Ferskir ferðamenn

24.11.2016

„Endahnútur“, grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 24. nóvember 2016.

Bbl 221116Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í síðustu viku upp þann dóm að bann stjórnvalda við innflutningi á fersku kjöti bryti í bága við EES-samninginn. Þetta kemur engum á óvart sem hefur kynnt sér málið. Fyrir áratug samdi Ísland um að reglur Evrópusambandsins um frjálsa verzlun með ferskt kjöt á milli landa yrðu hluti EES-samningsins. Þegar Alþingi samþykkti árið 2009 að viðhalda banninu brutu þingmenn EES-samninginn vísvitandi og með galopin augun.

Á sínum tíma voru færustu sérfræðingar fengnir til að skoða hvort innflutningur á fersku, heilbrigðisvottuðu kjöti ógnaði heilsu dýra eða manna. Niðurstaða Halldórs Runólfssonar, þáverandi yfirdýralæknis, var að meiri líkur væru á að til landsins bærust dýrasjúkdómar með fólki en með löglega innfluttu hráu kjöti.

Formaður Bændasamtakanna, Sindri Sigurgeirsson, hefur ekki tekið mark á þessu og segir í samtali við Bændablaðið: „Innflutningur á hráu kjöti er ekkert annað en ógn við matvælaöryggi okkar allra.“ Bændasamtökin vilja viðhalda innflutningsbanninu.

Stutt er síðan núverandi yfirdýralæknir, Sigurborg Daðadóttir, lýsti sömu sjónarmiðum og forveri hennar í viðtali við Morgunblaðið; að hættan lægi helzt í vaxandi ferðamannastraumi, ekki í innflutningi löglega framleidds kjöts, sem hefði farið í gegnum „nákvæmlega sama eftirlitskerfi og við erum með.“ Sigurborg benti á að ferðamaður gæti komið til landsins t.d. með hráa pylsu af villtum svínum, sem hann hefði keypt á markaði, hún færi í ruslið og það svo farið í svínafóður.

Árið 2005 komu rúmlega 370 þúsund ferðamenn til Íslands. Nú stefnir í að þeir verði um 1,5 milljónir í ár. Bændur sjá að sjálfsögðu tækifæri í viðskiptum við þennan fjölda með því að bjóða þeim gistingu, mat til sölu og að skoða búreksturinn.

Ætli formaður Bændasamtakanna að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að vilja loka smitleiðum sem að mati tveggja yfirdýralækna eru hættulegri en innflutningur fersks kjöts. Hann hlýtur að vilja láta leita í farangri allra ferðamanna og takmarka mjög samskipti þeirra við bændur.

Eða getur verið að umhyggjan fyrir matvælaörygginu sé bara yfirvarp fyrir gamalkunna viðleitni til að hindra samkeppni við innlenda búvöruframleiðslu?

Nýjar fréttir

Innskráning