sælgætisbragði, en ákvæði um aldursmörk, upplýsing og forvarnastarf hafa þótt duga til að halda börnum frá neyslu þeirra.“

Í áformaskjalinu kemur fram að lagt verði til að söluaðilum verði skylt að biðja um skilríki sem sanni aldur kaupenda. Slíkt ákvæði er þegar í lögum og er ófrávíkjanleg vinnuregla hjá félagsmönnum FA að biðja um skilríki við sölu nikótínvara, leiki vafi á aldri viðskiptavinar.  Fram kemur að einnig skuli skerpt á ákvæðum um viðurlög. „FA telur mun skynsamlegri og skilvirkari leið til að vinna gegn notkun barna og ungmenna á nikótínvörum að hafa skilvirkt eftirlit með því að núgildandi lagaákvæði séu virt, fremur en að hafa vit fyrir fullorðnu og sjálfráða fólki um það hvaða vörur það kaupir […]. FA telur eðlilegt herða viðurlög gagnvart söluaðilum sem ekki virða þá lagaskyldu að biðja um skilríki eða selja börnum og ungmennum vörurnar vísvitandi,“ segir í umsögn félagsins.

Ekki hugsað út í áhrifin
Félagið bendir á að hin áformaða lagasetning geti haft ýmsar afleiðingar sem ráðuneytið virðist ekki hafa hugsað út í. Áhrif á lýðheilsu gætu orðið neikvæð, ef niðurstaðan verður sú að t.d. bragðefnabann leiði til þess að fólk sem hefur notað nikótínvörur til að hætta tóbaksnotkun, snúi aftur í tóbakið. Verði rekstrargrundvelli kippt undan sérverslunum með nikótínvörur, geti afleiðingin orðið sú að vörurnar verði fremur til sölu í almennum verslunum, þar sem ekki er hugað jafnvel að sýnileikabanni og aldursmörkum viðskiptavina og í sérverslunum. Einsleitar umbúðir muni gera torveldara fyrir neytendur að gera greinarmun á styrkleika nikótínsins í vörunum, sem eykur áhættuna á því að neytendur kaupi ranga vöru og fái vöru með hærri nikótínstyrk en ætlunin var að kaupa. Bann við netverslun auki líkur á að skipt verði við erlendar netverslanir, neytendur kaupi nikótínvörur erlendis og eigi viðskipti með vörurnar sín á milli, líkt og tíðkaðist með bjór áður en neysla hans var leyfð á Íslandi.

Önnur úrræði en ný lagasetning
FA bendir á að eftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með núgildandi löggjöf hafi verið ónógt og nauðsynlegt sé að efla það. Ábyrgum verslunareigendum og innflytjendum á nikótínvörum sé mikið í mun að eftirlit með markaðnum verði eflt og hafi félagsmenn margoft leitað til FA með athugasemdir og erindi á þá leið.

Þá vekur FA athygli á því að engar mælingar á nikótínneyslu hafi verið gerðar opinberar síðan skattar á nikótínvörur voru stórhækkaðir um síðastliðin áramót. Því sé enn óvitað hvort þessar breytingar hafi haft í för með sér breytt neyslumynstur.

„FA gerir því alvarlegar athugasemdir við þær staðhæfingar ráðuneytisins að önnur úrræði séu ekki til staðar og að ekki hafi tekist að draga úr notkun nikótínvara. Í fyrsta lagi vantar HMS viðeigandi fjármuni til að geta sinnt eftirliti með þessum markaði og í öðru lagi hafa þær breytingar sem tóku gildi um áramótin ekki verið rannsakaðar til hlítar. Það er því óskiljanlegt að ráðuneytið haldi því fram að ekki komi önnur úrræði til skoðunar. Með þessu er ráðuneytið að snúa blinda auganu að öðrum úrræðum en einungis nýrri lagasetningu,“ segir FA.

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning