Félag atvinnurekenda fagnar drögum að frumvarpi Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um að afnema lagaskyldu til jafnlaunavottunar og létta á skyldum fyrirtækja til að skila skýrslum um kynbundinn launamun. Félagið vill þó ganga lengra og leggur til, í umsögn í samráðsgátt stjórnvalda, að skylda til að skila inn upplýsingum nái eingöngu til fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri, til samræmis við launagegnsæistilskipun Evrópusambandsins, sem gera má ráð fyrir að verði innleidd í íslensk lög. Annað væri gullhúðun á Evrópureglum, sem stjórnvöld hafa lýst yfir að eigi að heyra sögunni til.
Skýrslur í stað jafnlaunavottunar og stærðarmörk hækkuð
Í frumvarpsdrögunum er horfið frá skyldu fyrirtækja til að innleiða jafnlaunakerfi sem standast kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og þess í stað sett á skylda til að skila til Jafnréttisstofu gögnum um starfaflokkun og launagreiningu, ásamt tímasettri áætlun um úrbætur, ef þörf er á. Samkvæmt drögunum má jafna þessari skýrslugjöf til jafnlaunastaðfestingar, sem samkvæmt núverandi löggjöf stendur fyrirtækjum með 25-50 starfsmenn til boða. Jafnframt er lagt til að stærðarmörk breytist og skyldan til skýrsluskila miðist við fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri, í stað þess að miða við 25 starfsmenn eins og í núverandi löggjöf.
FA fagnar frumvarpsdrögunum, enda hefur félagið verið í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa núverandi löggjöf og talið jafnlaunavottunina alltof íþyngjandi, tímafreka og kostnaðarsama fyrir minni og meðalstór fyrirtæki, án þess að rannsóknir hafi sýnt fram á bein tengsl jafnlaunavottunar og samdráttar í kynbundnum launamun.
Launagegnsæistilskipunin gullhúðuð
Launagegnsæistilskipun ESB verður væntanlega tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi. Hún kveður m.a. á um skyldu fyrirtækja og stofnana með meira en 100 starfsmenn til að skila stjórnvöldum upplýsingum um kynbundinn launamun. FA ítrekar að með því að setja viðmiðið um skyldu til skýrsluskila lægra en í tilskipuninni, þ.e. við fyrirtæki og stofnanir með 50 starfsmenn og fleiri, í stað þess að miða við 100 starfsmenn, sé verið að „gullhúða“ tilskipunina. „Með því er sköpuð sú hætta að íslenzk fyrirtæki búi að þessu leyti við strangari kröfur og meira íþyngjandi regluverk en fyrirtæki af sömu stærð í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Slík gullhúðun skerðir samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs,“ segir í umsögn FA.
Félagið rifjar upp að í skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sem vísað er til í greinargerð frumvarpsdraganna, er lögð áhersla á að fjarlægja gullhúðun úr íslensku regluverki. „Meginregla verði að ekki verði gengið lengra en lágmarkskröfur viðkomandi Evrópugerðar kveða á um nema í undantekningartilvikum, t.d. ef það væri í þágu íslenskra hagsmuna og drægi úr reglubyrði atvinnulífsins,“ segir í skýrslu hópsins.
FA leggur því eindregið til að í frumvarpinu verði miðað við 100 starfsmanna markið, í stað 50. Félagið bendir líka á að með því að fara þá leið ætti líka umtalsverður rekstrarkostnaður að sparast hjá ríkinu, þar sem Jafnréttisstofa þyrfti þá færra starfsfólk til að taka við og yfirfara skýrslur um launaupplýsingar. Eins og félagið hefur ítrekað vakið athygli stjórnvalda á (og hagræðingarhópurinn vitnaði sérstaklega til), þýðir þyngra eftirlit með fyrirtækjum líka fleiri ríkisstarfsmenn og dýrari stjórnsýslu.