FA skorar á ráðherra að laga regluverk lyfja

13.02.2015

LyfjamyndFélag atvinnurekenda hefur í framhaldi af fundi félagsins um reglubyrði atvinnulífsins í síðasta mánuði sent Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra erindi, þar sem ráðherra er hvattur til að beita sér fyrir lagfæringu á margvíslegum annmörkum á regluverki lyfjageirans og framkvæmd þess.

Ólafur Adolfsson, lyfsali í Apóteki Vesturlands, fór á fundinum yfir ýmsa galla á regluverki lyfjageirans.  Löggjöf um málaflokkinn er í grunninn gömul og flókin. Fyrirtæki átta sig oft ekki á því hver er raunveruleg réttarstaða þeirra eða hvaða reglur gilda í rekstri þeirra. Löggjöfin hamlar framförum á sviðinu og veldur sóun.

Eitt af því sem nefnt er í bréfi FA til ráðherra er að framkvæmd afgreiðslu svokallaðra S-merktra lyfja stangast beinilíns á við lög. S-merkingin þýðir að binda megi veitingu markaðsleyfis lyfs við notkun þess á sjúkrahúsum eingöngu. Engu að síður eru S-merkt lyf afgreidd utan sjúkrahúsa, jafnvel í einkareknum lyfjabúðum til notkunar utan sjúkrahúsa, og hefur þessi framkvæmd verið látin átölulaus í fjölda ára.

Þá er nefnd ný og óskiljanleg túlkun Lyfjastofnunar á reglum um ávísun lyfja, en lyfjafræðingum er nú bannað að breyta styrkleika og magni á lyfseðli án samráðs við lækninn sem gefur hann út, sé lyfið sem ávísað var ekki til nákvæmlega í þeim styrkleika sem læknirinn gerði ráð fyrir. Þetta veldur mikilli óskilvirkni og sóun, enda kostar tíma og fyrirhöfn að ná sambandi við lækninn sem gaf út lyfseðilinn. Meðferð sjúklingins er nákvæmlega sú sama, þótt afgreiddar séu t.d. tuttugu 50 mg töflur í stað tíu 100 mg.

FA nefnir einnig að það sé með öllu óljóst hvenær lagabreyting, sem tók gildi um síðustu áramót, um að S-merkt lyf verði felld undir almenna greiðsluþátttökukerfið, komi til framkvæmda. „Lyfjafyrirtæki, hvort heldur eru framleiðendur, birgjar eða lyfsalar, hafa mikla hagsmuni af því að fyrir liggi skýr stefna í þessum efnum og upplýsingar um það hvenær umræddum kerfisbreytingum verði hrint í framkvæmd,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA.

Bréf FA til heilbrigðisráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning