FA hvetur þingið til að festa í sessi tvískiptingu gjalddaga aðflutningsgjalda

15.12.2016

Gamar minniRíkistollstjóri hefur tilkynnt að bráðabirgðalagaákvæði um tvískiptingu gjalddaga aðflutningsgjalda í tolli falli niður um áramótin. Félag atvinnurekenda hefur hins vegar hvatt Alþingi til að gera nú varanlegt þetta lagaákvæði, sem hefur verið endurnýjað margoft til skamms tíma í senn á undanförnum árum.

Í tilkynningu tollstjóra segir: „Á árinu 2016 hafa verið í gildi tímabundið lengri greiðslufrestir (fleiri gjalddagar) á aðflutningsgjöldum, sbr. ákvæði til bráðabirgða nr. XIV við Tollalög nr. 88/2005.  Þær reglur falla úr gildi þann 31. desember 2016. Frá og með 1. janúar 2017 taka fyrri reglur um uppgjörstímabil og gjalddaga aðflutningsgjalda gildi.“

Síðast þegar bráðabirgðaákvæðið var endurnýjað, var það að frumkvæði Félags atvinnurekenda. Félagið hefur nú sent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis umsögn sína um bandorminn svokallaða, frumvarp um ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna fjárlaga ársins 2017. Þar hvetur FA þingið til að gera þetta lagaákvæði nú varanlegt, enda sé það gagnkvæmur hagur fyrirtækja og ríkissjóðs. Bandormurinn verður væntanlega að lögum fyrir áramót.

Mikið hagræði fyrir smærri fyrirtæki
Stjórnvöld hafa til þessa ekki viljað festa lagaákvæðið í sessi vegna þess að ekki er lokið heildarendurskoðun virðisaukaskattkerfisins, meðal annars hvað varðar gjaldfresti. FA bendir í umsögn sinni á að sú endurskoðun hafi dregist úr hömlu og ótækt sé að láta þetta mál stranda á því að ekki takist að ljúka henni.

Í umsögn FA til efnahags- og viðskiptanefndar segir um stöðu málsins:

  • Mörg smærri fyrirtæki eru enn í erfiðleikum gagnvart erlendum birgjum. Sveigjanleiki í greiðslu aðflutningsgjalda er jafnframt til hagræðis fyrir smærri fyrirtæki sem eiga ekki annars kost en að veita stórum viðskiptavinum rúma gjaldfresti.
  • Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins telur ekki að heimildin til að skipta greiðslum hafi áhrif á tekjur eða kostnað ríkissjóðs og álítur ennfremur að skil gjalda batni jafnvel með þessu fyrirkomulagi.
  • Enn er heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins ólokið, m.a. með tilliti til fyrirkomulags gjalddaga og gjaldfresta.

FA leggur til að heimildin til tvískiptingar gjalddaga verði nú fest endanlega í sessi með því að bæta ákvæðum þar um inn í frumvarp það sem hér er til umfjöllunar. Vandséð er, í ljósi ofangreinds, hvaða rök standa til þess að heimildin skuli renna sitt skeið í lok þessa árs.“

Umsögn FA um bandorminn

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning