FA mótmælir inngripi ráðherra í starfsstjórn í atvinnufrelsi og eignarrétt

12.11.2024

Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega nýja reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum. Í reglugerðinni, sem fjallar meðal annars um útlit og viðvörunarmerkingar tóbaksvara, er mælt fyrir um svokallaðar einsleitar umbúðir fyrir tóbak. Það þýðir að engin vörumerki mega vera á umbúðum um tóbak og þær verða allar að vera í litnum matt pantone 448 c, en hann hefur verið kallaður ljótasti litur í heimi.

Í 20. grein reglugerðarinnar segir að allt ytra og innra yfirborð umbúða um tóbaksvörur skuli vera í þessum lit. Heiti tóbaksvöru eða undirtegundar skal vera í litnum hvítt matt eða svart. „Óheimilt er að merkja tóbaksvöru með táknum eða myndum sem hafa m.a. skírskotun í framleiðanda, heiti eða tegund,“ segir þar. Gert er ráð fyrir að þessi ákvæði gangi í gildi í maí 2027.

Gullhúðun og inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi
FA sendi heilbrigðisráðuneytinu umsögn um drög að reglugerðinni í júní síðastliðnum og gagnrýndi þá harðlega að ákvæði sem þessi yrðu sett í reglugerð, í stað þess að Alþingi fjallaði um málið. Í lögum um tóbaksvarnir segir ekkert um einsleitar umbúðir og er því hæpið að mati FA að reglugerðin hafi lagastoð.

Sígarettupakkar í einsleitum umbúðum í litnum matt pantone 448 c.

Í umsögn FA var jafnframt bent á að vörumerki teldust til eignarréttinda. Þá væri reglugerðarákvæðið skýrt inngrip í atvinnufrelsi, en bæði eignar- og atvinnuréttindi njóta verndar stjórnarskrárinnar. „FA fær ekki séð hvernig svo íþyngjandi ákvörðun, sem takmarkar stjórnarskrárvarin réttindi, á heima í reglugerð sem ráðherra setur og mótmælir því eindregið að 20. gr. verði að ákvæði í reglugerð. Svo umfangsmikið inngrip í atvinnufrelsi og friðhelgi eignarréttarins hlýtur að eiga að fá rækilega umfjöllun og umræðu á Alþingi,“ sagði í umsögn FA.

Þar var jafnframt bent á að verið væri að ganga lengra en í Evrópureglum, sem vísað er til í reglugerðinni, og því væri um að ræða svokallaða gullhúðun, þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar.

Stjórnskipulega óverjandi og slæmt fordæmi
„Okkur finnst stjórnskipulega óverjandi að heilbrigðisráðherra grípi inn í stjórnarskrárvarin atvinnu- og eignarréttindi með þessum hætti,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Slík inngrip geta átt rétt á sér út frá almannahagsmunum, en þau verða þá að vera lögfest og fá þá umræðu og skoðun á Alþingi sem slíkt verðskuldar. Það er sérstaklega gagnrýni vert að reglugerð ráðherra skuli undirrituð 25. október síðastliðinn, löngu eftir að ljóst mátti vera að ríkisstjórnin væri orðin starfsstjórn með takmarkað pólitískt umboð.“

Ólafur segir að gagnrýni FA snúi ekki síst að því fordæmi sem sé gefið með reglugerðarákvæðinu. „Tóbak nýtur ekki vinsælda en er engu að síður lögleg vara og framleiðendur hennar og seljendur eiga réttindi, sem verða ekki af þeim tekin. Hvað ef ráðherra dettur næst í hug að setja sjálfur reglugerð um einsleitar umbúðir um gos eða feitt kjöt?“

„Það getur tæplega staðist meðalhófsreglu að setja ákvæði um einsleitar umbúðir vöru, sem nú þegar má ekki vera sýnileg í verslunum, lögum samkvæmt,“ segir Ólafur.

Gildistökuákvæði verði samræmd
Reglugerðin á að taka gildi 1. maí 2025 en ákvæðin um einsleitar umbúðir tveimur árum síðar, þ.e. 1. maí 2027. Leyfilegt verður hins vegar, samkvæmt bráðabirgðaákvæði í reglugerðinni, að flytja inn umbúðir merktar samkvæmt eldri reglugerð til 1. maí 2026 og hafa þær til sölu fram til 1. nóvember 2026. Ólafur bendir á að þetta þýði í raun að á næstu tveimur árum muni framleiðendur þurfa að ráðast tvisvar í mikinn kostnað við breytingu á umbúðum. „Þessi ákvæði virðast ekki hafa verið hugsuð til enda og við höfum farið fram á að heilbrigðisráðuneytið samræmi þau og þá með minna íþyngjandi hætti,“ segir hann.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning