FA skilar inn sparnaðartillögum: Ráðningarstopp í stjórnsýslu og afnám uppsagnarverndar ríkisstarfsmanna

23.01.2025

Félag atvinnurekenda hefur skilað inn tillögum í Samráðsgátt stjórnvalda um sparnað og hagræðingu í rekstri ríkisins, en forsætisráðuneytið óskað eftir slíkum tillögum frá almenningi, fyrirtækjum og hagsmunaaðilum í byrjun mánaðarins.

Á meðal tillagna FA er að sett verði á ráðningarstopp í stjórnsýslunni og lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna breytt, meðal annars til að afnema sérstaka uppsagnarvernd ríkisstarfsmanna. FA bendir á að kannanir á meðal forstöðumanna ríkisstofnana hafi ítrekað sýnt að þeir telji starfsmannalögin standa í vegi fyrir skilvirkni, hagræðingu og bættri þjónustu í opinberum rekstri. „Ef ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að breyta starfsmannalögunum og afnema sérréttindi opinberra starfsmanna verður lítið úr hagræðingaráformum hennar,“ segir í tillögum FA.

Á meðal annarra tillagna FA er að fela Samkeppniseftirlitinu eftirlit með því að farið sé eftir lögunum um opinber innkaup, en ekkert kerfisbundið eftirlit fer í dag fram með því að opinberar stofnanir fari eftir lögunum og bjóði út innkaup á vörum og þjónustu. Þá leggur FA til að einkafyrirtæki sjái í auknum mæli um útboðsþjónustu fyrir ríkisstofnanir.

Spilling í farmiðakaupum verði afnumin
FA leggur sérstaka áherslu á breytta innkaupahætti ríkisins þegar varðar flugferðir fyrir ríkisstarfsmenn og leggur til að ríkisstarfsmenn geti ekki fengið vildarpunkta fyrir ferðir sem farnar eru á kostnað skattgreiðenda. „Slíkt fer þvert á siðareglur fyrir starfsfólk stjórnarráðsins, almennar siðareglur starfsmanna ríkisins, siðareglur alþingismanna og reglur um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Að opinberir starfsmenn þiggi þannig fjárhagslegan ávinning vegna ferða, sem farnar eru á kostnað skattgreiðenda, heitir einfaldlega spilling og á ekki að viðgangast. Eina sennilega skýringin á að þessu fyrirkomulagi hafi ekki löngu verið breytt, er þögul samtrygging stjórnmála- og embættismanna sem vilja ekki missa fríu flugferðirnar sínar. Auk þess liggur í augum uppi að hið opinbera á að leita eftir lægsta verði við innkaup á flugmiðum.“

Dregið úr niðurgreiddum opinberum rekstri
FA leggur til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði lögð niður, samfara endurskoðun á áfengislöggjöfinni. Umfang Ríkisútvarpsins verði minnkað verulega, þannig að hlutur annarra fjölmiðla á auglýsingamarkaði stækki, en um leið verði ríkisstyrkjum til fjölmiðla hætt. Komið verði í veg fyrir undirverðlagningu á þjónustu Íslandspósts, en hún kostar skattgreiðendur hundruð milljóna króna árlega. Þá dragi ríkið úr styrkjum til háskóla um leið og skerpt verði á því að símenntunardeildir þeirra séu ekki í samkeppni við einkarekin fyrirtæki á fræðslumarkaði.

Lyfjaverðsstefnan sparar ekki peninga
FA bendir á að verðstefna ríkisins við innkaup á lyfjum, sem upphaflega átti að spara peninga, hafi snúist upp í andhverfu sína og leiði nú til þess að ný lyf, sem eru bæði með bætta virkni og hagkvæmari í innkaupum en eldri lyf, fáist ekki skráð eða markaðssett á Íslandi. Félagið gagnrýnir einnig „síló“-hugsunarhátt í heilbrigðiskerfinu, þar sem t.d. Landspítalinn kaupir ævinlega ódýrustu lyfin án tillits til þess hver kostnaður t.d. Sjúkratrygginga af notkun þeirra er. Þannig eru dæmi um að sjúkratryggingar þurfi að greiða flug og gistingu fyrir sjúklinga utan af landi vegna þess að spítalinn valdi „ódýrt“ lyf sem ekki er hægt að gefa í heimabyggð.

Léttara regluverk dregur úr kostnaði ríkisins
FA leggur áherzlu á að létta regluverk og einfalda eftirlit með fyrirtækjum. „Mikilvægt er að ríkisstjórnin átti sig á að þyngra regluverk býr ekki eingöngu til kostnað hjá fyrirtækjum og dregur úr samkeppnishæfni Íslands, heldur býr það líka til aukinn kostnað hjá ríkinu og þar með fyrir buddu skattgreiðenda,“ segir í tillögum FA.

Tillögur FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning