Falda aflið sýnir sig

08.02.2016

Einhver hreyfing er á málum varðandi flestar tillögur Félags atvinnurekenda, sem settar hafa verið fram undir merkjum Falda aflsins. Þetta kom fram í erindi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félagsins, á opnum fundi um skapandi greinar, sem FA stóð fyrir í tengslum við aðalfund sinn í síðustu viku.

Um er að ræða tólf tillögur sem miða að því að bæta efnahags- og rekstarumhverfi minni og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi. Þær voru fyrst settar fram í september 2013. Ætlunin er að eftir því sem málin vinnast, verði nýjum bætt við, þannig að félagið vinni alltaf að framgangi tólf mála sem skipta miklu máli fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækjanna.

Í máli Ólafs kom fram að tillögur FA varðandi opinbera birtingu ársreikninga og kröfur til endurskoðunar reikninga hjá minni fyrirtækjum væru nálægt því að ná fram að ganga. Þá hefði talsvert miðað í áttina til dæmis varðandi lækkun tryggingagjalds og skilvirkari opinber innkaup. FA hefði hins vegar engar undirtektir fengið hjá stjórnvöldum við tillögum sínum um eðlilega verðmyndun í sjávarútvegi.

Ólafur sagði að til stæði að kalla á ný saman starfshóp um Falda aflið með þátttöku aðildarfyrirtækja FA, annars vegar til að smíða nýjar tillögur í stað þeirra sem væru í höfn og hins vegar til að leita nýrra leiða til að ná árangri varðandi mál sem ekki hefðu náð fram að ganga.


Upptaka af erindi Ólafs

Glærur Ólafs

Falda aflið – allar tillögurnar

 

Nýjar fréttir

Innskráning