Tilkynningaskylda í stað leyfisveitinga

29.01.2015

306ec44688516e7a Á meðal áforma ríkisins sem miða að því að létta reglubyrði atvinnulífsins er að fækka leyfum sem fyrirtæki þurfa að sækja um til atvinnurekstrar og breyta í tilkynningaskyldu. Þetta var á meðal þess sem fram kom á félagsfundi FA í gærmorgun, undir yfirskriftinni „léttist reglubyrði atvinnulífsins?“

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytisins, sagði að rökstyðja þyrfti sérstaklega að hafa með leyfisveitingum fyrirfram takmörkun á því að opna til dæmis veitingastað, sjoppu eða bílaleigu. Í staðinn ættu fyrirtæki að geta tilkynnt að þau hygðust hefja rekstur og tilteknum skilyrðum hefði verið fullnægt. Í framhaldinu gætu stjórnvöld svo kallað eftir upplýsingum ef þörf væri á.

62d063d2f75062Páll sagði ennfremur að verið væri að þróa eina vefgátt, „one stop shop“ fyrir samskipti fyrirtækja við stjórnvöld og fengist hefði fjárveiting til þess á fjárlögum ársins 2015.

Í stjórnarsáttmálanum segir að ríkisstjórnin hyggist einfalda regluverk atvinnulífsins og gera það skilvirkara. Sérstakt markmið sé að „engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir.“

Páll sagði að þessi regla væri ekki komin í gagnið; athygli ríkisstjórnarinnar væri nú vakin á því ef nýtt lagafrumvarp fæli í sér íþyngjandi reglur fyrir atvinnulífið, en menn væru ekki komnir svo langt að þá fylgdi alltaf annað frumvarp sem felldi burt aðrar reglur.

Regluverkið hindrar hagræðingu

Ólafur Adolfsson, lyfsali í Apóteki Vesturlands, fjallaði í erindi sínu um þann fjölda lagabálka, reglugerða og eftirlitsstofnana sem lyfjageirinn þyrfti að fást við. Hann færði rök fyrir því að regluverkið kæmi í veg fyrir hagræðingu í geiranum. Með breytingum á regluverkinu myndi apótekum fækka og þau stækka.

Ólafur vakti athygli á því sem hann taldi tilgangslausar reglur; í hverjum mánuði sætu til dæmis 65 lyfjafræðingar sveittir yfir því að fara yfir hvort lyfseðlar samræmdust reglum. Þetta væri tilgangslaus vinna; í fyrra hefðu verið gerðar 156 athugasemdir vegna tæplega 80.000 lyfseðla, flestar mjög smávægilegar. Hægt væri að breyta reglum og gera þetta á rafrænan og einfaldan hátt.

Ólafur sagði að það væri þó fagnaðarefni að stjórnvöld hefðu viðurkennt þörfina á heildarendurskoðun lyfjalaga og að henni væri nú stefnt.

Er ábatinn meiri en kostnaðurinn?

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og formaður ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur, sagði að nauðsynlegt væri að greina kostnað og ábata af alls konar reglum sem fyrirtæki þyrftu að fylgja. Krafa um regluverk kæmi oft úr viðkomandi atvinnugrein sjálfri. Hann tók sem dæmi að um síðustu áramót hefðu verið settar reglur um að arkitektar yrðu að hafa vottað gæðakerfi. Þetta væri ekkert mál fyrir þá sem hefðu verið lengi í bransanum, en fyrir unga arkitekta væri þetta stórmál, sem þeir hefðu ekki efni á. „Það er eftir að sýna mér fram á að ábatinn af þessu sé meiri en kostnaðurinn,“ sagði Gunnar.

Hann sagði sömuleiðis að nauðsynlegt væri að kanna hvernig kostnaður og ábati dreifðust. Oft væri það þannig að ábatinn dreifðist aðallega á þá sem bæðu um reglur, en kostnaðurinn dreifðist á alla.

Gunnar benti á að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerði kostnaðarmat á lagafrumvörpum áður en þau væru lögð fram. Hins vegar færi ekkert kostnaðarmat fram á breytingum sem Alþingi gerir á frumvörpum og þá væri upprunalega kostnaðarmatið lítils virði.

Svigrúm í EES-reglum ekki nýtt

Þóra Björg Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og nefndarmaður í ráðgjafarnefndinni, sagði að sveitarfélögin horfðu til þess í umsögnum sínum um lagafrumvörp hvort þau væru í samræmi við markmið um einföldun regluverks.

Hún benti meðal annars á að við innleiðingu EES-reglna þyrfti að horfa til þess hvaða möguleika og svigrúm til útfærslu þær byðu upp á sem væri ekki íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Stundum væri ekki verið að nýta það svigrúm sem skyldi.

Talsverðar umræður urðu í lok fundar og gerðu fundarmenn úr hópi Félagsmanna FA ýmsar athugasemdir við opinbert eftirlit og regluverk.

Páll Þórhallsson: Sníðum okkur stakk eftir vexti – mótun reglustefnu og eftirfylgni með henni

Ólafur Adolfsson: Þarf júrista í reseptúrinn?

Gunnar Haraldsson: Kostnaður og ábati af regluverki – Framkvæmd og reynsla

Þóra Björg Jónsdóttir: Einföldun regluverks frá sjónarhóli sveitarfélaga

Nýjar fréttir

Innskráning